Hollenska konungsfjölskyldan kemst ekki oft í sviðsljós fjölmiðla en það gerðist þó í gær þegar dúkkaði upp í fjölmiðlum svar forsætisráðherrans Mark Ruttes við skriflegri spurningu nokkurra þingmanna um málefni konungsfjölskyldunnar þar í landi.
Þingmennirnir spurðu hvort krúnuhafi eða erfingi krúnunnar þyrfti að segja af sér ef hann eða hún gengi að eiga einstakling af sama kyni, svo sem öllum er heimilt að gera í Hollandi.
Rutte svaraði að vitaskuld væri engin ástæða til afsagnar þótt um slíkt hjónaband yrði að ræða í konungshöllinni. Ef þessi staða kæmi upp og spurningar vöknuðu um ríkiserfðir, þá myndu fólk takast á við hana þegar þar að kæmi og áreiðanlega leysa málið farsællega.
Spurningin virðist sprottin af því að Katrín-Amalía krónprinsessa Hollands verður 18 ára í desember en þá telst hún vera orðin fullgildur ríkisarfi samkvæmt hollenskum lögum.
Bróðir Napóleons
Hún kláraði stúdentspróf í vor og mun ætla að taka sér frí frá námi í eitt ár en hefur afsalað sér fé upp á tæpar tvær milljónir evra sem hollenskum kóngabörnum stendur til boða þegar þau verða 18 ára.
Í tilefni af þessari nokkuð óvæntu uppákomu í Hollandi, þá segir hér af konungsfjölskyldunni hollensku.
Árið 1581 slitu Hollendingar sig undan Spánverjum og þá var stofnað svonefnt lýðveldi en yfir það settur „staðarhaldari“ og í reynd fór svo að það embætti gekk í erfðir rétt eins og konungdómur.
Næstu tvær aldir varð Holland heilmikið veldi og siglingamenn landsins mjög rómaðir.

Árið 1795 var svo gerð bylting í Hollandi og staðarhaldaranum Vilhjálmi 5. vikið frá en síðan tók við umrót Napóleonsstyrjaldanna þegar Holland féll undir Frakkland. Þá gerði Napóleon keisari Loðvík bróður sinn að konungi Hollands.
Tugir óskilgetinna barna konungsins
Eftir að Napóleon var úr sögunni 1815 var sonur Vilhjálms 5. og nafni settur á konungsstól og kallaðist Vilhjálmur 1. þar sem nú hafði staðarhaldaratitillinn verið lagður á hilluna. Árið 1830 fengu suðurhéruð Hollands sjálfstæði undir nafninu Belgía, Vilhjálmi til mikillar gremju, og hann sagði svo af sér konungstigninni 1840 af því hann gat ekki sætt sig við stjórnarfarsbreytingar í frjálsræðisátt.
Vilhjálmur 2. sonur hans tók þá við og ríkti í níu ár með konu sinni, Önnu dóttur Páls Rússakeisara (sonar Katrínar miklu). Hans sonur og arftaki var Vilhjálmur 3. Hann sat á konungsstóli í 41 ár, þótti íhaldsamur kurfur en mikill kvennabósi, sem kallað var, og átti tugi óskilgetinna barna.
Stjórnskipunarlega var helst talið til tíðinda þessa áratugina að Luxemburg varð sjálfstætt ríki með sínum eigin fursta árið 1890 en áður hafði Vilhjálmur verið þjóðhöfðingi þar, jafnframt konungidómi í Hollandi.

Þegar Vilhjálmur 3. dó voru þrír skilgetnir synir hans allir dánir á undan honum. Tíu ára gömul dóttir Vilhjálms og Emmu drottningar hans — hún var þýsk prinsessa — var þá dubbuð til drottningar, Vilhelmína hét unga stúlkan. Hún átti eftir að ríkja í rétt tæp 58 ár.
Drottningin var „eini alvöru karlmaðurinn“
Vilhelmína varð vinsæl með þjóð sinni og stöðvaði í fæðingu allar tilraunir lýðveldissinna til að afskaffa konungsveldið. Einkum varð hún dáð í seinni heimsstyrjöldinni þegar hún varð tákn andspyrnu landsmanna gegn þýsku hernámsliði en hún hafði þá bækistöð í Bretlandi.
Winston Churchill sagði að Vilhelmína væri „eini alvöru karlmaðurinn“ í hópi útlagastjórnenda sem bjuggu í Bretlandi meðan á stríðinu stóð. Mun Charles de Gaulle, leiðtoga útlægra Frakka, vart hafa verið skemmt við þá lýsingu.
Vilhelmína gekk ung að eiga þýskan prins sem Hinrik hét og komu þau upp einni dóttur, Júlíönu. Hinrik fékk ekki að heita kóngur og mun hafa verið leiðindafýr. Hann lést 1934 og lét eftir sig margar ástkonur og fjölmörg óskilgetin börn sem Vilhelmína þurfti að halda uppi, en hún lét sig ekki muna um það, enda ríkasta kona heims um sína daga, fyrst og fremst vegna ríkulegra eigna í nýlendu Hollendinga í Austur-Indíum.

Vilhelmína sagði af sér vegna heilsubrests 1948 en lifði í 14 ár enn.
Júlíana dóttir hennar varð nú drottning. Hún var hámenntuð af kóngafólki að vera og hafði til dæmis próf í alþjóðalögfræði. Júlíana ríkti yfir umbreytingu Hollands og konungdæmisins frá pompi og prakt fyrri tíma og til nútímans, og Austur-Indíur fengu sjálfstæði undir nafninu Indónesía.
Veik fyrir skottulæknum
Vilhelmína var yfirleitt bæði alþýðleg og vinsæl þótt ýmislegt bjátaði á á stjórnartíma hennar og hún væri oft höfð að háði og spotti fyrir að vera veik fyrir skottulæknum, geimveruspekúlöntum og þess háttar liði.
Eiginmaður Júlíönu var þýskur prins, rétt eins og faðir hennar, og hét sá Bernhard. Hann var vinsæll framan af, ekki síst vegna framgöngu sinnar í síðari heimsstyrjöld, þegar hann flaug orrustuvélum gegn löndum sínum, en seint á ævinni komst upp að hann hafði þegið mútur frá bandaríska flugvélaframleiðandanum Locheed og slapp hann við lögsókn aðeins með því að draga sig alveg í hlé frá öllum opinberum störfum.
Árið 1980 sagði Júlíana af sér, 71 árs að aldri. Hún lifði til 2004 en var lengst af í greipum Alzheimer-sjúkdómsins. Sú elsta af fjórum dætrum Júlíönu og Bernhards prins tók við sem drottning, Beatrix. Hún var þá rúmlega fertug.

Beatrix hafði gengið að eiga þýskan aðalsmann, ótrúlegt nokk, og vakti það nokkra úlfúð í Hollandi því hann hafði verið í Hitlers-Æskunni á barnsaldri og verið svo nokkra mánuði í þýska hernum rétt í stríðslok, án þess þó að taka þátt í bardögum.
Prinsinn í Hitlers-Æskunni
Beatrix og eiginmaðurinn Claus bentu á að það hefði verið skylda fyrir alla þýska pilta á sínum tíma að vera skráðir í Hitlers-Æskuna og svo fór að lokum að Claus varð ljómandi vinsæll í Hollandi, þótti bæði alþýðlegur og velmeinandi og barðist gegn því að karlmenn þyrftu endilega að ganga með hálsbindi.
Fátt gerðist sögulegt á tíð Beatrix í hásætinu en Hollendingum þótti hún flestum bæjarprýði. Hún sagði af sér 2013 því hún sagði að kominn væri tími til að hleypa nýrri kynslóð að. Hún var þá 75 ára.
Eftir samfellda 123 ára drottningartíð í Hollandi var nú komið að kóngi, því arftaki Beatrix var Vilhjálmur-Alexander, 46 ára elsti sonur Beatrix og Claus. Hann hefur meistaragráðu í mannkynssögu (prófritgerð hans fjallar um samskipti De Gaulle við NATO).

Ekki hef ég heyrt annað en Vilhjálmur-Alexander njóti þokkalegustu velvildar í heimalandi sínu og það er helst að hjónaband hans hafi orðið umdeilt. Árið 1999 kynntist hann tæplega þrítugri argentínskri stúlku og urðu þau ástfangin. Hún hét þá Máxima Zorreguieta og var af yfirstéttarfólki en hafði unnið við ýmiss konar markaðsstörf fyrir stórfyrirtæki í Evrópu við ágætan orðstír.
Umdeildur tengdafaðir
Ekki þykir neitt upp á Máximu sjálfa að klaga — hún er greinilega klár og hefur unnið að margvíslegum þjóðþrifamálum í Hollandi bæði fyrir og eftir að hún varð drottning — en Jorge faðir hennar var hins vegar afar umdeildur og kannski ekki heppilegur tengdafaðir konungs í landi sem hefur mannréttindi í hávegum.
Hann var nefnilega landbúnaðarráðherra í hinni grimmu herforingjastjórn Jorge Videla einræðisherra Argentínu 1979-1981 en þá voru þúsundir stjórnarandstæðinga teknir af lífi. Zorreguieta hélt því fram að hann hefði ekkert um þetta vitað, en hollensk þingnefnd, sem rannsakaði málið, komst að þeirri niðurstöðu að það væri vægast sagt vafasamt. Þingið taldi þó ekki ástæðu til að leggjast gegn hjónabandi Vilhjálms-Alexanders og Máximu þar eð hún hefði þá verið á barnsaldri og ekkert af sér gert.
Þau skötuhjú giftu sig því 2002 en foreldrar brúðarinnar voru ekki viðstödd.
Ári seinna fæddist fyrsta dóttirin af þremur, nefnilega Katrín-Amalía sem nú hefur dottið í sviðsljósið með þessum óvænta hætti.
Athugasemdir