Hljómsveitin Hjálmar hefur gefið út lag í samstarfi við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og ljóðskáld, sem byggir á ljóði Kára til eiginkonu sinnar, Valgerðar Ólafsdóttur, sem féll frá fyrr í mánuðinum.
Í ljóðinu endurómar Kári minningar um bjartar og friðsælar sumarnætur og konuna sem hrekur burtu myrkrið innra með honum.
Kári birti einnig ljóð til Valgerðar þegar hann greindi frá andláti hennar 12. nóvember síðastliðinn. „Ástin mín hún Valgerður Ólafsdóttir, sem var förunautur minn í 53 ár, lést á Landspítalanum í gær,“ sagði hann. Annað ljóðið var á ensku, en hitt vísaði til konunnar í appelsínugulum kjól, sem drakk með honum kaffi á Mökka eða Tröð. „Og þú í appelsínugulum kjól og allt sem ég gat gert fyrir þig en gerði ekki og get ekki meir,“ segir hann henni.
Valgerður var þroskasálfræðingur og framkvæmdastjóri Velferðarsjóðs barna. Þau eignuðust þrjú börn saman.
Lagið við ljóð Kára samdi Þorsteinn Einarsson í Hjálmum.
Kári samdi ljóðið í tilefni af 70 ára afmæli Valgerðar. „Ég orti það til hennar í tilefni 70 ára afmælis hennar. Steini samdi lagið og flutti á afmælinu og svo lést Vala rétt rúmum mánuði síðar,“ segir Kári.
Athugasemdir (3)