Hvalurinn hefur veitt sér til matar ekki ósvipað og háhyrningar gera nútildags — það er að segja hann hefur ráðist á mikilli ferð með opið ginið og blóðþyrstar tennurnar á stóra bráð, bitið hana í sundur og gleypt stóra kjötbita úr henni án þess að tyggja þá.
Bitið svo aftur.
Bráðin?
Stórir fiskar, skjaldbökur, sjávarspendýr ýmisskonar, krókódílar kannski og aðrir hvalir.
Þessi hvalur var vel á fjórða metra að lengd og nálægt tonni að þyngd. Í stórum kjaftinum voru hvassar rándýrstennur og sterklegir kjálkar hafa verið studdir öflugum vöðvum. Allur þessi umbúnaður ber með sér að hvalurinn hefur getað bitið rækilega frá sér — ekki síður en háhyrningurinn.
Tvennt er það þó sem skilur þennan nýfundna hval frá háhyrningum.
Í fyrsta lagi var hann með fjóra fætur.
Skrokkurinn var allur hinn rennilegasti og endaði í löngum sterkum hala en fæturnir voru líka kraftmiklir. Kannski notaði hann þá fyrst og fremst til sunds en þeir voru líka nógu stórir og sterkir til að hann gat vel borið sig um á landi.
Hann hefði kannski ekki unnið nein 100 metra hlaup, en sennilega hefur þó ekki verið skemmtilegt að hitta hann vappi á ströndinni, frekar en oní sjónum.
Í öðru lagi, þá bjó hann þar sem enginn háhyrningur gæti búið nú.
Sem sé í Sahara-eyðimörkinni.
Horfið haf
Þessi hvalur var uppi fyrir 42 milljónum ára og svamlaði þá í sjó þar sem nú eru endalausar sandöldur Sahara.
Afríkuflekinn var þá á skriði norður eftir Jörðinni og árekstur var yfirvofandi við Evrópu. Á milli álfanna hafði lengi verið breitt og víðáttumikið úthaf sem við köllum Tethys-haf. Nú voru Indland austan megin og Afríka vestan megin í óða önn að loka þessi hafi.
Það tók samt milljónir ára og á meðan þreifst allskonar líf á landi og í sjó.
Um það 25 milljónir ára voru þá frá því risaeðlurnar dóu út og sköpuðu rými fyrir spendýrin. Þau uxu hratt og fyrir rúmlega 50 milljón árum lögðust spendýr af kyni allstórra klaufdýra til sunds þar sem nú heitir Pakistan.
Dýrin kunnu vel við sig í sjónum, urðu rennileg og miklir sundgarpar.
Af þeim eru hvalir runnir.
Ýmislegt hefur verið á huldu um þróunina frá hinum fjórfættu klaufdýrum til eiginlegra hvala.
En nú hafa fornleifafræðingar í Egiftalandi kynnt til sögunnar hinn ferfætta hval sem fannst í Sahara-eyðimörkinni árið 2008 og hefur verið til rannsóknar síðan.
Maður með hundshaus
Og nú er búið að kynna hann til sögunnar undir nafninu phiomicetus anubis. „Phiomi“ er dregið af nafni Fayum-héraðs í Egiftalandi, þar sem hann fannst, og „cetus“ er latneska fræðiheitið yfir hvali.
„Anubis“ var guð forn-Egifta, helgaður dauðanum, múmíum og framhaldslífinu. Anubis var yfirleitt sýndur í líki manns með hundshaus, og því þótti nafn guðsins ekki eiga illa við þennan forna hval sem líktist kannski einna helst samblandi hvals og úlfs.
Enn er ekki ljóst hve lengi Anubis-hvalurinn svamlaði um Sahara.
Athugasemdir