Ricardo Gustavo, einum sakborninga í Namibíumálinu svokallaða í Namibíu, hefur verið sleppt úr varðhaldi gegn tryggingu. Dómari komst að þessari niðurstöðu í morgun, samkvæmt namibískum fjölmiðlum. Gustavo þarf að reiða fram 800 þúsund Namibíudollara tryggingu, jafnvirði um 6,8 milljóna króna. Ákvörðun dómarans var tekin eftir að Gustavo bauðst til að bera staðsetningarbúnað öllum stundum. Slíkum búnaði verður komið fyrir í bíl hans líka.
Gustavo hefur setið í varðhaldi allt frá því að greint var frá málinu í samstarfi Wikileaks, Kveiks og Stundarinnar undir lok árs 2019 og horfði hann því fram á sín þriðju jól innan fangelsismúranna. Að óbreyttu munu aðrir sakborningar í málinu, svo sem ráðherrarnir fyrrverandi Bernhardt Esau og Sacky Shanghala, þurfa að verja lengri tíma í fangelsi á meðan beðið er eftir að mál þeirra fái meðferð fyrir dómstólum. Kröfum þeirra um að vera sleppt úr haldi hefur ítrekað verið hafnað.
Samkvæmt niðurstöðunni má Gustavo ekki koma innan við 25 kílómetra fjarlægð frá alþjóðaflugvellinum Windhoek og ekki í innan við eins kílómetra fjarlægð frá öðrum flugvelli. Hann þarf að hafa samband við skilorðsfulltrúa tvisvar á sólarhring og verður að halda sig á heimili sínu stærstan hluta dagsins. Þá er honum bannað að hafa samband við nokkurn þann sem tengist Samherjamálinu; vitni eða sakborninga.
Gustavo var starfsmaður fjárfestingafélagsins Investec sem stýrt var af James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformanni namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor og einn sakborninga. Hann sá um að stofna og halda utan um þau félög sem notuð voru til að taka við kvóta vegna milliríkjasamnings Namibíu og Angóla sem er meðal ákæruefna í málinu.
Athugasemdir (1)