„Ég man þá tíma á Alþingi þegar beittur stjórnmálaflokkur barðist gegn einkavæðingu og sölu Símans og sérstaklega grunnnetsins og vildi tryggja almannaeign á þessari líftaug þjóðarinnar. Við hétum því þá að endurheimta grunnnetið við fyrsta tækifæri.“
Þetta skrifar Jón Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstri grænna, í grein í Morgunblaðinu í dag. Í greininni birtist lítt dulin gagnrýni Jóns á fyrrverandi flokkssystkini sín vegna aðgerðaleysis þeirra þegar kemur að sölu fjarskiptainnviðafyrirtækisins Mílu til franska sjóðstýringafyrirtækisins Ardian France SA. „Einu af óskabörnum þjóðarinnar er fórnað opinberlega á altari alþjóðlegrar gróðahyggju,“ skrifar Jón og segist bæði dolfallinn yfir fréttunum og jafnframt trúi hann vart sínum eigin eyrum.
„Enginn Landspítali kom, engin jarðgöng, engar skuldir greiddar“
Jón rekur í greininni sögu einkavæðingar Símans árið 2005 og segist vel muna það þegar salan á Símanum hafi verið „keyrð í gegnum þingið af miklu offorsi“. Haldið hafi verið á lofti að hægt yrði að gera ótal margt fyrir þá fjármuni sem fengjust fyrir Símann; byggja nýjan Landspítala, leggja Sundabraut og greiða niður skuldir, svo fátt eitt væri nefnt. Ekkert af þessu hafi orðið að veruleika, skrifar Jón. „Enginn Landspítali kom, engin jarðgöng, engar skuldir greiddar. Og söluverð Símans aldrei greitt.“
Jón minnir líka á að grunnnet Símans hafi ekki átt að aðskilja frá móðurfyrirtækinu en það hafi engu að síður verið gert, þvert á loforð, og það þrátt fyrir að kannanir hafi sýnt að mikill meirihluti þjóðarinnar hafi viljað halda grunninviðum þjóðarinnar í almannaeigu.
Lög og reglur dugi skammt gegn valdi alþjóðlegra auðhringa
Jón víkur síðan aftur að sölunni á Mílu og segir að stjórnvöld séu nú á handahlaupum undan sjálfum sér við að reyna að með lagaflækjum að bjarga grunnrétti þjóðarinnar. Verið sé að þyrla ryki í augu almennings.
Því skorar Jón á stjórnvöld að stöðva söluna á Mílu og endurheimta fyrirtækið í almannaeigu. „Við mörg þráum að sjá forystu í stjórnmálum sem taki af skarið og standi með þjóðinni og byggðum landsins í þessu stóra máli. Við lærðum það í bankahruninu 2009 að betra er að ráða grunnstoðum samfélagsins sjálf. Einhver lög og reglur til heimabrúks duga skammt gegn valdi alþjóðlegra auðhringa. Yfirlýsingar hins nýja franska kaupanda eru þær sömu og hjá íslenskum ráðherrum sem ætluðu aldrei að selja Símann.“
Það er ekki bara Kasper, Jesper og Jónatan.