Valur Freyr Einarsson
leikari
„Fyrir mér er hamingjan eins og ástin. Hún visnar og hverfur ef hún er ekki ræktuð. Góðu fréttirnar eru að það er hægt að rækta hamingjuna á hverjum degi á mjög einfaldan hátt. Bara með því að muna að hún liggur í öllu þessu smáa, góðum kaffibolla, morgunkossi frá þeim sem maður elskar, brosi frá ókunnugum, klappi á bakið, ljósaskiptunum, skemmtilegum samskiptum við börnin, fimmaurabrandara eða faðmlagi; sem er besta lagið. Það hefur reynt á þetta í Kóvíd. Sjálfsagðir hlutir verða lúxus og vinahittingur verður lögbrot. Allt snýst á hvolf og máltækið „enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ verður dagleg áminning. Það er eins með hamingjuna, maður verður lítið var við hana fyrr en óhamingjan bankar á dyr.“
Ingi Bekk
ljósa- og myndbandshönnuður
„Í mörg ár vissi ég ekki hvað hamingjan væri. Ég hafði ekki tíma til að finna hamingju eða finna út úr því hvernig ég fyndi hana. Ég gat ekki hugsað mér að staldra við því það var svo mikið að gera alls staðar, alltaf. Ég hugsaði með mér að þegar ég hefði náð markmiðunum mínum þá kæmi hamingjan og myndi hella sér yfir mig af gríðarlegu afli. Þá yrði ég hamingjusamur, þá yrði ég sko hamingjusamur. Í apríl á þessu ári þurfti ég að rækta hamingjuna því í apríl vildi ég ekki vera til. Ég settist niður í einbreiðan sófa á skrifstofu hjá manni sem hjálpaði mér að skilja hamingjuna og finna hamingjuna. Stundum sökk ég í sófann og greip í áklæðið og stundum þurftum við að stoppa þangað til ég náði að finna brotin af sjálfum mér í einbreiða sófanum og tjasla þeim saman. En síðan fann ég hamingjuna. Hamingjuna fann ég í þriggja sæta sófa heima hjá okkur fjölskyldunni.
Ég fann hana með konunni minni og dætrum mínum meðan við horfðum saman á bíómynd og hlógum, vá, hvað við hlógum mikið.“
Guðrún Daníelsdóttir
aðstoðarleikstjóri
„Hamingja fyrir mig er tímaleysi. Ég hef alltaf verið dugleg að sækja í aðstæður sem gera mig hamingjusama og oft ákveð ég að verðlauna mig ef ég er í strembnum aðstæðum eða löngum tökudögum með framtíðartímaleysi. Hamingja fyrir mig er að gera eitthvað og vita ekki hvað klukkan er. Enda vinn ég í streitumikilli vinnu sem byggist öll á að tímasetningar standist. Ferðalög í húsbílnum, fjallgöngur með hundunum, langir slakir morgnar, útkallsbók á jóladag, spiladagar og spilakvöld, baksund, vera lengi að elda og allt sem er óplanað og stresslaust. Ég er hamingjusöm þegar ég veit ekki hvað klukkan er eða er að bíða eftir að hún verði eitthvað.“
Kamilla Einarsdóttir
rithöfundur og bókavörður
„Einu sinni hélt ég að hamingjuna væri að finna í nóg af ókeypis bjór, elskhugum og svo einhverjum óljósum hugmyndum um að kannski yrði ég einn daginn eitthvað spennó og dularfull svona eins og allar stelpurnar sem kunna að reykja sígarettur og gera á sig svakalega dramatískan eyeliner. En svo gafst ég upp á að eltast við svona lagað. Ég hef svo ódýran bjórsmekk að ég get alveg keypt hann sjálf. Ég nenni varla að veipa svo sígarettureykingar verða áfram bara að vera eitthvað sem ég dáist að í fari annarra og hössl er oftast bara eitthvert rugl. Nú orðið hallast ég að því að hamingjuna sé að finna í dögum þegar ég get horft á þriðju seríu af Simpsons í friði og ró. Ég er samt opin fyrir því að ég sé ekki komin með endanlegt svar við þessu.“
Ásdís Ingþórsdóttir
húsameistari
„Hamingjan kemur þegar þú hættir að leita að henni, bíða eftir henni og trúa því að hún sé áfangastaður. Hamingjan er hér og nú; hamingjan er ferðalagið sjálft. Hamingjan kemur þegar þú leyfir þér að stoppa, taka eftir og njóta. Njóta litlu hlutanna í lífinu, litlu augnablikanna. Hamingjan býr í gönguferð, sólargeisla í gegnum pálmatré, samveru, rós, hlátri, ferðalagi, símtali, sturtu, matarboði, góðri lykt, fallegum skóm, súkkulaði, lifandi tónlist, dansi, mjúku rúmi, snjókomu um jól, tesopa, varðeldi á sumarkvöldi og þögninni. Að taka hamingjuna þannig með sér í gegnum ferðalag lífsins er ákvörðun. Að gera það ekki er líka ákvörðun. Samkvæmt lyfseðli: Ein ákvörðun á dag, endurtakist eftir þörf.“
Athugasemdir