Fyrri aukaspurning:
Hvað er á myndinni hér að ofan?
***
Aðalspurningar:
1. Hver skrifaði bókina Skáldatíma, sem fól meðal annars í sér uppgjör við stuðning höfundar við kommúnismann?
2. Árið 1920 hóf starfsemi sína í traustbyggðu húsi við Skólavörðustíg í Reykjavík stofnun sem þótti mikilvægt merki þess að Ísland væri nú orðið fullvalda ríki. Hvaða stofnun var það?
3. Hvað nefnist það svæði í Reykjavík þar sem Norræna húsið stendur?
4. Skírisskógur eða Sherwood Forrest heitir skógur einn í miðju Englandi. Hvaða borg stendur þar nærri?
5. Árið 1954 andaðist rúmlega áttræð kona í París. Henni var neitað um greftrun í vígðri mold af kirkjunni af því hún hafði skilið tvívegis en franska ríkið greip þá inn í og sá henni fyrir veglegri útför á vegum ríkisins. Hún var fyrst kvenna í Frakklandi sem fékk þann heiður. Hún hét Sidonie-Gabrielle Colette og hvað fékkst hún við í lífinu?
6. Í hvaða landi eru Salvador, Fortaleza, Belo Horizonte og Manaus í 4.-7. sæti yfir fjölmennustu borgirnar?
7. Bítillinn John Lennon var tvíkæntur. Hvað hét síðari eiginkona hans?
8. En sú fyrri?
9. „Snert hörpu mína, himinborna dís, / svo hlusti englar guðs í Paradís.“ Hver orti kvæðið sem hefst svo?
10. Karl einn fæddist 1952. Hann gekk í hjónaband um þrítugt og eignaðist tvær dætur með konu sinni. Með tímanum fór að slitna upp úr hjónabandinu og 2003 er sagt að hann hafi eignast þriðju dótturina utan hjónabands. Það hefur þó ekki verið staðfest. Nokkru seinna skildi hann formlega og þá skýrði blað nokkurt frá því að hann væri trúlofaður fimleikastjörnu sem er 30 árum yngri en hann, og hefði eignast með henni nokkur börn. Því neitaði hann. Blaðinu var lokað skömmu síðar. Ljóst er þó að á undanförnum árum hefur hann vissulega verið í sambandi við fyrrnefnda fimleikakonu sem hefur nú borið honum að minnsta kosti þrjú börn. Hver er karlinn?
***
Seinni aukaspurning:
Hvaða ríki tilheyrir svæðið hér að neðan?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Halldór Laxness.
2. Hæstiréttur.
3. Vatnsmýri.
4. Nottingham. Til að allrar nákvæmni sé gætt, þá hlýt ég raunar að gefa rétt fyrir Sheffield líka.
5. Hún var rithöfundur.
6. Brasilíu.
7. Yoko Ono.
8. Cynthia.
9. Davíð Stefánsson.
10. Vladimir Pútin.
***
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni má sjá kryddið túrmerik í ýmsu formi.
Á neðri myndinni er Marmarahafið sem tilheyrir Tyrklandi.
Athugasemdir