Fyrrverandi framkvæmdastjóri Sorpu, Björn H. Halldórsson, hefur náð sátt við fyrrverandi vinnuveitanda sinn. Björn hafði kært Sorpu fyrir ólögmæta uppsögn eftir að stjórn fyrirtækisins vék honum frá störfum. Ástæða uppsagnarinnar var sögð niðurstaða skýrslu Innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar, en þar kom meðal annars fram að Björn hefði haldið mikilvægum gögnum frá stjórn félagsins vegna byggingar á nýrri gas- og jarðgerðarstöð Sorpu. Fór sú framkvæmd langt fram úr upprunalegum áætlunum og voru vinnubrögð Björns harðlega gagnrýnd í skýrslunni.
Í dag er engin moltuframleiðsla í stöðinni eftir að það kom í ljós að hún var of menguð fyrir dreifingu, þar sem rúmlega 1,5 milljarða króna flokkunarvélar virka ekki sem skyldi. Þá hefur Stundin greint frá því að stöðin uppfylli ekki kröfur starfsleyfis vegna þess hversu mengaður úrgangurinn er sem kemur inn í hana. Einnig fannst mygla einnig í stöðinni í sumar, en stöðin var opnuð fyrir eingöngu einu ári.
Björn kærði Sorpu vegna uppsagnarinnar og krafðist hann rúmlega 167 milljóna króna í skaðabætur. Málið átti að vera tekið upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í þessari viku, en sátt náðist eingöngu tveim dögum áður en málið átti að vera tekið fyrir.
Segir að sáttin sé viðurkenning á broti
Í yfirlýsingu segir Björn að með þessari sátt sé Sorpa að viðurkenna að hafa brotið á sér. „Tveimur dögum áður en aðalmeðferð málsins var fyrirhuguð fyrir héraðsdómi bauð fyrirtækið fram sátt í málinu. Í því felst að sjálfsögðu viðurkenning á því að stjórn Sorpu braut á mér og hafði rangt við og hef ég að vel íhuguðu máli ákveðið að ganga að sáttinni enda er mál að linni. Ég hef snúið mér að öðrum verkefnum og horfi fram á við,“ segir Björn.
Þá kemur einnig fram í yfirlýsingunni að lögsókn hans hafi verið eini möguleikinn til að fá viðurkenningu á að brotið hafi verið á sér.
„Lítið sem ekkert tillit var tekið til andmæla minna og réttur minn til aðgangs að þeim gögnum sem skýrslan átti að byggja á var skertur. Við bættist að allar ákvarðanir stjórnar voru teknar undir vakandi augum fjölmiðla, þar á meðal ákvörðun stjórnar um að afþakka starfskrafta mína og senda mig í launalaust leyfi, veiting áminningar sem ég gat aldrei brugðist við og að lokum formleg uppsögn. Þessi starfslok urðu með þeim hætti að ég sá mig knúinn til að höfða dómsmál gegn fyrirtækinu í þeim tilgangi að fá viðurkennt að ég var beittur rangindum og hafður fyrir rangri sök,“ segir Björn.
Athugasemdir