Stjórn Úrvinnslusjóðs hafði vitneskju um allt það íslenska plast sem Stundin fann í vöruhúsi í Svíþjóð nýverið. Í október 2020 greindi Stundin fyrst frá því að það mætti finna mikið magn af íslensku plasti í vöruhúsi í smábænum Påryd í Svíþjóð. Samkvæmt fundargerð stjórnar Úrvinnslusjóðs frá 4. nóvember 2020 er fjölmiðlaumfjöllun um sjóðinn sérstaklega rædd. Segir meðal annars í fundargerðinni að gagnrýni á Úrvinnslusjóð í fjölmiðlum hafi verið rædd og að stjórnin myndi senda frá sér yfirlýsingu vegna hennar.
„Rætt um framkomna gagnrýni á Úrvinnslusjóð í fjölmiðlum og upplýsingagjöf sjóðsins, m.a. á vef hans. Lögð voru fram á fundinum drög að spurningum og svörum um starfsemi Úrvinnslusjóðs og drög að yfirlýsingu stjórnar,“ segir í fundargerð sjóðsins.
Sögðust fagna umfjöllun Stundarinnar
Þann 3. desember 2020 sendi svo stjórn Úrvinnslusjóðs frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Í henni fagnar stjórn sjóðsins umfjöllun Stundarinnar og segir að það sé úrvinnsla úrgangs hafi fengið tiltölulega litla athygli í fjölmiðlum undanfarin ár. Hins vegar er ekki minnst á að Úrvinnslusjóður ætli á nokkurn hátt að bregðast við umfjölluninni.
Athugasemdir