Á fimm til tíu sekúndum getur sá sem tekinn er kverkataki misst meðvitund og innan nokkurra mínútna getur kverkatak leitt til dauða. Eftir árásina geta bólgur og bjúgur þrengt að öndunarfærum, jafnvel dregið fólk til bana í svefni. Með öðrum orðum þá er það að taka einhvern kverkataki hugsanlega lífshættuleg árás. Það er ekki að ástæðulausu sem bráðamóttaka Landspítalans er farin að hlúa sérstaklega að konum sem verða fyrir árás af hálfu maka þar sem kverkataki er beitt, það er vegna þess að slíkar árásir geta haft erfið og langvarandi andleg áhrif á þá sem fyrir þeim verða.
Hver er kostnaðurinn? Það fer eftir því hvern þú spyrð.
Aðferð til að ógna lífi
„Ég var viti mínu fjær af hræðslu,“ þannig lýsti kona tilfinningunni þegar hún var tekin kverkataki. „Ég hélt að hann ætlaði að drepa mig.“ Skilaboð læknis sem tók á móti henni á spítalanum voru skýr: Ef þú ert aftur á leið heim til mannsins ertu í lífshættu. Af því að kona sem hefur verið tekin kverkataki af maka sínum er 750 prósentum líklegri til að vera drepin af maka sínum.
Leyfðu þessum tölum að síast inn.
Konur eru tvöfalt líklegri til að vera beittar kverkataki af maka sínum heldur en öðrum. Reyndu að skilja af hverju.
Það að taka hálstaki er aðferð ofbeldismanna til þess að undirstrika vald sitt gagnvart þolendum, ná stjórn á aðstæðum og fyrirbyggja frekari mótspyrnu. Aðferð til að ógna lífi annarrar manneskju, sýna að þeir hafi lífið í lúkunum, sýna meintan mátt sinn og styrk. En þeir skilja ekki að svona gera bara veikir menn. Eini styrkurinn sem hægt er að sýna í þessum aðstæðum er að sleppa takinu, leyfa öðrum að lifa í friði frá ofbeldi og leita sér aðstoðar.
Leitaðu þér aðstoðar
Svo það sé sagt alveg skýrt: Ef þú beitir ástvini ofbeldi þarftu tafarlaust að leita þér aðstoðar. Gerðu það nú þegar, gerðu það áður en það verður of seint. Þín er ábyrgðin.
Ekki vera eins og maðurinn sem var úrskurðaður í nálgunarbann eftir að konan hans leitaði á lögreglustöð. Manninum var gefið að sök að hafa stofnað bankareikning sem hann einn hafði aðgang að en laun hennar voru lögð inn, hótað henni lífláti, veist að andliti hennar og líkama með höggum og spörkum, beitt hana kynferðisofbeldi nánast daglega og eitt sinn tekið hana kverkataki sem varð þess valdandi að hún missti meðvitund.
Skýringarnar sem maðurinn gaf: Hann ætti til að slá frá sér þegar hann væri sofandi og gæti því hafa slegið hana óvart. Einmitt.
Eins og presturinn sagði: „Það er sérstakur staður í helvíti fyrir ...“
Ein af hverjum tíu
Stundum skilur ekkert nema örfá andartök á milli þess sem lifir eða deyr.
Þetta er ein helsta dánarorsökin í heimilisofbeldismálum, sagði hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum og vísaði í stóra alþjóðlega rannsókn sem birt var í læknatímaritinu Journal of Emergency Medicine. Enda ætti kverkatak að vera skilgreint sem morðtilraun að mati sérfræðinga.
Ein af hverjum tíu konum sem leituðu til Landspítalans á árunum 2005 til 2014 vegna heimilisofbeldis höfðu verið teknar kverkataki. Svimi, ógleði og erfiðleikar við kyngingu, voru á meðal einkenna sem þær lýstu. Líka andleg einkenni sem birtust meðal annars í áfallastreituröskun, sem þýðir að áfallið hefur vakið svo alvarlegan ótta, vanmátt eða óhug að breytingar verða á atferli, hugarfari og tilfinningalífi þolenda í að minnsta kosti mánuð eða meira og mögulega til frambúðar.
Kostnaðurinn getur því falist í heilsu og velferð þolenda, öllu sem þeir misstu við ofbeldið og öllu sem þeir þurfa að fórna til að endurheimta eðlilegt líf.
Gjalda fyrir með lífi sínu
Ógnin er raunveruleg.
Á síðustu tveimur árum hafa borist fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi heldur en undanfarin sex ár. Árið 2019 frömdu 100 gerendur endurtekin eða alvarleg brot gagnvart ástvinum. Þeir sem voru tilkynntir, það er að segja. Aftur árið 2020. Ríkislögreglustjóri varaði við því að ofbeldi af hálfu maka geti stigmagnast eftir því sem tíminn líður. Mannslíf geti verið í húfi.
Í helmingi manndrápsmála sem framin voru á tímabilinu 2010 til 2020 voru náin tengsl eða fjölskyldutengsl til staðar á milli brotaþola og geranda.
Í fyrra var maður dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir að verða eiginkonu sinni að bana á heimili þeirra í Sandgerði. Fjórir dagar liðu áður en grunur kviknaði að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað. Við krufningu kom í ljós að banameinið væri köfnun og ákæra gefin út á þeim grundvelli. Fyrir dómi var tekist á um hvort aðrar ástæður lægju að baki andlátinu og um tímasetningu kverkataksins, hvort það hafi verið framið við andlátið eða jafnvel allt að þremur dögum fyrr. Svo maðurinn var látinn laus um tíma.
Kostnaður við kverkatak getur verið lífið sjálft.
En ef það var framið þremum dögum fyrir andlátið, ef ekki tekst að sýna fram á bein tengsl á milli dánarorsakar og kverkataks, þá gengur maðurinn laus.
Vandinn er að áverkarnir koma ekki alltaf strax í ljós. Þess vegna áréttar lögreglan mikilvægi eftirfylgni í slíkum málum. En stundum þarf hún bara að bregðast hratt og örugglega við. Fyrir tveimur árum kallaði kona eftir aðstoð að heimili sínu þar sem sonur hennar var í annarlegu ástandi. Ekki voru talin skilyrði fyrir að fjarlægja hann af heimilinu. Fimm klukkutímum síðar var konan látin.
Hugmyndin um ofbeldismanninn
Ofbeldi er lúmskt, erfitt og flókið viðureignar, ekki síst ef það er af völdum ástvinar. Varnarkerfið virðist eiga auðveldara með að ráða við afneitun, skömm og sektarkennd, heldur en að horfast í augu við ásetning og ábyrgð hins seka. Þessi hugsun að: Ég hefði átt að ..., guð má vita hvað.
Efinn er svo sterkt afl, útskýrði ein. Það var sem heilinn hefði samstundis hafið úrvinnslu áfallsins með því að láta sem ekkert væri. Þannig var nefnilega hægt að halda áfram og lifa af.
Sem leiðir líka til þess að kostnaðurinn getur falist í því að veruleikinn rímar ekki við hugmyndir okkar. Ósamræmið er hrópandi á milli þess sem er og þess sem við viljum að sé. Og það getur haft skaðleg áhrif á geðheilsuna.
Fólk vill almennt trúa á hið góða í fari annarra. Alveg eins og fólk vill trúa á ástvini sína: Að þetta hafi verið mistök, að það gerist ekki aftur, að hann sé nú ekki svona í raun. Ekki eins og hinir. Þeir. Ofbeldismennirnir.
Honum hafi bara ekki verið sjálfrátt, af því að – eitthvað.
Þess vegna er svo mikilvægt að uppræta hugmyndina um hinn alvonda ofbeldismann. Skrímslið. Af því að það er eiginlega enginn alvondur, langflestir eiga sínar góðu hliðar og góðu stundir, og það er mannlegt að vilja halda í það. En sérfræðingar vara við því að eftir því sem lengra líður á ofbeldissamband og ofbeldismaðurinn leyfir sér meira, því alvarlegra verður ofbeldið.
Hættulegt að fara heim
Þess vegna er hættulegt að fara aftur heim.
Þess vegna er líka hættulegt að taka ekki alvarlega ef kallað er eftir aðstoð.
Það er líka hættulegt að láta óátalið að bregðast við hættumerkjum, jafnvel þótt ekki sé óskað eftir aðstoð.
Af því að það er engin leið að vita hvað gerist næst. Eða réttara sagt: Hvað hann gerir næst.
Athugið að hér er talað um gerandann sem hann. Ástæðan er einföld, í tölum ríkislögreglustjóra um ofbeldi af hálfu maka kemur fram að um 80 prósent gerenda eru karlar og um 80 prósent þolenda konur. Niðurstaðan er sú að karlar skaða konur. Ekki allir en nógu margir til að það er ástæða til að taka það alvarlega. Karlar taka enn völd yfir líkama kvenna og það sem verra er, er að þeir komast enn upp með það.
Ganga lausir
Á meðan þolendur greiða fyrir með öryggistilfinningunni, velferð sinni og heilsu – jafnvel lífi sínu – ganga menn lausir sem beita valdi sínu með þessum hætti.
Þegar maður tók sjö ára stjúpson sinn kverkataki var honum gert að greiða 600 þúsund króna miskabætur. Annar mætti á vinnustað dóttur sinnar vegna þess að hún hafði sagt honum að skipta sér ekki af, tók hana kverkataki og gekk nokkur skref með líf hennar í lúkunum. Hann var dæmdur til að greiða henni 370 þúsund króna miskabætur.
Nýlega féll dómur þar sem maður fékk sextíu daga skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að beita sambýliskonuna sína ítrekað kverkataki, áður en hún náði að flýja berfætt út úr húsinu. Það er jafn þungur dómur og maður fékk fyrir að sparka í fætur lögreglumanns og fangavarðar eftir skemmtun. Líka fimmtug kona sem stal samloku úr Krónunni, að verðmæti 997 krónum.
Hvernig á að meta líf og limi fólks?
Við búum í samfélagi þar sem árás sem sérfræðingar skilgreina sem lífshættulega og vilja að sé metin sem morðtilraun er metin til jafns og smáþjófnaður.
Verðmætamat fyrir dómi
Karlmaður gekk í skrokk á barnshafandi sambýliskonu. Lýsingin sem fer hér á eftir er ekki fyrir viðkvæma en hann sneri hana niður, sló hana í andlitið og sló henni utan í skáp. Réðst svo aftur á hana fyrir framan börnin nokkrum mánuðum síðar og sneri hana þá niður aftan frá, sló hana með flötum lófa, tók hana kverkataki, steig á hana og dró á hárinu eftir gólfinu. Þessi maður fékk jafn þungan og vægari dóm en tveir menn sem voru dæmdir á svipuðum tíma fyrir að stela sex hestafla utanborðsmótor, að verðmæti 240 þúsund króna.
Á svipuðum tíma féll annar dómur þar sem maður var dæmdur fyrir að lemja sambýliskonu sína fyrir framan dætur hennar. Árásin var framin af litlu tilefni, eins og sérstaklega var tekið fram í dómnum, en konan lá uppi í rúmi þegar maðurinn réðst á hana með hnefahöggum. Fyrir vikið hlaut hann tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm.
En konan sem stal 300 þúsund krónum frá gamla fólkinu á Hrafnistu fékk fimm mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm. Og maðurinn sem dró að sér fé frá félagasamtökum fékk tíu mánaða fangelsisdóm, þar af sjö mánuði skilorðsbundna. 9,2 milljónir var upphæðin sem hann stal, er öryggistilfinningin þess virði?
Sextíu dagar á skilorði.
Fimm hundruð þúsund.
Kostnaðurinn við kverkatak.
Athugasemdir (1)