Leiðin til að sjá nýja eldgosið í Meradölum liggur eftir sama slóða og var farin upphaflega að eldgosinu í Geldingadölum, eftir svokallaðri leið A frá bílastæði við Suðurstrandarveg. Þegar gengið er að hrauninu sem rann í fyrra í dalverpinu þar sem fyrsti gígurinn opnaðist er síðan sveigt til norðurs og svo til austurs á Fagradalsfjalli allt þar til fólk kemur að Langhóli.
Björgunarsveitin Þorbjörn mælir með þessari leið í færslu á Facebook, en varar við því að í rangri vindátt, helst austlægri, getur gasmengun lagt yfir leiðina. Hér er lýsing leiðarinnar frá björgunarsveitinni:
„Best er að leggja bílum á bílastæðið við gönguleið A og ganga svo eftir A leiðinni alla leið upp á Fagradalsfjall. Þegar komið er upp á fjallið er haldið eftir sléttunni til norðausturs þar til gosið sést.
Gangan að nýja hrauninu og gígnum er að lágmarki 7 km aðra leið og hækkunin er um 300m. Það þýðir að heildar gönguferðin getur verið rúmir 14 kílómetrar um nokkuð torfært svæði og eru mjög brattar brekkur í nágrenni gígsins. Gera má ráð fyrir að slík ganga taki 5 til 6 klukkustundir hið minnsta. Gangan að útsýnispalli þar sem gígurinn sést er aðeins styttri eða rétt rúmir 5 km aðra leið.“
Björgunarsveitin mun stika leiðina í kvöld.
Aðrar leiðir eru mögulegar að gosinu. Sjá má leiðir á korti Ferðafélags Íslands sem gefið var út í dag. Athuga ber þó, eins og Stundin fjallar um, að nokkrar líkur eru á því að ný gosop geti opnast, einna helst á kvikuganginum norðaustan við núverandi gossprungu. Gönguleiðin sem liggur austan megin fer yfir líklegan kvikugang og þar getur opnast gosrás með litlum fyrirvara.
Margir fara einnig eftir Langahrygg og horfa á gosið handan hraunsins frá því í fyrra.
Veðurstofa Íslands sendi frá sér kort í dag sem sýnir líklegustu uppkomusvæði nýrra gossprunga. „Nýjar gossprungur geta opnast í næsta nágrenni eldstöðvanna með litlum fyrirvara,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar þar sem er varað við nálægð við hraunjaðarinn. „Glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða sem erfitt er að forðast á hlaupum.“
Hafa ber í huga að aðstæður á leiðinni geta breyst hratt. Þannig rýkur úr jörð skammt ofan við gönguleiðina á Fagradalsfjalli og hefur göngufólk frá því í gær bent á logandi mosa. Vefmyndavél RÚV frá Langahrygg hefur reglulega sýnt frá brunanum þar.
Athugasemdir