Franski heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau, sem stundum hefur verið kallaður heimspekingur frönsku byltingarinnar, sagði að það væri vegna veikleika okkar sem hamingjan væri yfirleitt möguleg.
„Allir fæðast naktir og fátækir; allir mega þola bágindi lífsins, sorgir, veikindi, að vera þurfandi og líða sársauka af öllu mögulegu tagi. Og að endingu eru allir dæmdir til að deyja ... Það er veikleiki manneskjunnar sem gerir hana að félagsveru; það eru sameiginleg bágindi sem snúa hjörtum okkar að mennskunni; við ættum mennskunni ekkert að gjalda ef við værum ekki mennsk. Sérhver tengsl eru til marks um ósjálfstæði. Ef hvert okkar hefði ekki þörf fyrir aðra, þá myndum við tæplega hugsa um að bindast öðrum. Þannig fæðist brothætt hamingja okkar af veikleikum okkar ... Ég fæ ekki skilið hvernig einhver sem þarfnast einskis getur elskað. Ég fæ ekki skilið hvernig einhver sem elskar ekkert, getur verið hamingjusamur.“
Vegna þess að við erum brothætt og þurfandi leitum við stuðnings hvert hjá öðru, snúum hjörtum okkar saman og elskum hvert annað. Án ástar væri hamingjan óhugsandi, segir Rousseau.
„Og hálfkák í ást, er engin ást“
En einmitt vegna þess að stundum tekst okkur að elska – aðra manneskju, land, guð, náttúruna eða eitthvað annað sem er elskuvert – þá bjóðum við líka heim hættunni á ógæfu. Þetta vissu grísku harmleikjaskáldin og skrifuðu leikrit um fólk sem varð fyrir þeirri ógæfu að þurfa að gera upp á milli þess sem það elskaði. Velja eitt fram yfir annað. Einungis fólk sem elskar, eða ber í brjósti sér viðlíka kenndir, getur orðið fyrir tragedíu – ógæfu. Sá sem elskar ekkert getur vissulega orðið fyrir tjóni, en ógæfa slíkrar manneskju er af öðru tagi en þess sem elskar.
Óöryggi og áhætta
Skyldu tímarnir hafa breyst frá því Rousseau skrifaði um ást og hamingju í Émile og Sófókles setti harmleikinn um Antígónu á svið? Svarið er: Já og nei. „Já“ vegna þess að við erum jafn brothætt og vanmáttug og Rousseau lýsir, og líka vegna þess að ef við elskum, þá getum við orðið fyrir ógæfu. En svarið er líka „nei” vegna þess að viðhorf okkar til óöryggis hefur tekið grundvallarbreytingum. Áður fyrr varð fólk einfaldlega að venjast óöryggi, sætta sig við að lifa í heimi sem var fullur af hættum. Þetta breyttist á 20. öld. Í dag stjórna bæði einstaklingar og samfélög lífi sínu eftir lógík tryggingafélaga; hvers kyns óöryggi er breytt í áhættu. Þetta hefur gengið svo langt að sumir tala um samfélag samtímans sem áhættusamfélag (e. risk society).
En hvað kemur þetta ástinni við? Af hverju ætti það að skipta einhverju máli fyrir ástina hvernig við bregðumst við óöryggi í okkar hversdagslega lífi? Eða er þetta ekki allt ósköp jákvætt? Er það ekki vegna þess að við elskum, sem við spennum bílbeltið, skiptum um rafhlöðu í reykskynjaranum og förum í bólusetningu? Vegna þess að við elskum, ekki bara okkur sjálf heldur líka aðra, þá forðumst við áhættu.
„Að gefa sig ást á vald felur í sér mikla áhættu“
Hvað þýðir að breyta óöryggi í áhættu? Áhætta er eitthvað sem fólk hefur val um – fólk tekur áhættu eða tekur hana ekki. Óöryggi er ekki eitthvað sem fólk velur heldur er það einkenni á kringumstæðum fólks og lífsskilyrðum þess. Óöryggi var breytt í áhættu með því að gera það undirorpið vali; búa til velferðarkerfi, lyf og bóluefni svo fólk gæti valið öruggt líf; búa til tryggingar svo bæta mætti tjón af bruna eða hamförum; setja reglur um hönnun húsnæðis og frágang svo enginn fari sér að voða. Allt miðar þetta að því að fólk geti að minnsta kosti lágmarkað áhættuna af því að vera til. Áður fyrr var fólk einfaldlega ofurselt óöryggi og lítið sem það gat gert annað en kannski að eignast mörg börn svo einhver gæti séð um það í veikindum og kröm. En með tryggingum, lyfjum og bóluefnum stendur fólk frammi fyrir áhættu sem það hefur val um hvernig það bregst við.
Á sama tíma og óöryggi var breytt í áhættu varð áhættan söluvara. Að lifa venjulegu lífi er í raun mjög áhættusamt og það hefur einnig reynst mjög arðbært að búa til leiðir til að bregðast við áhættunni. Ef ekki er hægt að útrýma áhættunni, er að minnsta kosti oft hægt að dreifa henni. Við höfum farið frá því að líta á óöryggi sem mannlegt hlutskipti yfir í að líta á mannlegt líf sem undirorpið áhættu sem þó er yfirleitt hægt að bregðast við. Og það er ekki bara hægt að bregðast við áhættunni, hún er eitthvað sem verður að bregðast við. Ef við gerum það ekki, þá breytum við ekki bara heimskulega heldur líka ósiðlega. Það er álitið fela í sér verulega vanrækslu að lifa við áhættu.
Ástin á tímum áhættunnar
Að gefa sig ást á vald felur í sér mikla áhættu. Ástin er áhættusöm. Til að tryggja sig gegn áfalli – lágmarka áhættu – þarf að tryggja sig fyrir þeirri áhættu sem ástinni fylgir. Í inngangi að bókinni Allt um ástina segir bandaríska fræðikonan bell hooks að ungt fólk sé bölsýnt á ástina. Hún vitnar í Harold Kushner, bók hans When All You’ve Ever Wanted Isn’t Enough, þar sem hann skrifar:
Ég óttast að við séum ef til vill að ala upp kynslóð ungmenna sem vaxi úr grasi í ótta við að elska, hrædd við að gefa sig annarri persónu fullkomlega á vald, vegna þess að þau hafa áttað sig á því hversu sárt það er að taka þá áhættu að elska ef það gengur ekki upp. Ég óttast að þau vaxi úr grasi í leit að nánd án áhættu, unaði án þess að nokkuð sé lagt af mörkum sem skiptir máli tilfinningalega. Þau verða svo smeyk við sársauka vegna vonbrigða að þau munu fara á mis við mögulega ást og gleði.
„ Í dag stjórna bæði einstaklingar og samfélög lífi sínu eftir lógík tryggingafélaga; hvers kyns óöryggi er breytt í áhættu“
Það sem Kushner lýsir hér og bell hooks gerir að umræðuefni í sinni bók er óttinn við vonbrigði sem umbreytist í ótta við ást. Óttinn veldur því að fólk leitar leiða til að koma sér í öruggt skjól. Ein leið er að ganga bölsýninni á hönd og hafna ástinni – iðka í staðinn eitthvað sem líkist iðkun ástar en sem hægt er að stunda án þess að taka áhættu, til dæmis „öruggt“ kynlíf. Önnur leið er að dreifa áhættunni, eiga alltaf eitthvað til vara. Ekki setja öll eggin í sömu körfuna, eins og fólk segir. En slík ást er einhvers konar hálfkák. Og hálfkák í ást, er engin ást.
Í áhættusamfélagi samtímans er eðlilegt – beinlínis jákvætt –að hafna ástinni. Siðferði áhættusamfélagsins leggur beinlínis að fólki að hafna ástinni. Eins og Rousseau benti á þá er tvísýnt um að manneskja sem ekkert elskar geti verið hamingjusöm. Með því að forðast áhættu og hafna ástinni vinnur fólk markvisst að eigin ógæfu. Ógæfan kemur ekki til af gráglettni örlaganna eins og í grísku harmleikjunum heldur er hún afrakstur af skipulegri áhættustjórnun. Og fólk vinnur ekki bara markvisst að eigin ógæfu, heldur rær það að því öllum árum að skapa samfélag ógæfu.
Athugasemdir