Í byrjun árs 2020, nokkrum vikum áður en kórónuveirufaraldur skall á, var að mínu frumkvæði haldin vinnuvika í velferðarnefnd Alþingis undir yfirskriftinni „Staða heilbrigðiskerfisins“. Tilgangur þessarar vinnu var að rýna í þá slæmu stöðu sem blasti við í heilbrigðiskerfinu og rýndum við í hvað væri vel gert og hvað mætti gera betur, hvar veikleika væri að finna og hvaða lausnir væru mögulegar á þeim viðvarandi vanda sem þar ríkir.
Þarna í janúar 2020 var ekki uppi neitt sérstakt ástand, heldur einmitt þessi viðvarandi vandi líkt og ítrekað hafði komið fram á opinberum vettvangi. Nokkrum vikum fyrr höfðu borist neyðaróp frá yfirfullri bráðamóttöku Landspítala sem og hafði ný skýrsla OECD sýnt svart á hvítu að heilbrigðiskerfið á Íslandi væri vanfjármagnað. Að íslensk stjórnvöld hefðu tekið þá pólitísku ákvörðun að setja töluvert minna fjármagn til heilbrigðiskerfisins en samanburðarríki á Norðurlöndum og öðrum nágrannaríkjum. Kom í ljós í skýrslu OECD að við værum ekki meðal betur settari ríkja heldur undir meðaltali OECD-ríkja þegar kæmi að fjármögnun heilbrigðiskerfisins og verður að hafa þar í huga að á meðal ríkjanna eru þau sem alla jafna flokkast til töluvert fátækari ríkja.
„Það að segja kerfið vanfjármagnað er ekki upphlaup pólitísks andstæðings heldur staðreynd“
Stjórnvöld mótmæltu niðurstöðum skýrslunnar og töldu að taka yrði tillit til ungs aldurs þjóðar en slepptu því hins vegar að nefna hversu mjög legurýmum og gjörgæslurýmum hefði fækkað á undanförnum árum, biðlistar lengst, sem og að sökum fámennis væri óhjákvæmilegt að heilbrigðiskerfið væri í eðli sínu dýrt miðað við höfðatölu. Sömu tækin þyrftu að vera til staðar þrátt fyrir mögulega fáar aðgerðir.
Þarf kannski neyðarstjórn yfir heilbrigðiskerfinu?
Hvers vegna að rifja þetta upp? Jú, vegna þess að þessa dagana fer hátt umræða um neyðarástand á Landspítala og ákall um neyðarstjórn yfir Landspítalann. Sem betur fer lætur starfsfólk Landspítala í sér heyra, því við þurfum að fá upplýsingar um raunverulega stöðu spítalans þar sem beðið er eftir nýjum forstjóra, fjárlög koma ekki fram og nýr heilbrigðisráðherra væntanlegur. Allt starfsfólk lýsir sama ástandinu; öryggi sjúklinga er ótryggt, bið sjúklinga á göngum spítalans er óumflýjanleg, bið sjúklinga eftir aðgerðum óásættanleg og bið eldri sjúklinga eftir útskrift ómannúðleg. Álag á heilbrigðisstarfsfólk er slíkt að nú brestur á með uppsögnum, eitthvað sem við hljótum öll að vera sammála um að sé hvort tveggja í senn, sóun á menntun og hættulegt stofnun sem þegar glímir við mönnunarvanda. Samkvæmt því sem landlæknir greindi nýlega frá starfa hér á landi í kringum 40–65% heilbrigðismenntaðra einstaklinga innan heilbrigðiskerfisins. Nærri helmingur þess fólks sem samfélagið hefur tekið þátt í að mennta í þessum mikilvægu greinum hefur þannig valið að starfa við annað eftir útskrift. Þetta er mikil sóun á mannafla sem og tíma og fjármunum fólks og alls almennings.
Sóun á mannauð sökum vanfjármögnunar
En hvað er það sem veldur þessu? Mönnunarvandi í heilbrigðisgeiranum er ekki séríslenskt fyrirbæri en ég held að það þurfi ekki sérfræðing í málaflokknum til að sjá að með viðvarandi vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins og neikvæðu tali í garð þeirra starfsmanna sem tjá sig fæla íslensk stjórnvöld fagfólk frá því að helga sig þessum störfum. Það er ekki lýsing starfsfólks á raunveruleikanum á vinnustaðnum sem fælir fólk frá þessum störfum heldur stjórnvöld, sem árum og áratugum saman hafa tekið þá pólitísku ákvörðun að vanfjármagna heilbrigðiskerfið. Það að segja kerfið vanfjármagnað er ekki upphlaup pólitísks andstæðings heldur staðreynd sem fengist hefur staðfest hvort tveggja í ofangreindri samanburðarskýrslu meðal ríkja OECD en einnig hafa ýmsar greiningardeildir og hagfræðingar komist að sömu niðurstöðu.
Á dögunum heyrði ég fyrrum formann fjárlaganefndar Alþingis nefna að fjármagn til Landspítala hafi aukist verulega á undanförnum árum svo að það væri eitthvað annað sem væri að valda þessari vondu stöðu. Það er alveg rétt að fjármagn hefur aukist en það hefur ekki verið aukning umfram það sem nauðsynlegt er vegna verðlags og launahækkana. Þá verður einnig að benda á að nauðsynlegt er að taka aukningu fjármagns til heilbrigðiskerfisins á síðustu 18 mánuðum út fyrir sviga þar sem við höfum, líkt og önnur ríki, verið að fást við heimsfaraldur sem hefur eðli málsins samkvæmt kostað umtalsverða fjármuni. Það að íslensk stjórnvöld leggja 8–9% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðiskerfisins á sama tíma og Norðurlöndin leggja til 10–11% gerir ekkert annað en að veikja markvisst heilbrigðiskerfið á sama tíma og þjóðin eldist og ferðamönnum fjölgar umtalsvert.
Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor benti á þessa raunfjármögnun í grein sem birtist í Vísbendingu í haust en þar lýsti hann greiningu sinni síðustu 20 ára á rekstrarframlögum til Landspítala. Sagði hann að færa mætti rök fyrir því að Landspítalann skorti fjármagn þrátt fyrir að fjárframlög hefðu hækkað, vegna launahækkana og hækkunar á verðlagi. Þegar 75% útgjalda rúmlega 6.000 manna vinnustaðar er launakostnaður blasir við að hvert skref í hækkun launa hefur umtalsverð áhrif á heildar rekstrartölur. Það ætti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að vita en samt gaf hann lítið fyrir greiningu Gylfa á fjárhagsvanda spítalans þegar hún kom fram. En það gefur líka augaleið að það verður að nýta starfskrafta og rými eins vel og mögulegt er á jafn stórum vinnustað og Landspítalinn er og þar erum við því miður ekki að gera vel. En er þar við stjórnendur að sakast?
Sóun á fjármunum og ómannúðleg meðferð
Fyrst ber að nefna hversu kostnaðarsamt og ómannúðlegt það er að láta eldra fólk bíða mánuðum saman eftir útskrift á Landspítala, þar sem sólarhringurinn kostar allt að 200 þúsund á sama tíma og sólarhringur á hjúkrunarheimili kostar um 40 þúsund. Þrátt fyrir faglegt starf á Landspítala þá er dvöl á spítala ekki jafn heimilisleg og dvöl á hjúkrunarheimili. Að jafnaði bíða um 130 eldri einstaklingar á Landspítala eftir viðeigandi úrræði. Miðað við ofangreindar kostnaðartölur blasir við mikið óhagræði og óskipulag sem af því hlýst að hafa viðvarandi skort á hjúkrunarrýmum. Spítalinn skal áfram rekinn á sama skammtaða fjármagninu þrátt fyrir að þessi verkefni, sem betur færi að væri sinnt annars staðar, dagi þar uppi. Á sama tíma getur spítalinn ekki sinnt sínu nauðsynlega og lögbundna starfi og biðlistar lengjast í aðgerðir og aðra nauðsynlega sjúkrahúsþjónustu.
En snýst þetta þá bara um að fjármuni vanti fyrir nýjum hjúkrunarrýmum? Í desember 2020 samþykkti Alþingi 1400 milljónir króna fyrir allt að 100 hjúkrunarrýmum. 100 pláss sem losna af Landspítala geta eins og áður var bent á sparað umtalsverða fjármuni. Á þessum tímapunkti höfðu Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu boðið fram tæplega 100 rými og Heilsuvernd á annað hundrað rýma. Var brugðist við með fjárveitingu á Alþingi svo hægt væri að fara í verkið. Í síðustu viku, 11 mánuðum eftir að Alþingi samþykkti fjármunina, slitnaði upp úr viðræðum við Heilsuvernd, enda hafði hinn langi tími sem ferlið tók leitt til þess að það húsnæði sem fyrirtækið ætlaði undir reksturinn á síðasta ári var ekki lengur til reiðu og annað húsnæði sem þá fannst þótti ekki fullnægjandi. Ekkert hefur heyrst af viðræðum við núverandi rekstraraðila hjúkrunarheimila sem starfa undir merkjum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu svo ætla má að fjölgun rýma sé ekki á döfinni þar sem nýbyggð hjúkrunarheimili opna ekki í bráð.
Stjórnvöld sem skila auðu
„Ég hef ekki trú á því að þetta verði leyst með hárri ávísun og afhent inn í kerfið,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í lok sumars þegar erfið staða Landspítala var til umræðu. Við getum ekki eingöngu sett meira fjármagn í kerfið en stjórnvöld geta ekki haldið áfram að vanfjármagna heilbrigðiskerfið með sama hætti og verið hefur. Stjórnvöld eru að setja minna fjármagn í kerfið eins og Gylfi Zoëga benti á þrátt fyrir ákveðna óstjórn í kerfinu. Það er ekkert annað en óstjórn ráðamanna að kvarta á sama tíma yfir kostnaði en láta svo fólk bíða mánuðum saman í mun dýrari rýmum en þurfa þykir. Að halda starfi heilbrigðiskerfisins uppi með sífellt færra starfsfólki sem hleypur fleiri og fleiri yfirvinnustundir í hverjum mánuði er einnig mun dýrara. Greining Gylfa sýndi að miðað við fast verðlag þá séu fjárhæðir til heilbrigðiskerfisins nánast þær sömu og árið 2008 og nemur raunaukning eingöngu um 0,7% á 11 ára tímabili.
Við þurfum framtíðarsýn en ekki skyndilausnir
Við verðum að bregðast við þessu ástandi af alvöru og það strax. Við þurfum að viðurkenna að þetta er verkefni sem okkur ber að sinna með heildarsýn og framsýni að leiðarljósi. Þetta er ekki vandamál heldur nauðsynlegt verkefni í þágu þjóðar. Það þarf að færa hluta verkefna af Landspítala til þeirra sem verkefnum geta sinnt en verkefnið leysist þó ekki eingöngu með hliðrun á rekstrarformi í heilbrigðiskerfinu. Það þarf að tryggja Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum um allt land nægt fjármagn svo þau geti ráðið til sín heilbrigðisstarfsfólk. Það þarf að minnka hér biðlista í heilbrigðiskerfinu sem kosta samfélagið ógrynni fjármuna í vannýtingu mannauðs um allt samfélag og tryggja skilvirkni kerfisins í þaula. Til þess þarf að fækka veggjum milli kerfa og auka fjármagn.
Ég held að óhætt sé að segja að það ríki þjóðarsátt um að setja hærri hlut af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðiskerfisins og ég leyfi mér að fullyrða að eftir nokkur ár munum við sjá af því verulegan ávinning, hvort sem er fyrir notendur heilbrigðisþjónustunnar, starfsfólk hennar eða skattgreiðendur sem greiða þessa þjónustu. Við erum rík þjóð. Stöndum saman að þessu verkefni með öllum tiltækum ráðum.
Athugasemdir