Einn helsti leyndardómurinn í sögu Rómverja hefur ævinlega verið sá hverjir voru og hvaðan komu nágrannar þeirrar og fyrirrennarar norður af Róm, hinir svonefndu Etrúrar. Þeir bjuggu nokkurn veginn á því svæði sem nú kallast Toskana og höfðu heilmikið menningarríki í mörg hundruð ár, meðan Rómaborg stóð varla út úr hnefa.
Menn hefur reyndar lengi grunað að Etrúrar hafi beinlínis stofnað Rómaborg en síðan hafi fólk úr nágrenninu — af latnesku kyni — náð þar yfirráðum og með tímanum tekið að skyggja á nágrannana í Toskana.
Menning Etrúra virðist hafa sprottið upp á 9. öld fyrir Krists burð og náði hátindi sínum kringum árið 650 fyrir Krist. Þá teygðu áhrif Etrúra sig um mestalla Ítalíu.

Kringum árið 500 virðast etrúskir höfðingjar („konungar“) hafa verið reknir frá Rómaborg en næstu hálfu aðra öldina var Róm samt ekki mikið meira en mús undir fjalaketti Etrúra. En svo hófst uppgangur Rómar og hnignun Etrúríu um sama leyti.
Ekki er gott að segja hvað er orsök og hvað er afleiðing í þeirri sögu en svo fór altént að um 265 fyrir Krist voru Rómverjar búnir að leggja undir sig öll lönd Etrúra og urðu þau svo smátt og smátt óaðskiljanlegur hluti rómverskrar menningar og samfélags. Hið merkilega tungumál þeirra gufaði smátt og smátt upp. Sagt er að Claudius keisari (sem ríkti 41-54 eftir Krist) hafi verið einn þeirra síðustu sem kunnu skil á tungu Etrúra.
Mjög margt í stjórnskipan og menningu Rómverja er augljóslega komið frá Etrúrum en þó hafa yfirleitt þótt skörp skil milli þeirra og nágranna þeirra á Ítalíuskaganum.
Einstakt tungumál
Hið fyrrnefnda tungumál Etrúra er til dæmis mjög sérkennilegt og alveg óskylt þeim latneskættuðu tungum sem talaðar voru annars staðar á Ítalíu. Þótt ýmsar áletranir og fáein rifrildi á etrúsku hafi varðveist hefur jafnvel hinum sprenglærðustu fræðimönnum enn ekki tekist að skilja þetta tungumál.
Og margt í list og háttum Etrúra var líka óskylt rómverskum háttum.
Mjög snemma fóru menn að velta fyrir sér hvort Etrúrar hlytu ekki að vera aðkomumenn á Ítalíuskaga úr því þeir skáru sig á svo margan hátt frá öðrum íbúum skagans.
Gríski sagnaritarinn Heródótus sagði til dæmis frá því í sögubók sinni — sem hann skrifaði um 450 árum fyrir Krist — að Etrúrar væru upprunnir í Lydíu í Litlu-Asíu (núverandi Tyrklandi) en hefðu flúið harðindi og hungursneyð til Toskana og sest þar að.
Margir fræðimenn hafa æ síðan aðhyllst þessa kenningu en aðrir leitað að uppruna Etrúra á Balkanskaga eða jafnvel í Austurlöndum.
En nú virðast hinir síseigu DNA-fræðingar búnir að leysa málið.
Þeim tókst að einangra DNA sem þeir fundu í etrúskum gröfum og báru saman við DNA annarra íbúa á Ítalíuskaga.
Og niðurstaðan var óvænt.
Etrúrar reyndust vera nákvæmlega sama fólkið og aðrir Ítalir, þar á meðal Rómverjar. Það var einfaldlega enginn munur á arfgerð þeirra og annarra skagamanna.
Af steppum Úkraínu
Í ljós kom að bæði Etrúrar og aðrir Ítalir voru að stofni til runnir af sama fólkinu og búið hafði á Ítalíuskaga í að minnsta kosti 6.000 ár. Um það bil 1.600 árum fyrir Krists burð hafði hins vegar komið nýtt fólk að austan — fólk upprunnið í Úkraínu, sem nú heitir, eða þar um slóðir.
Fólk sem gjarnan er kallað Indó-Evrópumenn vegna þess að það flutti með sitt tungumál sem í fræðunum er nefnt af indó-evrópskri rót.

Þessir Indó-Evrópumenn virðast hafa dreifst tiltölulega jafnt um alla Ítalíu vegna þess að hlutfall þeirra í DNA Ítala er jafnt, hvar á skaganum sem þeir eru upprunnir.
Þar á meðal virðast hinir nýkomnu „Úkraínumenn“ hafa blandast fólkinu sem fyrir var í alveg sama mæli í löndum Etrúra í Toskana og svo sunnar á skaganum þar sem forfeður Rómverja bjuggu.
En afleiðingarnar urðu samt gerólíkar.
Í Toskana hélt fólk áfram að tala það tungumál sem hafði gert áður en Úkraínumennirnir komu bröltandi yfir Balkanskagann.
Etrúsku.
En annars staðar á Ítalíu tók fólk upp tungu hinna nýkomnu, indó-evrópskt mál sem þróaðist á nokkur hundruð árum yfir í latínu og önnur skylt latínsk mál á skaganum.
Af hverju hélt etrúska velli?
Sem sagt — þótt Úkraínumenn blönduðust öllum Ítölum jafnt, þá var eitthvað við menningu hinna verðandi Etrúra sem olli því þeir streittust á móti menningarlega og lögðu tungumál sitt EKKI á hilluna, heldur tóku hinir nýkomnu þvert á móti að tala etrúsku.
En annars staðar lét menning eða altént tungumál innfæddra í minni pokann, og þar hætti fólk að tala sín tungumál (sem vafalaust voru skyld etrúsku en eru nú horfin með öllu), heldur fór fólk að tala indó-evrópska tungu hinna aðkomnu.
Sem þróaðist yfir í latínu.

Einn þeirra sem tók þátt í rannsókninni var erfðafrðingurinn Cosimo Posth sem starfar við háskólann í Tübingen í Þýskalandi. Hann tók niðurstöðurnar saman á þessa leið á vefsíðunni Science:
„Etrúrar virðast alveg sama fólkið og [latínóarnir] og hlutfall erfðaefnis frá steppubúunum [í Úkraínu] er alveg það sama.“
Málvísindamaðurinn Guus Kroonen, sem líka tók þátt í rannsókninni, bætti svo við þetta:
„Venjulega, þegar indó-evrópskutalandi fólk, flutti inn á ný svæði, þá kom þeirra indó-evrópska tungumál í staðinn fyrir það sem fyrir var. Svo af hverju héldu Etrúrar áfram að tala sitt mál sem var EKKI indó-evrópskt?“
Þetta er hin óvænta niðurstaða og hinn nýi leyndardómur.
Boltinn hjá sagnfræðingum
Þrátt fyrir að sama hlutfall af sömu öflugu Indó-Evrópumönnum flyttust til Toskana eins og til annarra hluta Ítalíu, þá stóðust menning og tunga þessara for-Etrúra „atlöguna“ en ekki mál annarra Ítala, þar menn tóku hægt og hljótt upp tungu aðkomumanna um leið og þjóðirnar blönduðust.
Enn einn forráðamanna rannsóknarinnar var Michael McCormick, sagnfræðingur við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Hann segir að næsta skrefið sé að grafast fyrir um hvað það hafi verið við menninguna í Toskana sem olli því að menningin þar hélt velli í rúm þúsund ár, þótt annars staðar yrði menning aðkomufólks ofan á.
„Nú er boltinn aftur hjá okkur sagnfræðingunum og fornleifafræðingunum,“ segir McCormick, „að reyna að skilja hvað það var við menningu Etrúra sem gerði henni kleift að lifa svo lengi.“
Gen og menning ekki hið sama
Og Anthony Tuck, fornleifafræðingur við háskólann í Massachusetts, sem reyndar var ekki viðriðinn rannsóknina, bendir á að niðurstaðan minni okkur á að gen og menning séu ekki eitt og hið sama. Það vilji oft gleymast, segir hann, þegar fólk rannsakar þjóðflutninga fyrri tíma.
„Við drögum oft þá einfeldningslegu ályktun að [fólk hljóti að deila bæði] genum og menningu,“ segir Tuck. „Þessar niðurstöður sýna fram á að fólk getur ástundað menningu sem á ekkert skylt við erfðamengi þess.“
Athugasemdir