Sex konur, sem allar starfa við Digranes- og Hjallaprestakall í Kópavogi, tilkynntu séra Gunnar Sigurjónsson sóknarprest vegna kynferðislegrar áreitni, kynbundins ofbeldis og eineltis. Um er að ræða fjölmörg dæmi um alvarlega kynferðislega áreitni og kerfisbundið, langvarandi kynbundið ofbeldi. Tilkynningar þar um voru sendar til teymis þjóðkirkjunnar gegn einelti og kynferðislegu eða kynbundnu áreiti og ofbeldi. Teymið hefur nú ásakanirnar til meðferðar og búist er við að það skili niðurstöðu sinni á næstu þremur vikum.
Í umfjöllun Stundarinnar sem birtist í síðustu viku og fjallaði um menn sem hefði verið gert að víkja eða kosið að gera svo sjálfir vegna frásagna kvenna um brot þeirra kom fram að sr. Gunnar hefði verið settur í leyfi vegna samstarfsörðugleika. Var þar vísað til umfjöllunnar annarra fjölmiðla sem sagt höfðu frá málinu. Stundin hefur nú fengið staðfest að ekki var um samstarfsörðugleika að ræða heldur það áreiti og ofbeldi sem lýst er hér að framan.
Teymi þjóðkirkjunnar fékk fyrst tilkynningar inn á borð til sín þessa efnis í október á síðasta ári. Í nóvember skiluðu þrjár konur, sem bera að sr. Gunnar hafi beitt þær ofbeldi og áreiti, inn minnisblaði til teymisins. Eftir því sem rannsókn vatt fram hafa fleiri konur bæst í hópinn og hafa nú sex konur stigið fram og lýst brotum sr. Gunnars á hendur sér, með yfirlýsingum hjá teyminu. Þá fullyrða heimildamenn Stundarinnar að skjólstæðingar kirkjunnar hafi einnig orðið fyrir barðinu á sr. Gunnari.
Samkvæmt sömu heimildum mun áreitið og ofbeldið hafa verið með þeim hætti að í það minnst einhverjar kvennanna hafi ekki treyst sér til að starfa áfram við prestakallið. Ásakanirnar hafi verið með þeim hætti að sr. Gunnar hafi verið sendur í leyfi frá störfum, ekki síst til að vernda konurnar sem um ræðir fyrir honum. Þrátt fyrir að umræddar konur treysti teymi þjóðkirkjunnar munu þær vera mjög uggandi um niðurstöðu málsins. Komi sr. Gunnar aftur til starfa muni allar umræddar konur vart treysta sér til að halda áfram störfum í prestakallinu, herma sömu heimildir.
Ekki náðist í sr. Gunnar við vinnslu fréttarinnar.
Athugasemdir (3)