22 börn og 147 fullorðnir biðu þess í byrjun síðasta mánaðar að vera flutt af landinu. Af þeim höfðu 20 börn og 127 fullorðnir sótt um alþjóðlega vernd en verið hafnað. Sumir þessara einstaklinga hafa beðið lengur en í tvö ár eftir að vera send úr landi en sá sem lengst hefur beðið hefur gert það í meira en fjögur ár.
Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingkonu Pírata, sem spurði út í hversu margir einstaklingar, sem hafa fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, bíða flutnings úr landi.
„...grunnforsenda þess að ekki tekst að flytja einstakling úr landi er skortur á samvinnu af hálfu viðkomandi“
Í svarinu ítrekar Jón að „að grunnforsenda þess að ekki tekst að flytja einstakling úr landi er skortur á samvinnu af hálfu viðkomandi, enda geta allir einstaklingar sem fengið hafa synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, að undanskildum málum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, farið sjálfviljugir af landi brott“.
Ákveði fólk að fara sjálft eftir að óskum þeirra um að vera áfram á Íslandi er hafnað, geti það fengið allt að 3.000 evrur í svokallaðan enduraðlögunarstyrk. Þeir sem ekki hafa valið að fara sjálf úr landi eftir synjun hafa þurft að bíða vegna ýmissa atriða, svo sem „skilyrði sem ríki setja vegna Covid-19, erfiðleika við að fá útgefin ferðaskilríki fyrir þvingaða flutninga eða vegna þess að ríki hafa beðið um tímabundna stöðvun flutninga í fylgd vegna álags í kjölfar stríðsátakanna í Úkraínu,“ eins og segir í svarinu.
Flestir þeirra sem bíða brottflutnings hafa gert það skemur en eitt ár. Þónokkur fjöldi, eða 48, hafa hins vegar beðið lengur en ár en skemur en tvö. 23 einstaklingar hafa beðið lengur en það. Einn hefur svo beðið lengur en í fjögur ár eftir brottflutningi.
Athugasemdir (1)