Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

859. spurningaþraut: Þemaþraut um 1. september

859. spurningaþraut: Þemaþraut um 1. september

Í tilefni þess að 1. september er í dag, þá flýti ég þemaþrautinni um einn dag og spurningarnar snúast allar um 1. september á einn eða annan hátt.

Fyrri aukaspurning:

Karlinn hér í miðið var handtekinn á Íslandi 1. september 1998. Hann varð í kjölfarið heilmikil fjölmiðlastjarna og kunnur á djamminu. Hvað heitir hann?

***

Aðalspurningar:

1.  Þann 1. september 1715 andaðist í Frakklandi konungur sem ríkt hafði í 72 ár og 110 daga, lengur en nokkur annar. Hvað nefndist þessi langlífi og dýrðlegi konungur? — og númerið verður að vera rétt! 

2.  Annar franskur leiðtogi beið mikinn ósigur á þessum degi löngu síðar, eða 1870. Þá tapaði her hans orrustu gegn Þjóðverjum þar sem heitir Sedan í Norður-Frakklandi og fjórum dögum síðar hrökklaðist þessi franski leiðtogi úr embætti. Hvað nefndist hann? — og aftur verður númerið að vera rétt!   

3.  Þann 1. september 1910 var opnaður spítali í nágrenni Reykjavíkur sem var helgaður umönnun berklasjúklinga. Hvar er þessi spítali?  

4.  Þýskaland var ekki eina ríkið sem réðist inn í Pólland 1. september 1939, þau voru tvö. Hvað var hitt?

5.  Auk innrásar í Póllands er sérstök tilskipun Adolfs Hitlers dagsett 1. september 1939 þótt raunar muni hann hafa skrifað undir hana í október. Þar er kveðið á um kerfisbundin morð á sérstökum þjóðfélagshópi og á næstu misserum voru tugþúsund myrt. Aldrei þessu vant, þá mótmæltu stórir og áhrifamiklir hópar Þjóðverja þessum morðum, og tilskipunin var afturkölluð tveim árum seinna — þótt morðin héldu áfram í kyrrþey. Gegn hvaða þjóðfélagshópi var þessari tilskipun beint?

6.  Þann 1. september 1969 var Idris konungur 1. settur af í tilteknu landi og herforingjastjórn tók við sem mjög skjótlega þróaðist yfir í harðsvírað einræði eins manns. Í hvaða landi hafði Idris verið kóngur?

7.  Þann 1. september 1972 var fiskveiðilandhelgi Íslands færð út og átti eftir að kosta þorskastríð. Lögsagan var færð úr 12 sjómílum í ... hvað?

8.  Sama dag lauk skákeinvígi einu miklu sem fram hafði farið á Íslandi þá um sumarið. Hverjir áttust þar við — og nefna þarf báða!

9.  Á þessum degi árið 1985 fannst tiltekinn og nokkur stór hlutur á 3.800 metra dýpi í Atlantshafinu. Fransk/bandarískur leiðangur var þar á ferðinni, en hver var hluturinn?

10.  1. september 1988 varð kona í fyrsta sinn ráðuneytisstjóri á Íslandi þegar 33 ára kona úr Ólafsvík varð skipuð yfir félagsmálaráðuneytið. Hún starfaði þar lengi en fór svo til utanríkisráðuneytisins og var m.a. sendiherra í Frakklandi í skeið, sem og á Spáni og Ítalíu og víðar. Hún gegndi trúnaðarstöðum innan OECD og þangað til 2020 var hún sendiherra í Rússlandi. Hvað heitir hún?

***

Seinni aukaspurning:

Karlinn hér að neðan fæddist 1. september 1934 en lést fyrir fjórum árum. Hann var leikari, myndlistarmaður og fleira — og jólasveinn! Hvað hét hann?

***

Svör við aðalspurningum:

1.   Loðvík 14.

2.  Napóleon 3. 

3.  Á Vífilstöðum.

4.  Slóvakía.

5.  Fötluðum, jafnt andlega sem líkamlega, og geðsjúkum.

6.  Líbýu.

7.  Fimmtíu.

8.  Fischer og Spasskí.

9.  Flakið af Titanic.

10.  Berglind Ásgeirsdóttir.

***

Svör við aukaspurningum:

Á efri myndinni er Kio Briggs.

Á neðri myndinni er Ketill Larsen.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.
Tengdar greinar

Spurningaþrautin

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Ferðamenn hafi þrengt sér „inn í það allra helgasta“
5
ViðtalFerðamannalandið Ísland

Ferða­menn hafi þrengt sér „inn í það allra helg­asta“

Börn manns sem var jarð­að­ur frá Vík­ur­kirkju í júní segja að ís­lensk­ur rútu­bíl­stjóri hafi hleypt tug­um ferða­manna út úr rútu við kirkj­una um klukku­stund fyr­ir at­höfn. Ferða­menn hafi tek­ið mynd­ir þeg­ar kist­an var bor­in inn fyr­ir at­höfn, reynt að kom­ast inn í kirkj­una og tog­að í fán­ann sem var dreg­inn í hálfa stöng.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár