„Ég hef því verið að berjast fyrir þessu réttlæti í næstum 23 ár og úrskurður héraðsdóms í morgun er stærsti sigurinn hingað til.“ Þetta segir Erla Bolladóttir en í morgun felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi ákvörðun endurupptökunefndar sem hafði hafnað endurupptöku á dómi Erlu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Erla stefndi íslenska ríkinu og ríkissaksóknara fyrir rúmum tveimur árum. Hún krafðist þess að úrskurður endurupptökunefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu frá árinu 2017 um að synja endurupptöku dóms hennar yrði felldur úr gildi en nefndin komst að þeirri niðurstöðu að mál allra sem sakfelldir voru árið 1980, nema Erlu, skyldu fara aftur fyrir dómstóla en Erla var dæmd fyrir að bera rangar sakir á menn.
„Ég byrjaði að leita réttlætis fyrir mig og fyrir okkur öll sem búum hér á Íslandi árið 1999 en þá hafði ég búið í Suður Afríku í fimm ár og var nýkomin aftur heim. Ég hef því verið að berjast fyrir þessu réttlæti í næstum 23 ár og úrskurður héraðsdóms í morgun er stærsti sigurinn hingað til,“ segir Erla í samtali við Stundina. Erla var sem fyrr segir dæmd fyrir meinsæri í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu árið 1980.
Segir synjun nefndarinnar hafa verið hræðilegt áfall
Í byrjun árs 2017 hafnaði endurupptökunefnd því að mál hennar yrði tekið fyrir að nýju. Erla segist lítið muna eftir þessum degi í febrúar árið 2017 þegar niðurstaða nefndarinnar var birt.
„Ég var á skrifstofu Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns míns og við vorum að lesa skýrsluna og í minningunni finnst mér eins og ég hafi misst máttinn og runnið út af stólnum, það gerðist ekki en það er dökkt ský yfir minningu þessa augnabliks á skrifstofunni. Þetta var hræðilegt áfall,“ segir Erla.
Hún segist hafa farið heim og viljað vera ein. „En fljótlega eftir að ég kom heim hringdi dóttir mín í mig og bað mig að koma og vera hjá sér, manninum sínum og börnum þeirra um helgina. Ég var mjög langt niðri andlega og vildi helst vera ein en svo langaði mig líka til að sjá barnabörnin. Ég fór því til þeirra og gisti þar,“ segir Erla.
„Drengurinn frelsaði mig með þessari spurningu og ég sá að lífið var meira en þessi barátta en að ég ætlaði að halda henni áfram“
Hún segir að börnin hafi fengið skýr fyrirmæli um að vekja hana ekki um morguninn. „Þeim var sagt að ég væri að hvíla mig af því að ég væri dálítið leið. En þegar ég vaknaði um morguninn voru þau öll þrjú komin uppí og sátu til fóta í rúminu. Ég sé þessi kríli þrjú horfandi á mig og ég tárast og þá spyr sú elsta sem þá var átta ára af hverju ég sé að gráta og ég segist nú bara vera með smá tár í augunum. Þá segir strákurinn sem var sex ára: „Amma áttu tyggjó?“ Og við það gerðist eitthvað innra með mér. Drengurinn frelsaði mig með þessari spurningu og ég sá að lífið var meira en þessi barátta en að ég ætlaði að halda henni áfram. Lífið getur líka verið tyggjó,“ segir Erla og hlær. „Ég var að bugast og barnabörnin reistu mig upp og ég vildi halda áfram vegna þeirra og komandi kynslóða. Það hljómar kannski dramatískt en þannig er það bara þetta er mikið atriði fyrir alla Íslendinga, þannig hef ég alltaf hugsað þetta mál. Að þetta sé mál allra, ekki bara mitt en það stendur upp á mig að gera eitthvað í því og þegar lesið var upp dómsorð í héraðsdómi í morgun sá ég loks fyrir endann á því,“ segir Erla Bolladóttir.
staréttarmálsins nr. 214/1978,
Athugasemdir