Það var ekki vilji eða meining starfsmannafundar starfsfólks Eflingar síðastliðinn föstudag að Sólveig Anna Jónsdóttir segði af sér sem formaður stéttarfélagsins. Vilji starfsmanna hafi staðið til þess að innanhúsvandamál yrðu leyst í samvinnu við yfirmenn stéttarfélagsins.
Trúnaðarmenn starfsfólks skrifstofu Eflingar hafa sent frá sér yfirlýsingu, fyrir hönd starfsfólks, þar sem þetta kemur fram. Sem kunnugt er sagði Sólveig Anna af sér sem formaður eftir umræddan fund síðastliðinn föstudag. Á honum gerði hún starfsfólki grein fyrir því að tveir kostir væru í stöðunni, annað hvort sendi starfsfólkið út skriflega yfirlýsingu þar sem bornar yrðu til baka lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna stéttarfélagsins frá því í júní síðastliðnum, eða að hún segði af sér formennsku.
Starfsfólkið fundaði í kjölfarið og sendi frá sér yfirlýsingu annars vegar til Ríkisútvarpsins og hins vegar til stjórnenda Eflingar. Sólveig Anna leit svo á að í þeim ályktunum kæmi fram staðfesting á ályktun trúnaðarmanna og leit hún því svo á að um vantraustsyfirlýsingu á hendur sér væri að ræða. Þar með væri henni ekki sætt lengur á stóli formanns.
„Það var ekki vilji eða meining starfsmannafundarins á föstudag að formaður félagsins segði af sér“
Í nýrri yfirlýsingu starfsfólks Eflingar kemur fram að yfirlýsingin síðasta föstudag hafi ekki verið sett fram í þeim tilgangi að lýsa vantrausti á Sólveigu Önnu.
„Það var ekki vilji eða meining starfsmannafundarins á föstudag að formaður félagsins segði af sér. Starfsfólk félagsins hefur unnið af heilum hug samkvæmt þeirri stefnu sem forysta félagsins hefur sett síðustu ár. Fjöldi starfsmanna félagsins starfar hér vegna þeirrar baráttu sem Sólveig hefur háð. Þau vandamál sem starfsfólk ræddi, vildi starfsfólk leysa í samvinnu við yfirmenn.
Yfirlýsingin á föstudag var ekki sett fram í þeim tilgangi að lýsa vantrausti eða hrekja nokkurn úr starfi. Hún var hugsuð sem fyrsta skref á leið til lausnar.
Starfsfólk er, sem endranær, að vinna fyrir félagsmenn með þeirra hag fyrir brjósti.“
Athugasemdir