Laun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur eru í „engum takti við veruleikann“ að sögn borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins og „út úr öllu korti“ að mati Flokks fólksins. Tillaga um hækkun á launum Bjarna Bjarnasonar, forstjóra OR, var samþykkt á fundi stjórnar OR 27. júní síðastliðinn og var rædd á fundi borgarráðs í gær.
Laun Bjarna hækka um 5,5 prósent afturvirkt frá 1. janúar þessa árs. Stjórn OR samþykkti tillögu starfskjaranefndar um hækkunina, en Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sat hjá. Mánaðarlaun Bjarna eru nú yfir 3 milljónir króna og fær hann 1,2 milljónir greiddar aftur í tímann þar sem hækkunin tók gildi í byrjun árs.
Fundargerð stjórnarfundar OR var rædd í borgarráði í gær. „Á meðan að manneskjur á lágmarkslaunum og undir því eiga ekki fyrir mat út mánuðinn er verið að hækka laun forstjóra sem er á ofurlaunum,“ segir í bókun borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokksins, þeirra Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Trausta Breiðfjörð Magnússonar varafulltrúa. „Það er ljóst að launastefna borgarinnar og fyrirtækja í eigu hennar er í engu takti við veruleikann, þar sem launabilið á milli þeirra hæst launuðu og lægst launuðu er gríðarlegt í því stéttskipta samfélagi sem við búum í.“
„Þeir eru í höfrungahlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum“
Kolbrún Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, lagði einnig fram bókun vegna málsins. „Flokki fólksins finnst þessi laun vera út úr öllu korti. Allir vita hvaða ástand ríkir nú í samfélaginu. Verðbólga hefur ekki verið eins há síðan fyrir hrun. Þurfa ekki forstjórar að axla einhverja ábyrgð eða eru þeir undanþegnir ábyrgð sem öðrum er gert að axla? Það er ekkert lögmál að forstjórar eigi að vera á ofurlaunum. Rökin fyrir svo háum launum forstjóra eru oft á þá leið að þeir séu að standa sig svo vel í starfi. Þetta eru undarleg rök, eins og það sé ekki beinlínis sjálfgefið að forstjóri standi sig vel. Forstjórar orkufyrirtækja eru sárafáir en þeir eru í höfrungahlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum,“ sagði í bókun Kolbrúnar.
Athugasemdir (3)