Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Moskvu, segir að staðan í samskiptum Vesturlanda við Rússa nú sé sú alvarlegasta sem komið hafi upp í gríðarlega langan tíma. Á tímum kalda stríðsins hafi alltaf verið opnar einhverjar samskiptaleiðir, pólitískt og hernaðarlega, en nú virðist sem svo sé ekki upp á teningunum. „Mér finnst einhvern veginn eins og það sem er að gerast núna sé af annarri stærðargráðu og alvarlegra en við höfum séð um mjög langt skeið.“
Árni Þór var staddur hér á landi þegar Stundin ræddi við hann, kom til landsins í síðustu viku og til stóð að hann færi út til Rússlands um liðna helgi en af því varð ekki sökum þess að hann fékk Covid og komst því ekki í flug. Hann var því ekki úti í Rússlandi þegar að innrásin í Úkraínu átti sér stað. „Ég er hins vegar alla daga í samskiptum við mitt fólk í sendiráðinu og fylgist vel með rússnesku miðlunum.“
„Almennir Rússar óska sér ekki stríðsrekstrar“
Spurður hvernig hann meti huga almennings í Rússlandi gagnvart innrásinni í Úkraínu og stríðsrekstrinum sem nú stendur yfir segir Árni Þór að hann telji að hann sé mjög blendinn. „Eins og við er að búast þá er þarna fólk hliðhollt stjórnvöldum sem fær flestar sínar upplýsingar úr fjölmiðlum, sem er mestanpart stýrt af rússneskum stjórnvöldum, og þær upplýsingar eru mjög skoðanamyndandi. Aðrir eru andsnúnir stríðsrekstrinum og við sjáum það á mótmælum sem hafa verið í Moskvu, Pétursborg og víðar. Ég held að það sé almennari andstaða við stríðsreksturinn heldur en andstaðan við stjórnvöld er. Almennir Rússar óska sér ekki stríðsrekstrar.“
Áróður geisar í fjölmiðlum
Árni Þór nefnir að þær upplýsingar sem birtist í fjölmiðlum séu mjög skoðanamyndandi enda séu allir stærstu fjölmiðlar, þar á meðal sjónvarpsstöðvarnar sem hafi afar mikil áhrif, á foræði ríkisvaldsins. Það hafi mjög mikið að segja í áróðursstríðinu sem hafi geisað um margra ára skeið og standi enn gegn Úkraínu. Spurður hvort fréttaflutningur sé þá algjörlega einhlítur segir Árni Þór að aðrir miðlar séu, einkum vefmiðlar, séu til staðar sem séu óháðir. „Það komu í síðustu viku strax skilaboð frá stjórnvöldum um að fjölmiðlar mættu bara fjalla um stríðsreksturinn á grundvelli upplýsinga sem þeir fengju frá stjórnvöldum, annars ættu þeir á hættu að þeim yrði lokað. Þá var það líka gefið út að bannað væri að nota orðið stríð um stríðið, það ætti að nota sérstakar hernaðaraðgerðir (e. Special operations) en ég sé samt að það eru sumar fréttastofur sem eru óhræddar við að tala um þetta sem stríð og stríðsrekstur og þeim hefur ekki verið lokað, ekki enn alla vega.“
Í sögulegu tilliti eru Rússar og Úkraínumenn bræðraþjóðir sem hafa átt mikið saman að sælda. Árni Þór segir að almennt sé hægt að segja að Rússar líti á Úkraínumenn sem frændur og vini. Þó hafi linnulítið áróðursstríð síðustu ára, alveg frá innlimun Krímskaga árið 2014 og raunar enn fyrr, haft áhrif á þessa afstöðu Rússa. „Þetta eru þjóðir sem eiga sameiginlega sögu í árhundruðir, tala svipað tungumál, báðar slavneskar þjóðir og líta á hvora aðra sem frænd- eða bræðraþjóðir. En það sem hefur staðið upp úr í umræðu í fjölmiðlum undanfarin ár um Úkraínu hefur verið mjög neikvætt og það endurspeglast í viðhorfum margra í samfélaginu. Þetta er sem sagt ekki nýr málflutningur. Þessi tónn í Pútín sjálfum upp á síðkastið er kannski heldur groddalegri en verið hefur en sami tónn hefur verið eins og síbylja svo árum skiptir. Fólk heyrir því fátt annað og það eru því ýmsir sem leggja trúnað á þetta. Það er þó ekki einhlítt, það er fullt af fólki sem finnst þetta hrikalegt, á ættingja og vini í Úkraínu og er áhyggjufullt og skelfingu lostið.“
Viðbrögð við viðskiptaþvingunum gætu orðið tvíbent
Þær viðskiptaþvinganir sem Vesturlöndin hafa ráðist í gegn Rússum munu að mati Árna Þórs bíta en hann er ekki viss um hvaða afleiðingar þær muni hafa á álit almennings og stuðning við Pútín forseta. Aðgerðirnar gætu orðið tvíbentar. „Við sjáum að hlutabréfavísitalan hefur fallið, gengi rúblunnar hríðfellur, stýrivextir voru hækkaðir í 20 prósent úr 9 prósentum og verðbólguspá seðlabankans hefur tvöfaldast. Það mun því hafa áhrif á afkomu fólks, klárlega. En viðbrögðin geta verið í báðar áttir. Annars vegar gæti fólk bölvað stríðsrekstrinum og áhrifum hans í þessa veru og þar með aukist gagnrýni á stjórnvöld. Hins vegar gætu einhverjir tekið hinn pólinn í hæðina og kennt hinum vondu Vesturlöndunum um hvað þau fari illa með Rússa. Svo ég held að viðbrögðin geti verið í báðar áttir.“
„Rússland er efnahagslega mun sterkara nú en 2014 þegar Krímskagi var innlimaður og innviðirnir eru sterkari“
En hversu vel er Rússland í stakk búið til að þola langvarandi efnahagslegar refsiaðgerðir? Árni Þór segir að staða landsins sé betri nú en var fyrir nokkrum árum og það hafi verið unnið að því með markvissum hætti að byggja upp efnahag Rússlands. „Gjaldeyrisvaraforðinn er orðinn nokkuð öflugur og framleiðsla innanlands hefur verið aukin. Rússland er efnahagslega mun sterkara nú en 2014 þegar Krímskagi var innlimaður og innviðirnir eru sterkari. Hins vegar sýnist mér að aðgerðir í bankakerfinu séu að frysta allt að helming af gjaldeyrisvaraforða Rússlands. Lokunin á SWIFT greiðslukerfinu þýðir líka að rússnesk fyrirtæki geta ekki verið í viðskiptum við fyrirtæki á Vesturlöndum og öfugt. Rússar geta því ekki selt sínar vörur og ekki heldur staðið í skilum með það sem þeir kaupa. Dæmi um þetta er að stór hluti flugflota Rússlands eru leiguvélar, eins og algengt er orðið í flugrekstri, og nú er verið að innkalla þær, af hálfu eigenda, því Rússar geta ekki staðið í skilum. Þannig að það er ekki bara það að millilandaflug stoppi hjá þeim, vegna flugbannsins, heldur hefur þetta líka áhrif á innanlandsflugið með þessu. Þetta mun örugglega valda þeim verulegum erfiðleikum.“
Menningarleg sniðganga mun bíta
Eitt af því sem verið hefur kallað eftir er að Rússland verði menningarlega sniðgengið. Landinu verði vísað úr íþróttakeppnum og það jaðarsett í menningarsamskiptum. Þegar hafa alþjóða íþróttasambönd og landssambönd í ýmsum íþróttagreinum lýst því yfir að Rússum verði vísað úr keppnum og að lið muni ekki mæta rússneskum liðum. Þá hefur Rússum verið úthýst úr Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, svo dæmi séu nefnd. Árni Þór er ekki í vafa um að slík sniðganga muni hafa áhrif. „Ég held að það sé nánast óumdeilt að það hefði áhrif á almenningsálitið. Bæði íþróttir og menning skipa mjög veglegan sess í rússnesku þjóðfélagi þannig að það mun tvímælalaust hafa áhrif. En enn og aftur má minna á að einhverjir muni túlka það sem svo að hin vondu Vesturlönd séu að koma fram við Rússland af lítilsvirðingu. Þetta hefur samt örugglega áhrif á almenning og íþrótta- og listafólkið sjálft sem í hlut á og þeirra málflutningur gæti haft áhrif.“
Árni Þór nefnir hér að framan að til séu þeir Rússar sem muni líta á allar refsiaðgerðir, sniðgöngu og andóf gegn Rússlandsstjórn sem lítilsvirðingu Vesturlanda. Til eru þeir sem vilja halda því fram að Vesturlönd hafi á undanförnum árum rekið Rússa út í horn í alþjóðlegum samskiptum og að menn hafi ekki sést fyrir í þeim efnum. Innrásin í Úkraínu sé þannig meðal annars viðbragð við því. „Ég fylgist talsvert með umræðu fræðasamfélagsins á sviði alþjóðastjórnmála og þá sér maður röksemdir sem ganga í þessa átt. Rússnesk stjórnvöld hafa haldið því fram að stækkun NATO í austurátt og að landamærum Rússlands sé ógn við öryggi landsins. Það er viðhorf sem almenningur í Rússlandi samsvarar sér með og upplifir vissa ógn fyrir vikið. Ef þú setur þig í spor Rússa er hægt að átta sig á því hvað átt er við. En jafnvel þótt að stefna Vesturlanda hefði mögulega mátt vera einhvern veginn öðruvísi þá breytir það ekki því að það sem rússnesk stjórnvöld eru að gera núna er langt út fyrir öll eðlileg viðbrögð við því.“
„Menn í kringum hann hljóti að hugsa sig um tvisvar eða þrisvar yfir þessari orðræðu“
Pútín lýst því yfir á dögunum að sveitir hersins sem eiga að sjá um beitingu kjarnorkuvopna í yrðu settar í viðbragðsstöðu. Hversu líklegt þykir Árna Þór að forsetinn rússneski sé með því að stíga alvöru skref í átt að beitingu gjöreyðingarvopna?
„Á þessu stigi þykir mér það frekar ósennilegt. Ég tel að þetta sé einhvers konar hótun. Stríðsreksturinn gengur augljóslega ekki eins og lagt var upp með. Ég tel að þetta hafi verið mjög glannaleg hótun og ekki líklegt að af þessu verði eins og sakir standa. En ég held að þetta hljóti að verða til þess að menn í kringum hann hljóti að hugsa sig um tvisvar eða þrisvar yfir þessari orðræðu. Hvort að þeir hinir sömu muni láta á sér kræla er svo annað mál. Hann hefur auðvitað allsherjarvald í raun og veru. Spurningin er bara hvort einhverjir úr æðstu lögum stjórnkerfisins eða í hernum myndu stíga niður fæti. Það er mjög óljóst og ég efast um að það yrði nema um væri að ræða einhver samantekin ráð einhvers hóps og ég sé það ekki alveg gerast. Hvað varðar stjórnarandstöðuna í Rússlandi þá hefur hún alltaf verið mjög tætt. Það eru flokkar í þinginu fyrir utan flokk Pútíns, eins og kommúnistaflokkurinn og öfga hægriflokkurinn en þeir eru meira og minna sammála Pútín í þessum efnum, og finnst hann jafnvel ekki gera nóg. Svo eru það aðrir andstæðingar stjórnvalda, sem eru ekki með fulltrúa í þinginu, sem eru ekki endilega samstíga í þessum fremur en öðru.“
Rússar munu ekki hætta
Árni er enginn nýgræðingur í málefnum Rússlands. Hann nam hagfræði og rússnesku í Óslóarháskóla og síðan framhaldsnám í slavneskum málvísindum við Stokkhólmsháskóla og Moskvuháskóla á árunum 1986-1988, á tímum Sovétríkjanna. Þá var hann fréttaritari Ríkisútvarpsins í Moskvu árið 1988. Árni Þór var sendiherra Íslands í Finnlandi áður en hann tók við sendiherrastöðu í Moskvu, og fór þá með fyrirsvar fyrir diplómatísk samskipti við Úkraínu. Spurður hvort hann telji að hægt sé að finna dæmi um álíka spennu í samskiptum við Rússland áður segir Árni Þór að til þess þurfi alla vega að leita aftur til tíma Sovétríkjanna, og þá mjög langt aftur.
„Ég held að þetta sé einhver alvarlegasta staða sem komið hefur upp í samskiptum Rússlands við Vesturlönd um mjög langt skeið. Á tímum kalda stríðsins var alltaf eitthvað talsamband. Auðvitað skiptust á skin og skúrir á þeim tíma en það voru samt alltaf opnar einhverjar samskiptaleiðir, bæði á pólitíska sviðinu og hernaðarlega sviðinu. Mér finnst einhvern veginn eins og það sem er að gerast núna sé af annarri stærðargráðu og alvarlegra en við höfum séð um mjög langt skeið. Þetta er mjög alvarleg staða að mínum dómi.“
Spurður hvort hann geti spáð fyrir um hvað gerast muni á næstu dögum og vikum segir Árni Þór það því sem næst ómögulegt. „Hvort viðræður milli Rússa og Úkraínumann leiða til einhvers veit maður ekki. Úkraínumenn eru ekki mjög bjartsýnir á það. Kröfur þeirra eru auðvitað vopnahlé og að Rússar dragi herlið sitt til baka. Miðað við hvað Rússar hafa lagt mikið undir þá sé ég það ekki gerast og maður óttast að Rússar haldi bara áfram. Markmið þeirra sé að ná Úkraínu allri á sitt vald og hætta jafnvel ekki þar. Ég tel það þó varla, ég held að markmið þeirra hafi verið að ná Úkraínu undir leppstjórn og þeir muni ekki hætta fyrr en því markmiði hefur verið náð. Það getur tekið lengri tíma en þeir töldu í upphafi og með þeim hörmungum sem slíkur stríðsrekstur hefur í för með sér, ekki síst fyrir almenning. Mér þykir það hrikaleg tilhugsun.“
https://www. commondreams. org/views/2022/02/28/so-what-it-looks-when-corporate-media-opposes-war