Frítt verður í Strætó og í sund fyrir börn á grunnskólaaldri, samkvæmt meirihlutasáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.
Nýr meirihluti í Borgarstjórn Reykjavíkur hefur boðað 18 „fyrstu breytingar“ í borginni. Meðal breytinganna er að gerð verður tilraun með miðnæturopnun í sundi. Þá verður farið í úthlutun lóða í Úlfarsárdal, Kjalarnesi, Hlíðarenda, Gufunesi og á Ártúnshöfða.
Eftirfarandi eru forgangsatriði meirihlutans eins og þau birtast í meirihlutasáttmálanum.
„Fyrstu breytingar“ í Reykjavík
- Við ætlum að ráðast í húsnæðisátak og úthluta lóðum í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, á Hlíðarenda, í Gufunesi og á Ártúnshöfða.
- Við viljum efna til samkeppni um skipulag Keldnalands og Keldnaholts og flýta þannig uppbyggingu svæðanna með tilkomu Borgarlínu.
- Við ætlum að hefja gerð umhverfismats vegna Sundabrautar.
- Við ætlum að beita okkur fyrir gerð húsnæðissáttmála ríkis og sveitarfélaga.
- Við ætlum að hækka frístundastyrk upp í 75 þúsund krónur frá 1. janúar 2023.
- Við ætlum að hafa ókeypis í sund fyrir börn á grunnskólaaldri.
- Við ætlum að hafa ókeypis í Strætó fyrir börn á grunnskólaaldri.
- Við ætlum að koma á næturstrætó.
- Við ætlum að gera tilraun með miðnæturopnun í einni sundlaug, einu sinni í viku.
- Við ætlum að setja viðhaldsátak í leik-, grunn og frístundahúsnæði borgarinnar í forgang og flýta verkefnum eins og kostur er.
- Við ætlum að hefja átak í betri svefni barna og skoða breytingar á upphafi skóladags.
- Við ætlum að setja á fót skaðaminnkandi úrræði fyrir unga karlmenn.
- Við ætlum að stofna framkvæmdanefnd um þjóðarhöll og aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal í samvinnu við ríkið.
- Við ætlum að auglýsa eftir samstarfsaðilum til að þróa hugmyndir um miðstöð jaðaríþrótta í Toppstöðinni í Elliðaárdal.
- Við ætlum að efna til samkeppni um Dans- og fimleikahús í Efra-Breiðholti.
- Við viljum ná samstöðu um að stofna áfangastaða- og markaðsstofu ásamt sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til að efla ferðaþjónustu á svæðinu.
- Við ætlum að hefja framkvæmdir á Hlemmtorgi.
- Við ætlum að efna til samtals við alla borgarfulltrúa um bættan starfsanda og fjölskylduvæna borgarstjórn.
Athugasemdir (1)