Fyrir eitthvað um 800 árum eða svo, þá var skip að nálgast höfnina í Atlit á ströndinni skammt suður af Haífa sem nú tilheyrir Ísraelsríki.
Þá var Atlit hluti af ríki kristinna krossfara frá Evrópu sem höfðu lagt undir sig strandlengjuna og nokkuð af uppsveitum Landsins helga.
Þeir vildu ekki að Jerúsalem og aðrir helgir staðir kristindómsins væru undir stjórn múslima.
Því hófust rétt fyrir árið 1100 svonefndar krossferðir frá Evrópu til Landsins helga. Framan af gekk vel og krossfarar náðu Jerúsalem í fyrstu atrennu. Þeir stofnuðu nokkur smáríki á svæðinu en þar kom að múslimar sneru vörn í sókn, og þá fór að harðna á dalnum hjá krossförum.
Sífellt varð að senda nýjar og nýjar krossferðir með liðauka á hinar framandi slóðir.
Um borð í skipinu úti fyrir Atlit var riddari sem við vitum ekki hver var en hann var sennilega vel stæður og vel útbúinn, kannski af aðalsættum. Alla vega átti hann gott sverð, og var fátt meira virði fyrir krossfara.
Kannski tilheyrði hann reglu hinna sögufrægu musterisriddara, því þeir reistu ser kastala við Atlit til að verja siglingaleiðina milli Landsins helga og Evrópu. Chastel Pelerin var kastalinn kallaður í þá daga.
Byrjað var að reisa hann árið 1218 eða um það bil sem drög voru lögð að Sturlungaöld á Íslandi. Þá stóð einmitt yfir fimmta krossferðin, sem svo var kölluð. Kannski var skipið úti fyrir Atlit troðfullt af riddurum sem ætluðu að taka þátt í þeirri krossferð.
En eitthvað kom fyrir. Kannski skall á skyndilegt óveður og skipið fórst 200 metra frá landi. Kannski réðist sjóræningjaskip múslima á skipið og riddarinn ónefndi dró sverð úr slíðrum til að ógna þeim en það kom slinkur á skipið og hann missti sverðið sitt dýrmæta í sjóinn.
Svo mikið er víst að fyrir nokkrum dögum fann frístundakafari sverðið þar sem það lá á hafsbotni á um það bil fjögurra metra dýpi.
Það blasti beinlínis við sjónum í sjónum, alsett kuðungum, þörungum og öðrum sjávardýrum en annars í hinu fínasta ásigkomulagi. Kafarinn myndaði sverðið og tók það síðan með sér upp á yfirborðið og kom því í endur fornleifastofnunar í Ísrael. Þar stendur til að rannsaka það hátt og lágt og hreinsa það svo, og setja það loks til sýnis.
Þetta þykir einn merkilegasti fornleifafundur þar um slóðir í langan tíma, einmitt af því sverðið er svo vel með farið.
Talið er að sverðið hafi legið öldum saman á kafi í sandinum sem hafi hindrað súrefni í að ná að járninu í sverðinu og því hafi það ekki ryðgað. Fyrir skömmu hafi svo óveður rótað sandinum ofan af sverðinu og það komið í ljós.
Fornleifafræðingar eru mjög spenntir fyrir þessum stað og hyggjast rannsaka hann hátt og lágt á næstunni.
Þeir vonast til að finna fleiri muni og munu eflaust gera það ef raunin var sú að skip krossfarans sökk þar úti fyrir Atlit.
Finnist flak af slíku skipi mun það auka þekkingu okkar verulega á krossförunum, útbúnaði þeirra og vopnum.
Þess má geta að sá sem þetta skrifar verður með námskeið um krossferðirnar hjá Endurmenntungarstofnun Háskóla Íslands í nóvember, sjá hlekk á námskeiðið hér.
Athugasemdir