Stjórnmálaskýrendur á Vesturlöndum sem vilja sýna hvað þeir eru víðsýnir og vel menntaðir í alþjóðapólitík, þeir taka gjarnan í meiri eða minna mæli undir þær fullyrðingar Rússa að ástæða innrásarinnar í Úkraínu hafi meðal annars og ekki síst verið „útþensla NATO í austur“ eða eitthvað í þá áttina. Vissulega réttlæta þeir ekki innrásina en fallast í raun á að Bandaríkin og NATO beri sína ábyrgð á því hvernig komið er.
Í því sambandi þykir mér í meira lagi athyglisvert að þeir Rússar sem yfirhöfuð þora að gagnrýna stríðsrekstur Pútins (enda flestir flúnir land), þeir nefna ALDREI slíkar ástæður fyrir hryllingnum sem nú hefur verið leiddur yfir Úkraínumenn.
Þeir, sem best þekkja jú til, varpa sökinni eingöngu á Vladimír Pútin og þá alræðisstjórn sem hann hefur komið á laggirnar, og er vissulega að sínu leyti beint framhald af bæði keisarastjórn Romanovanna og kommúnistastjórn Sovétríkjanna.
Einn þessara Rússa er Liza Alexandrova-Zorina sem fæddist árið 1984 í smábæ á Kólaskaga en fluttist síðar til Moskvu þar sem hún gerðist rithöfundur, blaðamaður, dálkahöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Hún vakti mikla athygli fyrir skáldsöguna Litli maður sem gerist á heimaslóðum hennar á Kólaskaganum.
Hún fylltist brátt hryllingi yfir stjórn Pútins og fór á endanum úr landi.
Árið 2017 birti hún merkilega grein undir fyrirsögninni Rússland á barmi taugaáfalls en þá voru Rússar byrjaðir að stríða í Donbass í Úkraínu og búnir að leggja undir sig Krímskagann.
Þótt greinin sé skrifuð fyrir fimm árum þykir mér hún merkileg tilraun til að skýra ástandið í Rússlandi þá og virðist nánast spádómur um það sem nú er orðið.
Hún skrifaði:
„Í Rússlandi vill stjórnarandstaðan ekki verða ber að stjórnarandstöðu. Borgararnir vilja ekki berjast fyrir borgaralegum réttindum. Rússneska þjóðin er með fórnarlambakomplex: hún trúir því að hún ráði engu og hún geti engu breytt.
„Þetta hefur alltaf verið svona,“ segir fólk og afgreiðir þannig borgaralegt [civic] getuleysi sitt. Efnahagsöngveiti síðasta áratugar 20. aldar, hinn gleðinauði fyrsti áratugur 21. aldar og járnstjórn Vladimirs Pútins forseta — með sínum þykjustukosningum, spillta embættismannakerfi, einokun fjölmiðlanna, pólitísku réttarhöldum og banni við mótmælum — hafa leitt yfir fólk tilfinningu algers bjargarleysis.
Fólk kýs ekki í kosningum: „Þeir stjórna þessu fyrir okkur hvernig sem fer,“ — mætir ekki á mótmælagöngur: „Þeim verður bara tvístrað,“ og það berst ekki fyrir réttindum sínum: „Við erum þó á lífi og þökkum guði fyrir það.“
140 milljón manna þjóð lifir nú eins og svefngenglar og er á barmi þess að glata síðustu leifum sjálfsbjargarviðleitninnar. Fólk hatar yfirvöldin en er sjúklega hrætt við breytingar.
Það finnur á eigin skinni óréttlætið en þolir ekki aktífista.
Það hatar skrifræðið en lætur sér lynda alltumlykjandi stjórn ríkisins á öllum sviðum lífsins.
Það hræðist lögregluna en styður aukin völd hennar.
Það veit að það er stöðugt verið að blekkja það en trúir samt lygunum í sjónvarpinu.
Þeir sem ekki reyna að komast undan
„Tillærðu bjargarleysi“ var fyrst lýst af bandaríska sálfræðingnum Martin Seligman. Hann gaf tveimur hópum hunda rafmagnsstuð. Hundarnir í öðrum hópnum gátu bundið endi á stuðin með því að ýta á spjald með nefinu, hundarnir í hinum hópnum gátu það ekki.
Svo voru hóparnir sameinaðir og allir hundarnir settir í bás með lága girðingu í kring. Þegar þeim var gefið rafmagnsstuð á ný, þá stukku hundarnir í fyrri hópnum léttilega yfir girðinguna og komust undan.
Hundarnir í seinni hópnum gerðu það ekki.
Rússneska þjóðin er orðin eins og þessi seinni hundahópur.
Að bera sig (ekki) eftir björginni
Maðurinn minn og ég vorum einu sinni í 18 mánuði samfleytt í þorpi 300 kílómetra frá Moskvu í Kaluga-héraði. Þorpið var tiltölulega vel búið vistum og öðru. Íbúarnir voru háværir og kvartgjarnir og gripu til hnífa sinna af minnsta tilefni. Á hverju kvöldi heyrðum við óp og öskur, einhver hafði stolið kjúklingi, einhver hafði eitrað fyrir hundi náunga síns, einhver dregið eiginkonu nágrannans á tálar, einhver hafði verið laminn og elti nú uppi árásarmenn sína með öxi á lofti.
Þetta var atorkusamt og stolt fólk.
Vatnsveita þorpsins var bara tengd örfáum húsum en meirihluti þorpsbúa varð að bera vatn í fötum inn til sín frá gosbrunnum á götunum. Einn kaldan og gráan nóvemberdag þornuðu gosbrunnarnir skyndilega upp. Næsti brunnur var í gljúfri góðan spöl frá bænum og á vetrum voru hlíðar gljúfursins jafnan glerhálar.
Íbúarnir, sem yfirleitt voru svo háværir og rifrildisgjarnir og alltaf til í að hefja átök, þeir töltu nú hljóðir í bragði inn í gljúfrið með vatnsföturnar sínar.
Hið tillærða bjargarleysi
Þegar ég spurði fólkið hversu lengi þessi þurrkur myndi endast, þá svaraði það: „Þangað til í vor.“ Þar sem við hjónin reiknuðum með að þorpsbúarnir hlytu að vita sínu viti, þá byrjuðum við að pakka saman föggum okkar en rétt áður en við lögðum í hann, þá datt mér í hug að hringja í neyðarlínu vatnsveitunnar til að kanna stöðuna.
Fólkið hjá neyðarlínunni kom alveg af fjöllum. Enginn í þorpinu hafði sagt því frá vatnsleysinu og þó var sími næstum í hverju húsi.
Daginn eftir kom hópur verkamanna frá vatnsveitunni, gerði við þá bilun í vatnsturninum sem olli vatnsleysinu og vatnið komst á að nýju. Ef ég hefði ekki hringt hefði fólkið verið vatnslaust fram á vor.
Svipað var upp á teningnum varðandi orkuna. Úrelt rafmagnskerfið í bænum bilaði oft, svo bærinn varð ljóslaus með öllu. Þá þurfti líka að hringja í neyðarlínu en íbúarnir gerðu að aldrei. Meðan ég var þarna var ég í hlutverki kraftaverkamanns. Ef ljósin slokknuðu á nóttunni urðu íbúarnir að sitja í myrkrinu þangað til mér þóknaðist að vakna um hádegið og hringja.
Hið tillærða bjargarleysi umvafði allan bæinn.
Enginn stuðningur við mótmæli
Höfuðborgin Moskva er ekki svo ólík þessu þorpi. Þegar yfirvöldin byrjuðu að loka spítölum og heilbrigðisstofnunum — þar meðal krabbameinsprógrammi sem var í gangi um allt land — þá urðu allir fokreiðir. Þetta var jú vandamál allra. Moskvubúar þurftu að þola skort á meðulum og biðlistar fyrir uppskurði voru skornir niður. „Ókeypis“ heilbrigðisþjónusta almennings dróst saman en ríkisspítölum var breytt í einkasjúkrahús sem fáir höfðu efni á.
Á einu ári var 7.000 heilbrigðisstarfsmönnum sagt upp og 28 heilbrigðisstofnanir voru lagðar niður. Hinir burtreknu læknar stóðu fyrir mótmælum en þá brá svo við að þeir fengu engan stuðning.
Nágrannakona mín seldi sumarbústaðinn sinn til að borga fyrir læknishjálp fyrir son sinn. Í hvert sinn sem ég hitti hana í lyftunni bölvaði hún yfirvöldunum og „umbótunum“ í heilbrigðisþjónustunni. En þegar ég stakk upp á að hún tæki þátt í mótmælum læknanna gegn lokunum stofnana, þá hristi hún höfuðið:
„Til hvers væri það?“
Eina lausnin að koma sér úr landi
Þetta voru alltaf viðbrögðin: „Til hvers væri það? Ekkert mun nokkru sinni breytast.“
Þegar ég spurði hvort enginn hefði á takteinum lausn á málunum, þá var svarið alltaf hið sama: „Eina lausnin er að koma sér úr landi.“
Fyrir flesta Rússa er brottflutningur úr landi ekki annað en draumur en margir þeirra sem geta farið eru nú þegar farnir. Og þeir fyrstu sem fóru voru stjórnarandstæðingarnir sem tóku þátt í mótmælagöngum síðustu árin.
Þeir fóru ekki fyrst og fremst til að sleppa við ofsóknir, heldur frekar af því þeir réðu ekki lengur við hina óbærilegu bjargarleysistilfinningu sem heldur þjóðinni í heljargreipum.
Yfirvöldin nota öll ráð sem þeim stendur til boða til að skapa undirgefið samfélag. Heilaþvottur er orðinn helsta ráðið til að bæla niður hina nú þegar veiku borgaralegu samvitund og hindra frjálsa hugsun í fæðingu.
Að láta skera úr sér heilann!
Fjölmiðlunum er stýrt, þeir eru annaðhvort keyptir eða þeim ógnað af ríkisstjórninni, og það má skipta þeim í stuðningsmiðla Kremlar og þá sem þykjast vera sjálfstæðir. Hvað svo sem maður horfir á, þá er innihaldið það sama: falskar fréttir, stjórnmálamenn að hnakkrífast um keisarans skegg, persónudýrkun á forsetanum, upplýsingaóreiðuherferðir, orð sem ganga í berhögg við gjörðir, fáránlegar viðbætur við gildandi lög og geðveikislegt rugl í þingmönnum — og í sameiningu skapar allt þetta stöðugt áreiti og stress sem umlykur líf okkar.
Að horfa á sjónvarpsfréttirnar jafnvel bara stöku sinnum hefur í för með sér heilakvalir — að horfa á sjónvarpið daglega er eins og að láta skera úr sér heilann vísvitandi.
Rússland er land sem þrífst á mótsögnum. Forsetinn segir okkur til dæmis að hann sé í stöðugri baráttu gegn ólígörkunum en svo sæmir hann þá sömu olígörka orðum fyrir „þjónustu við föðurlandið“. Eða þá að ríkisstjórnin gefur hátíðlega yfirlýsingu um að matvörur muni ekki hækka og mánuði síðar hækka þær um helming.
Engir hermenn í Úkraínu?
Og kirkjuleiðtogar messa yfir okkur að græðgi sé synd og „auðveldara er fyrir kameldýr að komast gegnum nálarauga en fyrir ríkan mann að komast inn í himnaríki“ en svo sjáum við sömu kirkjuleiðtoga úti að keyra í glæsikerrum hinna ríku og valdamiklu. Og embættismenn okkar fullyrða að það séu engir hermenn í Úkraínu en um leið er stöðugt snakk í fjölmiðlum um frábæran árangur hermanna okkar á vígstöðvunum í Úkraínu.
Í svona andrúmslofti hættir fólk að gera greinarmun á hinu bókstaflega og hinu táknræna, fyllist grun um undirferli þar sem ekkert slíkt er finna en missir um leið, þótt mótsagnakennt kunni að virðast, hæfileikann til að lesa milli línanna. Þrýstingur samfélagsins ýtir undir að fólk samþykki mótsagnirnar: trúað fólk á ekki að gagnrýna prestana og gagnrýni á Pútin er er ígildi landráða..
Til þess að vega upp á móti öllum þessum mótsögnum þá stökkva reglulega fram nokkrir þingmenn, klerkar eða menningarpostular og gefa vísvitandi alls óaðgengilegar yfirlýsingar og stinga upp á einhverjum svo fáránlegum aðgerðum að fólki blöskrar og yfirvöldin geta náðarsamlegast hafnað þessari vitleysu.
Konur í fangelsi fyrir að fara á ströndina?
Til dæmis um þetta má nefna þingályktunartillögur um að banna þungunarrof, að refsa samkynhneigðum, að koma á herskyldu fyrir barnlausar konur allt að 23 ára, að svipta fólk rússneskum borgararéttindum ef það giftist útlendingi, og jafnvel að dæma konur sem fara á ströndina án eiginmanna sinna í tíu ára fangelsi, að takmarka slæmar fréttir í sjónvarpinu við tíu prósent fréttatímans, að banna kennslu á þróunarkenningunni í skólum, og svo framvegis.
Tilgangurinn með þessu er að fólk geti aldrei verið víst um fyrirætlanir yfirvaldanna og búist jafnvel við því að einhver af þessum geggjuðu fyrirætlunum verði að veruleika, sem þýðir að fólk endar uppi dapurt og skeytingarlaust um örlög sín.
Það eina sem eftir er fyrir þá sem skammast sín fyrir nútíðina og óttast framtíðina, það er að belgja sig út af stolti yfir fortíðinni. Og þegar engin ástæða finnst til að elska þitt eigið land, hataðu þá nágrannana.
Ef þú getur ekki bætt þitt eigið líf, eyðilegðu þá líf einhvers annars.
Til hvers að ráðast í önnur lönd?
Í Rússlandi hefur fólkið ekkert að segja um málefni ríkisins en fámenn valdastétt ráðskast með auðlindir landins eins og þær væru einkaeign hennar. Til að draga úr sársauka fólks yfir svívirtri virðingu þess, þá leggur ríkisstjórnin áherslu á þjóðlegt stolt.
Til að draga athygli fólks frá baráttu fyrir mannréttindum, þá er boðið upp á stríð.
Hvernig fórum við að því að gleyma í einni svipan að Úkraínumenn eru bræðraþjóð okkar? Af hverju ráðumst við nú óhikað inn í önnur lönd til að „koma á reglu“ þegar alla reglu skortir svo sárlega hér heima?
Svo er sífellt messað yfir okkur hverja við eigum við hata: Bandaríkjamenn, Úkraínumenn, Kínverja, Þjóðverja. Reiðin á að beina eftirtekt okkar frá óréttlæti hvunndagsins og að heimsveldisórum.
Hin dularfulla „rússneska sál“ hefur verið skilgreind af PR-mönnum Kremlar sem blanda saman af mikilli fimi blekkingarvef og stöðluðum þjóðernisfrösum. Rússnesk utanríkispólitík er víðfræg fyrir áherslu sína á hina eilífu baráttu „vina og óvina“ okkar — það eru alltaf við á móti útlendingum, föðurlandsvinir á móti svikurum, Rússar gegn Evrópumönnum.
Undirmaðurinn skammar konuna sína
Þessi formúla er grundvöllur okkar þjóðlegu hugmyndafræði og gefur pólitísku elítunni frítt spil til að kveða niður alla sjálfstæða hugsun.
Annað einkenni á Rússlandi er „færsluhegðun“. Það var Nikolaas Tinbergen sem fyrstur orðaði þetta hugtak og átti við sérhverja hegðun sem veitir útrás fyrir spennu án þess að leysa vandamálið sem veldur spennunni.
Svo dæmi sé tekið, yfirmaður öskrar á undirmann sinn eftir að hafa rifist við konuna sína, og undirmaðurinn, sem þorir ekki að svara fyrir sig, fer sjálfur heim og skammast í sinni konu.
Svona hegðun eru ær og kýr Rússa. Þegar vanhæf ríkisstjórn okkar veldur því að verð á neysluvörum rýkur upp úr öllu valdi og atvinnuleysi eykst, þá getur fólk hvorki skipt um ríkisstjórnina né dregið hana á nokkurn hátt til ábyrgðar, svo í staðinn bölsótast fólk út í forseta Bandaríkjanna og Úkraínumenn.
Og íbúi í litlum bæ þar sem búið er að loka fabrikkunni, spítalanum og skólanum, hann rýkur af stað og skráir sig sem sjálfboðaliða til að berjast í Donbass.
Innblásinn þjóðarvilji
Svona „færsla“ er eina úrræðið fyrir fólk sem verður fyrir hinum endalausa áróðri frá Kreml, áróðri sem fyllir okkur árásargirni en deyfir um leið sýn okkar á þjóðernisofstopa, áróðri sem ruglar veruleikann og æsir upp ofbeldi bæði í orðum og verki. Hysterísku andrúmsloftinu er svo viðhaldið af fjölmiðlunum og það kynnt sem innblásinn þjóðarvilji.
Helstu vopn hinna pólitísku áróðursmanna eru að ata fólki auri, rægja það, móðga, grafa undan ímynd þess og sverta á allan hátt.
En sannleikurinn er sá að skólakerfið hefur alið fólk svo vel upp að áróðurinn gerir ekki annað en staðfesta það sem fólk trúir nú þegar. Fólk getur ekki nema að takmörkuðu leyti hugsað út fyrir þau box sem því hefur verið komið fyrir í. Flestir taka góða og gilda þá vitneskju sem þeir fá frá „trúverðugum heimildum“.
Fréttafölsun fyrir opnum tjöldum
Og þar sem það er langt síðan rússneskir fjölmiðlar þurftu að þola nokkurs konar aðhald almennings, þá fer fréttafölsun fram nánast fyrir opnum tjöldum.
Í sjónvarpinu má sjá leikara fara með hlutverk flóttamanna frá Úkraínu og myndskeið af bandarískum smábæjum sem hvirfilbyljir hafa lagt í rúst eru sögð sýna þorp sem Úkraínumenn hafi lagt í rúst með sprengjuárásum. Alls konar hlutir eru hafðir eftir vestrænum stjórnmálamönnum sem þeir hafa aldrei sagt.
En þó á þessu gangi upp hvern einasta dag, þá er trúaratriði fyrir fólk að viðurkenna aldrei að fréttirnar kunni að vera falsar. Einstaka sinnum kemst upp um einhverja lygina en ekki nema örfáir taka eftir því. Og þeir fáu sem það gera standa andspænis flóði áróðurs sem grefur undan fréttum sem fólk fær að utan (af netinu, frá erlendum fjölmiðlum, pólitískum aktífistum etc).
Því öll þau fyrirbæri eru flokkuð inn í boxin „vinur gegn óvini“. Allar fréttir eru séðar gegnum hugmyndafræðileg gleraugu — sem lita allt í heiminum. Nýjar fréttir frá útlöndum um milljarða dollara auðsöfnun og spillingu vina Pútins eru kallaðar „aðdróttanir erlendra sendimanna“ og hvatningar um að breyta pólitísku lífi í Rússlandi eru kallar „amerískur áróður“.
Útrás í sjónvarpinu, vodka, dópi og stríði!
Bænir um að hætta stríðsrekstrinum í Úkraínu eru kallaðar „and-rússneskar“.
Á kafi í þessu djúpa þjóðernisþunglyndi sínu þá leita Rússar útrásar í sjónvarpinu, vodka, fíkniefnum og stríði. Dánartíðni í Rússlandi er sú hæsta í Evrópu og bara Afganistan og sextán Afríkulönd eru okkur „fremri“ á þessu sviði í öllum heiminum. Einn þriðji af öllum karlmönnum Rússlands mun ekki lifa nógu lengi til að komast á eftirlaun, og átta prósent þjóðarinnar lifir undir fáæktarmörkum.
En um leið státar landið af 131 milljarðamæringi og 180.000 milljónamæringum.
En við munum heyra um neitt af þessu í fréttunum. Af hverju ætti dæmd þjóð að vilja frétta örlög sín? Það er búið að rífa niður allar reglur um félagslegan hreyfanleika og eins konar öfugt náttúrval þrýstir nú óþokkunum á toppinn. Efnahagur Rússlands er að drukkna en björgunarvesti fá ekki aðrir en bankar, ríkisfyrirtækin og þeir sem eru nánir Kremlarstjórn.
Unga fólkið á engar framtíðarvonir
Á hverju ári hverfa æ fleiri þorp og bæir af landakortinu. Unga fólkið á sér engar framtíðarvonir og gamla fólkið fær engin eftirlaun. Úti í héruðunum lifa milljónir manna án nútímaþæginda og í sveitunum býr fólk í niðurníddum húsum og notast við útikamra úr timbri eins og fyrir hundrað árum. Í staðinn fyrir nútímalega upphitun hefur fólk viðarofna og í þessu sæluríki „olíu og gass“ geta svo ótal margir bara látið sig dreyma um gas.
En í jafnvel í fátækustu héruðunum má hvarvetna sjá eitt merki siðmenningarinnar — sjónvarpsdiskinn sem stendur eins og eyra út úr hverju húsi. Á kvöldin sitja íbúar í hrörlegum bæjum og deyjandi þorpum límdir við sjónvarpið og hlusta á stjórnmálaskýrendur, hagfræðinga og alls konar sérfræðinga messa yfir þeim um það hvað allur heimurinn hatar okkur fyrir það eitt að vera Rússar.
Það eina sem þetta fólk á eftir er „föðurlandsástin“ sem það sér í sjónvarpinu og hatrið á þeim sem fólkinu er tjáð að sé óvinurinn í það og það skiptið. Án þessa mundi fólkið ganga af göflunum af örvæntingu, skelfingu og hryllingi.
Allur heimurinn er hræddur við okkur!
Árásargjörn „föðurlandsást“ er orðin sálræn undirstaða allrar þjóðarinnar og bætir okkur upp borgaralega minnimáttarkenndina. Áróðurinn sem streymir frá Kreml ráðskast ekki aðeins með vitund almennings heldur er um leið siðblinda á þjóðarskala.
Atvinnuleysi, efnahagsöngþveiti, fátækt? — En við erum mikil þjóð!
Efnahagurinn að molast undir efnahagsþvingunum? — En allur heimurinn er hræddur við okkur!
Erum við í 91. sæti yfir lífskjör í heiminum, milli Guatemala og Laos? — En Rússland fer sínar eigin leiðir!
Er heilbrigðiskerfið fyrir almenning næstum komið að fótum fram og til að greiða læknisþjónustu fyrir börnin okkar, þá þurfum við að ganga um með betlistafinn? — En rússneski herinn er ekkert slor!
Undir „stöðugleikastjórn“ Pútins hafa streymt til Rússlands 3,5 trilljónir olíudollara en enginn veit inni á hvaða reikningum þessi auðhæfi hafa lent. Auðmýkt þjóðin er rænd af sinni eigin elítu en leitar sér huggunar í heimsveldastefnu og hernaðartali.
Þunglynt raunsæi
Richard Nixon sagði sem svo að einn dollari sem lagður væri í áróður skilaði meiri árangri en tíu dollarar sem varið væri til hergagnakaupa vegna þess að vopnin eru ekki alltaf notuð, en áróðurinn er að störfum hvert sekúndubrot. Pútin hefur sýnt og sannað að Nixon hafði rétt fyrir sér.
Þeir fáu [hér í Rússlandi] sem gera sér fulla grein fyrir því ástandi sem við búum við eru kallaðir „þunglyndir raunsæismenn“ — en það er notað um einstaklinga sem líta raunsætt á málið og trúa ekki áróðri yfirvalda og þess vegna er erfiðara að ráðskast með þá.
Það er ekki auðvelt að vera þunglyndur raunsæismaður — það er miklu auðveldara að vera hamingjusamt fífl.
Hvernig líður þunglyndum raunsæismanni þegar hann horfir upp á vini Pútins dæla milljörðum í banka á Vesturlöndum og kaupa lystisnekkjur sínar og glæsihallir? Hann finnur væntanlega fyrir bjargarlausri og vonlausri gremju. En slíkar tilfinningar gera ekki annað en skemma hugann og auka á þjáningarnar. Þess vegna reyna raunsæismennirnir að finna sér einhverja skynsamlega vörn, einhverja rökrétta skýringu á því hvernig komið er.
Þegar búið er að loka síðustu fæðingardeildinni
Venjulegt fólk endar svo oft á því að dást að elítunni og telur sér trú um að þau gríðarlegu auðæfi sem stjórnmálamenn, kaupsýslumenn og embættismenn hafa rakað til sín séu merki um ótrúlega hæfileika þeirra.
Jafnvel þótt einhver bófinn hafi keypt sér snekkju fyrir milljarð dollara en þú átt ekki aura fyrir læknisaðgerð og jafnvel þótt eiginkona einhvers ráðherra hafi leigt sér heilt hótel í Evrópu undir veisluhöld en það er búið að loka síðustu fæðingardeildinni í heimabæ þínum, þá geturðu ekki látið sjóða í þér reiðina alveg stöðugt.
Það eru takmörk fyrir því hve miklar tilfinningar maður ræður við. Það er miklu einfaldara og sálrænt séð mun þægilegra að sætta sig við ástandið og viðurkenna bara að þú sért annars flokks manneskja.
Ef elítan er nógu sniðug til að vekja hatur óvinarins, þá dugar það vel til að breiða yfir hina skammarlegu staðreynd að að framkvæmdastjóri ríkisfyrirtækis skuli fá á mánuði meira í laun en læknir vinnur sér inn á heilli starfsævi.
Og ef forsetinn okkar er svo valdamikill að allur heimurinn skelfur af ótta frammi fyrir honum, þá er þrælslundin í okkur ekki alveg eins skammarleg.
Hógværð vestrænna leiðtoga vekur hæðni
Þess vegna vekja hógværleg hús vestrænna stjórnmálamanna háðsyrði Rússa um vesaldóm þeirra og fátækt. Við erum stolt af því að elítan okkar eigi stærri hús, stærri snekkjur og yngri hjákonur. Fátæklingarnir okkar fyllast stolti yfir því að sveitarstjórinn í okkar héraði hafi meira umleikis en þingmaður á Evrópuþinginu.
Við tengjum okkur við elítuna af því hún er rússnesk og styður við mýtuna um hvað Rússar séu merkilegir, og hjálpar til við að lina þjáningar okkar vegna þeirrar persónulegu auðmýkingar sem við þurfum að þola.
Rússneska elítan heldur „partí í plágunni“ eins og Púskin orðaði það. Elítan skammast sín ekkert fyrir að ota auði sínum að almenningi sem glímir við fátækt og efnahagsörðugleika. Lífsmáti elítunnar er í engu samræmi við föðurlandspratið í orðræðu hennar.
Það er nánast eins og elítan vilji prófa hve mikið venjulegt fólk láti bjóða sér. Elítan hefur sadíska ánægju af því að að veifa sínu ljúfa lífi framan í bláfátækan almúgann — það er ekki nóg með að hún sé að hreykja sér, heldur er hún í raun að auglýsa algjör yfirráð sín yfir hinum örfátæku.
En í sadómasókísku sambandi nýtur masókistinn sín ekki síður en sadistinn.
Helgur tilgangur þjáningarinnar
Í Rússlandi upphefjum við og leitum að helgum tilgangi í þjáningum okkar. Þjóðernislitteratúr jafnt og kenningar rétttrúnaðarkirkjunnar eru sneifafullar af þessum hugmyndum:
Rússar eru píslarvottar og pínuberar, þolinmóðir og hógværir, María guðsmóðir heldur verndarhendi sinni yfir þeim, en á sama tíma þurfa þeir að þola píslir fyrir þær syndir sem drýgðar voru þá sjö áratugi sem Sovétríkin voru við lýði. Af því stafar þeirra djúpa trú, jafnvel meinlætatrú, og vaxandi áhrif presta sem prédika iðrun og auðmýkt.
Sadómasókískt samfélag eyðir andstöðu innan frá og neyðir andófsmenn út. Það mölbrýtur þá sem sitja uppi innan þess og sameinar þá í beiskleika og biturð. Þannig streitist Rússland á móti pólitísku andófi, þrátt fyrir stöðugar krísur bæði af efnahagslegum og menningarlegum ástæðum. Hinir andlegu komplexar þjóðarinnar eru frjór jarðvegur fyrir harðstjóra, árásargjarna hernaðarstefnu og þjóðernisfantasíur um ímyndaða hefnd.“
Athugasemdir (4)