Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Saga Úkraínu: Höfnuðu íslam vegna áfengisbanns

Ill­ugi Jök­uls­son held­ur áfram að rekja hina lit­ríku sögu Úkraínu. Þeg­ar hér er kom­ið sögu hef­ur Úkraína (oft­ast) ver­ið máls­met­andi ríki í þús­und­ir ára, en Rúss­land er enn ekki orð­ið til

Saga Úkraínu: Höfnuðu íslam vegna áfengisbanns
Kíev á miðöldum

Vegna þess að Úkraína er nú í sviðsljósinu, þá fór ég að skoða sögu þessa ríkis, sem reyndist vera lengri og fjölbreyttari en margan grunar.

Hérna er seinni greinin af þeim tveimur sem þegar hafa birst.

Þar var komið sögunni að Slavar voru orðnir ráðandi í Úkraínu og sömuleiðis í laufskógunum allt norður undir Eystrasalt, þar sem nú heita Belarús og Rússland. Lengi undu slavneskir ættbálkar hver á sínu svæði en á níundu öld varð loks til öflugt ríki með Kíev sem þungamiðju.

Víkingar frá Svíþjóð áttu sinn þátt í að stofna það ríki og valdaættin í Kíev var síðan kennd við hinn norræna Rúrik eða Hrærek. Hins vegar liðu aðeins örfáir áratugir þangað til Kíev var orðið slavneskt ríki í húð og hár.

Og það fór að teygja sig í norður inn í laufskógana og tók slavnesku ættbálkana sem þar bjuggu undir sinn ægishjálm.

Prins í Kænugarði

Árið 988 eða þar um bil var Valdimar hinn mikli orðinn prins yfir Kíev-ríkinu og ákvað að þegnar sínir skyldu leggja á hilluna heiðindóm en undirgangast einhver af hinum stóru trúarbrögðum stórveldanna í Evrópu og Miðausturlöndum.

Valdimar er þá sagður hafa gert út sendiboða til múslima, Gyðinga og kristinna manna — bæði kaþólikka Rómarkirkjunnar og rétttrúnaðarmanna í  Miklagarði — og áttu þeir að komast að því hvaða trú myndi henta þegnum Kíev-ríkisins best.

Sendiboðunum leist víst ekki illa á Gyðingdóm en þegar rann upp fyrir þeim að guð Gyðinga hafði svipt sína eigin útvöldu þjóð heimalandi sínu og gert þá að landlausum flóttamönnum, þá fannst sendiboðum það ekki vera guð sem hentaði fyrir nýtt ríki og sögðu nei takk.

Allah guð múslima hafði séð sínum fylgismönnum fyrir miklu landi, svo það var ekki vandamál, en er sendiboðarnir uppgötvuðu að íslam bannaði áfengisdrykkju, þá var íslam þar með úr sögunni!

Þegar sendiboðar mættu til Rómar fannst þeim messuhaldið hjá páfanum svo leiðinlegt að þeir gátu ekki hugsað að afbera annað eins og þökkuðu enn fyrir sig og fóru.

Tekin trú Miklagarðsmanna

Í Miklagarði urðu sendiboðarnir svo dolfallnir yfir tign og fegurð Sófíukirkjunnar og hvernig orþódoxar messuðu að það varð sem sagt gríska rétttrúnaðarkirkjan sem varð fyrir valinu sem hin nýja trú Kíev-ríkis.

Ekki er ljóst hvað er hæft í þessari sögu. Tengsl Kíev við Miklagarð höfðu lengi verið mikil, enda var Kíev á miðri verslunarleiðinni milli Svartahafs og Eystrasalt og svo milli auðugra veiðisvæða djúpt inni í skógunum og Miklagarðs. Það lá því í rauninni beint við að Kíev-menn tækju trú Miklagarðsmanna.

Eftir dauða Valdimars mikla 1015 tók við grimmileg barátta sona hans um yfirráðin í ríkinu. Einn þeirra, Svjatopolk að nafni, er sagður hafa látið drepa þrjá bræður sína í von um að verða traustur í sessi í hásætinu, en hann féll svo sjálfur í valinn, og þá kom Jaroslav bróðir hans til valda.

Jaroslav hafði verið fursti ættarinnar í hinni auðugu verslunarborg Novgorod í norðinu en gerðist nú prins í Kíev allt til dauðadags 1056. Hann hlaut viðurnefnið „hinn vitri“ og á hans dögum varð Úkraínuríkið (sem enn var þó ekki kallað Úkraína) stærst, öflugast og glæsilegast.

Babb í báti Úkraínu

Jaroslav lét samræma lög og treysta innviði ríkisins margvíslega, og hann lét reisa glæsilegar Sófíukirkjur bæði í Kíev og Novgorod — og hann gaf þrjár dætur sínar evrópskum kóngum í vestri: Haraldi harðráða Noregskóngi, Andrési I Ungverjakóngi og Hinriki I Frakkakóngi. 

Og sonardóttir hans gekk að eiga Hinrik IV keisara Germanska veldisins 1084-1105. 

Úkraína virtist því sannarlega komin til að vera í hópi evrópskra stórvelda.

En þá kom babb í bátinn.

Á fáeinum áratugum eftir brotthvarf Jaroslavs hins vitra úr veröldinni, þá fór að kvarnast mjög úr hinu mikla ríki hans og það leystist smám saman upp í nokkur furstadæmi (eða hvað á að kalla þau) sem voru gjarnan sjálfum sér sundurþykk.

Mstislav hinn mikli

Þetta átti sér ekki síst rót í þeim sið prinsa og fursta að skipta löndum sínum milli sona sinna. Vegna þess arna spruttu upp ótal greinar hinnar svonefndu Rúriksættar er bárust á banaspjótum og bæði innan og utan hinna ýmsu furstadæma eða prinsaríkja bárust menn á banaspjótum.

Alla 12. öldina hnignaði Úkraínu og skiptingin í mörg og mismunandi furstadæmi varð sífellt afdráttarlausari.

Mstislav hinn mikli

Valdimar II, sem lést 1125, er gjarnan talinn síðasti Kíev-prinsinn sem réði yfir óskiptu ríki. Á valdatíð sonar hans hófst hnignunin en það var þó enn sláttur á syninum, sem kallast Mstislav hinn mikli og réði ríkjum til 1132. Hann átti í stöðugum styrjöldum — bæði við Kúmana í suðri og svo hina finnskættuðu Eista og baltnesku Litháa í norðvestri, og svo jafnframt við Polotsk í norðri en þar var um að ræða einskonar fyrirrennara Belarús — að því er talið er.

Ættir Mstislavs sýna að Kiev-ríkið hafði þá verið komið á innsta bekk evrópsku stórveldanna, því auk þess sem hann var kominn í beinan karllegg af Jaroslav hinum vitra, þá var einn langafi hans keisari í Býsans en afi hans í móðurætt Haraldur Guðnason konungur Englands.

Í ættboga hans mátti og finna Svíakóng og danska stórhöfðingja. Sjálfur giftist hann dóttur Svíakonungs og hann varð tengdafaðir konunga í Danmörku og Ungverjalandi og keisara í Miklagarði.

En eftir að Mstislav dó fór allt að sundrast og prinsar bárust á banaspjótum og stóðu stutt við á valdastólum, ekki ósvipað og sama Rómaveldis á þriðju öld þegar herstjórar hrintu hver öðrum úr hásæti á fárra missera fresti.

Það var um þessa miðja róstusömu 12. öld sem fyrst heyrist minnst á smáborg eina við Moskvufljót sem var áfangastaður á verslunarleiðinni frá Novgorod (sem taldist einhvers konar kaupmannalýðveldi) og austur og svo suður með Volgu.

Ríkið Vladimir

Aðal borgin á þeirri leið var svo sannarlega ekki Moskva, heldur Vladimir, sem er 180 kílómetrum austar en hin núverandi Moskva. Þar sátu furstar af ætt Rúriks og árið 1169 rændi Andrei guðhræddi frá Vladimir Kíev og tók sér síðan nafnbótina stórprins — til merkis um að hann væri þaðan í frá æðsti fursti þeirra svæða sem enn heyrðu að nafninu til undir Kíev-Rússa.

Suður í hinni eiginlegu Úkraínu gekk enn á með miklum róstum og furstar þar þurftu ekki aðeins að glíma hver við annan og við vaxandi herraskap Vladimírs-fursta.

Í syðsta hluta landsins voru Kúmanar og Kiptjakar hinir vígreifustu, rétt eins og ótal Mið-Asíu þjóðir sem komið höfðu á undan þeim.

Og í vestri voru Pólverjar, náfrændur þeirra gömlu Pólana sem höfðu byggt Kíev og nágrenni, þeir voru farnir að þenja sig í austur. Ekki ber að rugla þeim saman við Polotsk-ríki það sem ég nefndi áðan. 

Mongólar koma

Og svo bætti ekki úr skák að gamli verslunarfélagi Kíev, Mikligarður, laut í duftið fyrir krossförum í byrjun 13. aldar og verslunarleiðir fóru allar í hönk. Kíev-ríkið var nú orðið aðeins eitt af mörgum sjálfstæðum fursta- eða prinsaríkjum á hinu slavneska svæði þar sem nú eru Úkraína, Belarús og Rússland.

Svo kom náðarhöggið þegar Mongólar komu brokkandi laust fyrir miðja 13. öld á sínum knáu hestum langt austan úr löndum og lögðu allt undir sig. Frá innrás þeirra segir síðar en það er auðvelt að halda því fram að með hervirkjum hafi í raun verið lögð drög að þeim ólíku þjóðum sem enn í dag byggja annars vegar Úkraínu og hins vegar Rússland.

Úkraína og nágrenni um 1200.Kíev-ríkið var nú aðeins eitt af mörgum furstadmum.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Indriði Þorláksson
2
Aðsent

Indriði Þorláksson

Veiði­gjöld­in og lands­byggð­in

Eng­in vit­ræn rök eru fyr­ir því að hækk­un veiði­gjalds­ins leiði til þess­ara ham­fara, skrif­ar Indriði Þor­láks­son um mál­flutn­ing Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi vegna fyr­ir­hug­aðr­ar breyt­ing­ar á út­reikn­ingi veiði­gjalda. „Að sumu leyti minn­ir þessi púka­blíst­ur­her­ferð á ástand­ið vest­an­hafs þar sem fals­upp­lýs­ing­um er dreift til að kæfa vit­ræna um­ræðu,“ skrif­ar hann.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
1
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“
Júlía Margrét Alexandersdóttir
3
Það sem ég hef lært

Júlía Margrét Alexandersdóttir

Ekki hlusta á allt sem heil­inn seg­ir þér

Júlía Mar­grét Al­ex­and­ers­dótt­ir hef­ur lif­að með geð­hvörf­um í 15 ár. Hún hef­ur kljáðst við dekksta lit þung­lynd­is og fund­ið fyr­ir und­ur­vellíð­an í man­íu. Í ferl­inu hef­ur Júlía lært að stund­um á hvorki hjart­að né heil­inn at­kvæð­is­rétt. „Stund­um eru það annarra manna heil­ar og annarra manna hjörtu sem vita best.“

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár