Dýrin gekk rólega eftir mjúkum sandinum. Þarna í fjöruborðinu var sandurinn svo rakur og gljúpur að fætur dýrsins sukku niður í hann og mynduðu alldjúp fótspor. Dýrið hélt svo áfram ferð sinni og náði fljótlega upp á grýttari strönd þar sem engin frekari fótspor mynduðust.
Dýrið fór ferða sinna, hvaða erindum sem það kann að hafa verið að sinna.
Eftir voru fótsporin. Þrátt fyrir allt var sandurinn ekki rakari en svo að þau máðust ekki strax út. Vaxandi vindur úr suðri blés örfínu eyðimerkurryki ofan í sporin og fyllti þau, svo þau varðveittust þegar sandurinn þornaði og harðnaði smátt og smátt. Á löngum tíma varð hann að sandsteini.
Vindur og regn skoluðu loks ryki og jarðvegi upp úr fótsporunum sem þá blöstu við eins og meitluð í harða steypu. Dýrið sem hafði gengið eftir mjúkum sandi og skilið eftir sig þessi fótspor var löngu dáið og tegund þess útdauð. Það voru liðnar milljónir ára.
En hvaða dýr hafði skilið eftir sig þessi fótspor?
Samkvæmt splunkunýrri rannsókn sem sprenglærðir vísindamenn við fjölda háskóla hafa unnið að, þá var dýrið á ferð þarna í fjöruborðinu fyrir tæplega 6.100.000 árum.
Fyrir rúmlega sex milljónum ára sem sagt.
Og dýrið var af apakyni en gekk upprétt á afturfótunum.
Dýrið var sem sé frummaður. Kannski formóðir eða forfaðir okkar allra, hver veit?
En ef aldursgreining vísindamannanna er rétt, þá er mynd okkar af þróunarsögu mannsins reyndar öll í uppnámi.
Sú mynd hefur hingað til verið nokkurn veginn svona:
Suður í Afríku, líklega í Austur-Afríku, fór tegund frumapa — sem þá þegar var skilin við formæður annarra apategunda eins og simpansa og bónóbóa — hún fór að prófa sig áfram við að ganga upprétt. Það gekk líklega fremur skrykkjótt en fyrir rúmlega þremur milljónum ára var komin fram á sjónarsviðið þar í Afríku tegund svokallaðra suðurapa sem höfðu náð svo mikilli leikni í listinni að ekki varð aftur snúið.
Og suðuraparnir — eins og hin fræga Lucy — gengu stolt í bragði fram í nýjan heim og ýmsar tegundir frummanna tóku svo við keflinu og yfirgáfu að lokum Afríku og dreifðust um bæði Evrópu og Asíu.
Var Lucy ekki formóðir okkar?
Löngu löngu síðar — líklega fyrir „aðeins“ rúmlega 100.000 árum — þá kom svo fram ný manntegund, einnig suður í Afríku, sem líka dreifðist um heiminn út frá heimkynnum sínum þar suður frá: hinn viti borni maður, homo sapiens.
Ef niðurstöður þeirra vísindamanna sem rannsakað hafa sporin í sandinum eru réttar, þá var upprétta dýrið sem gekk eftir fyrrnefndu fjöruborði hins vegar á ferðinni milljónum ára áður en Lucy var á vappi.
Það er í sjálfu sér afar merkilegt.
En ennþá merkilegra er hvar dýrið skildi eftir sig þessi fótspor.
Því það var á Krít, nálægt smáþorpinu Trachilos.
Frá Krít eru 300 kílómetrar yfir til Norður-Afríkustrandar, þar sem styst er, og yfir djúpt Miðjarðarhafið að fara.
Og þaðan suður til Austur-Afríku, þar sem frummenn hafa verið taldir upprunnir, eru 3.000 kílómetrar.
Það er löng leið, jafnvel fyrir þá sem ganga uppréttir.
Í stuttu máli sagt — það er engin leið að skýra hvernig hingað til óþekkt tegund suðurapa (eða frændfólks þeirra) hafi komist svo snemma frá Austur-Afríku til Krítar.
Fyrir sex milljónum ára var Krít hins vegar tengd Evrópu með landbrú yfir til Pelópsskaga og Grikkland var tengd Litlu-Asíu eða Tyrklandi og svo Miðausturlöndum.
En frá Austur-Afríku til Miðausturlanda var ófært skepnum eins og suðuröpum eða frummönnum af hvaða tagi sem var.
Þá, eins og stundum fyrr og síðar, var yfir steindauða eyðimörk að fara og eflaust líka sjó á mörkum Afríku og Miðausturlanda.
Hin snyrtilega mynd af Lucy suður í Austur-Afríku sem lagði land undir fót á heppilegum tíma og dreifðist yfir til Asíu, hún var þegar farin að láta nokkuð á sjá.
Suður í Keníu hafa menn upp á síðkastið til dæmis verið að öðlast æ betri skilning á nýrri tegund einhvers konar frummanna sem fengið hafa fræðiheitið Orrorin tugenensis. Í fljótu bragði virðist þeim svipa allmjög til suðurapa en virðast hafa verið á ferðinni þremur milljón árum á undan þeim.
Þar með verður vægast sagt ólíklegt að suðurapar séu formæður og -feður mannkynsins. Þeir gætu verið hliðargrein sem dó á endanum út.
Nokkuð er óvíst að hve miklu leyti Orrorin bjástraði við að ganga uppréttur, líkt og dýrið á Krít virðist hafa verið farið að gera einmitt um það leyti. Alla vega er ljóst að ef niðurstöður rannsókna á Trachilos-fótsporunum er rétt, þá blasir við sú kenning að uppréttir apamenn hafi þróast fyrst í Evrópu eða Asíu og síðan lagt leið sína suður til Afríku á einhverju því tímabili þegar eyðimörkin mikla hopaði — sem gerðist nokkrum sinnum.
Þýskir hermenn í Grikklandi finna kjálka
Og nú þegar eru menn farnir að dusta rykið af eldri kenningu um að annað dýr sem leifar hafa fundist af á Grikklandi kunni vera að forfaðir mannsins.
Graecopithecus er dýrið kallað. Þýskir hermenn sem voru að grafa fyrir neðanjarðarbyrgi fundu kjálkabein og tennur úr því árið 1944. Upphaflega virtist dýrið vera réttur og sléttur api, en svo fóru að vakna grunsemdir um að það væri á mannrófinu og gæti þess vegna mögulega verið forfaðir mannsins.
En af því Graecopithecus er talinn hafa verið á dögum fyrir 7,2 milljónum ára, þá hafa fæstir vísindamenn hingað til viljað trúa því. Það passaði einfaldlega ekki inn í myndina af Lucy sem formóður okkar að meira en fjórum milljónum ára á undan henni hafi svipað dýr — að breyttu breytanda — verið á ferðinni langt norður í Grikklandi.
Lesa má nánar um Trachilos-fótsporin hér, hér og hér.
En rétt er að hafa tvennt í huga.
Í fyrsta lagi eru ekki allir vísindamenn enn sannfærðir um að Trachilos-fótsporin séu eftir alveg upprétt dýr, né að það geti talist formóðir okkar. Þetta verður allt rannsakað í þaula á næstu árum.
En í öðru lagi, þá breyta þessar niðurstöður engu um að við — homo sapiens — komum alveg áreiðanlega frá Afríku löngu eftir að fokið var í sporin á Krít. Þar suður í álfu þróuðust eftir sem áður afkomendur hinna fyrstu uppréttu frummanna og frá Afríku héldu þau svo aftur á brott og brutu undir sig heiminn.
Athugasemdir