„Við kynntumst í gærkvöldi klukkan 23.10 á hosteli hér skammt frá sem við gistum bæði á. Við þekktumst ekkert fyrir klukkan 23.10,“ sagði Vanessa, sem er frá Kanada, þar sem hún stóð við hlaðna vegginn við Ingólfstorg, ásamt sínum nýja vini, honum Tillman sem er frá Austurríki. Það var fimmtudagsmorgunn og rigningarsuddi í miðbænum og þau virtust dálítið ráðvillt. „Ég er að reyna að ná sambandi við bílaleigufyrirtækið til að afpanta bíl sem ég var búin að leigja,“ sagði Vanessa. „Við höfum aldrei komið hingað áður og já, við ætlum að fara saman í ferðalag um Ísland,“ sagði Tillman og það vottaði fyrir smá roða í kinnum þeirra beggja.
Smá skot?
Ást?
Fyrsti dagur fallegrar vináttu?
„Ég var búin að borga einhvers konar staðfestingargjald fyrir leiguna á bílnum og vona að ég geti hætt við,“ sagði Vanessa. Hún var búin að ákveða að keyra fyrst um Suðurland. Hann ætlaði norður. Plön sem breyttust klukkan 23.10 á miðvikudagskvöldi. Næstu daga ætluðu þau að fara saman, í allar áttir.
Athugasemdir