Fulltrúalýðræðið er langt frá því að vera gallalaust fyrirkomulag. Ekkert í heiminum er eins trúgjarnt og hópur af Íslendingum. Dagana fyrir kosningar fer stór hluti okkar að trúa því að íhaldið sé hið almennilegasta fólk, aumingjagott og í rauninni svolítið vinstrisinnað. Fyrir utan náttúrlega hvað þau eru ábyrg með peninga. Hundsið vinsamlegast öll dæmi um annað, takk.
Fólk fer að trúa því að Ásmundur Einar sé besti vinur barnanna og að Framsóknarflokkurinn eigi skilið fimm auka þingmenn til þess að öll ófjármögnuðu verkefnin hans geti haldið áfram að hrannast upp á bak sveitarfélaganna sem hafa ekki efni á því að framkvæma þau.
Þeim er skítsama um þig
Eitt af vandamálunum við lýðræði er að það hvetur valdasjúka og siðblinda til þess að sækjast eftir völdum. Og alls ekki allir vilja komast til valda til þess að hafa jákvæð áhrif fyrir meirihluta samborgara sinna. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki halda völdum til þess að leiðrétta eignaskekkjuna. Hann hefur haft áratugi til þess að gera það, hefði hann áhuga á. Sem hann hefur ekki.
Sjálfstæðisflokkurinn er varðhundur auðvaldsins. Fyrir ykkur sem eruð nýmætt í haturspartí fátæka fólksins þá þýðir það að Flokkurinn er hannaður af ríku fólki, fyrir ríkt fólk. Hann er fjármagnaður af ríkasta eina prósenti landsmanna til þess að ljúga að þjóðinni í gegnum fjölmiðlana sína, lobbíista og kjörna fulltrúa að hann starfi á einhvern hátt fyrir stærri hluta þjóðarinnar en hann raunverulega gerir. Bjarna Benediktssyni er skítsama um þig. Áslaugu Örnu er skítsama um þig. Og þótt Brynjar Níelsson sé pínulítið fyndinn, sérstaklega þegar hann lætur brauðrist bregða sér, þá er honum líka skítsama um þig.
Moggalygin
Ástæða þess að stórútgerðir landsins, það er þeir sem raunverulega eiga allt á Íslandi, hafa rekið hinn svokallaða fjölmiðil Morgunblaðið með stórfelldu tapi undanfarinn áratug er af því hann er málgagnið þeirra. Áróðurspési dulbúinn sem fréttastofa sem gegnir því eina hlutverki að dæla ósannleik í augun á ykkur. Að hér sé allt eins og best verður á kosið.
Horfðu á þetta graf, ekki getur grafið logið. Hvað hefur Halldór Benjamín um málið að segja? Ekki getur Halldóri Benjamín skjátlast. Horfðu á þessa rasísku antívax grínteikningu. Tölum um hana. Tölum um hin holdi klæddu elliglöp sem Davíð Oddsson er. Allt sem hann stendur fyrir. Allt sem hann hefur á ferilskránni. Látum eins og það sem gerðist hafi aldrei gerst. Setjum upp þverslaufuna. Förum í stuttbuxur. Skál í forinni.
Seðlar úr sjó
Ástæða þess að íhaldið vill ekki samþykkja nýju stjórnarskrána og hunsar lýðræðislegar kosningar um hana er vegna þess að hún grefur undan því kerfi stöðnunar sem hentar ríkasta fólki landsins. Og athugum að þetta fólk er ekki bara ríkt, þau eru fokking múruð. Nýja stjórnarskráin ógnar ekki aðeins því meingallaða kosningafyrirkomulagi sem hefur tryggt Sjálfstæðisflokknum völd rúm 75% tímans frá lýðveldisstofnun. Hún ógnar líka óréttlætanlegu eignarhaldi yfir auðlindunum okkar.
Tölum aðeins um fiska. Ég hef starfað á sjó af og á síðan ég var 8 ára. Bæði sem háseti og skipstjóri á smábátum. Kem af sjómönnum eins langt aftur og Íslendingabók treystir sér til að fullyrða. Sat ár í Stýrimannaskólanum að ná mér í A-réttindi sem skipstjóri. Ég þekki sjóinn. Mín tilfinning er hins vegar sú að íslenskur almenningur átti sig ekki alveg á ástandinu í sjávarútveginum.
Pýramídinn er að kremja okkur
Nokkrar fjölskyldur hér á landi eiga eiginlega allan kvótann. Þessi kvóti tryggir þeim aðgang að þeirri endurnýjanlegu peninga-auðlind sem fiskurinn í kringum landið er. Þetta er engin olía sem er að fara að klárast á endanum. Við höfum viðhaldið hér byggð með því að moka fisk upp úr sjónum. Þessa dagana gerum við það betur en nokkur tímann, og seljum hann um allan heim fyrir algjörlega stjarnfræðilegar upphæðir. Eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna eiga nákvæmlega engan heiður af því. Grjótharðir sjómenn, skipstjórar og starfsfólk í fiskvinnslum á landi eru hinar raunverulegu hetjur. Þeir sem sitja á toppi pýramídans eru afætur. Ónauðsynlegar blóðsugur. Fiskur myndi enn veiðast og seljast, þjóðinni til heilla, þó nokkrar þjófóttar fjölskyldur yrðu gerðar eignalausar.
„Grjótharðir sjómenn, skipstjórar og starfsfólk í fiskvinnslum á landi eru hinar raunverulegu hetjur.“
Þetta fólk er svo með her sérfræðinga sem sér um að koma ágóðanum af sölu sameiginlegrar auðlindar okkar framhjá skattayfirvöldum. Panamaskjölin (haha, muniði eftir þeim?) upplýstu að eigendur stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna eru með skúffur í skattaskjólum sem eru algjörlega stappfullar af seðlum sem með réttu hefðu átt að fara í okkar vasa. Sem sjómenn hættu lífi sínu, fjarri fjölskyldu sinni, til þess að skapa. Peningar sem sníkjudýrin, eigendur-stórfyrirtækja-í-sjávarútvegi, tóku svo ófrjálsri hendi og fluttu úr landi, til þess að þurfa ekki að borga það pínulitla gjald sem þó hefur verið samþykkt að þær greiði.
Útgerðirnar eru svo með fjölda fólks í vinnu við að sannfæra okkur um að allt sé algjörlega eðlilegt í óeðlilega landinu. LÍÚ (nú SFS), Samtök atvinnulífsins, Fjölmiðlasamsteypan Árvakur og Sjálfstæðisflokkurinn eru öll á einn eða annan hátt á launaskrá útgerðanna við það að fela, afvegaleiða og villa um fyrir. Ekkert að sjá hér. Bara mesta rán Íslandssögunnar að eiga sér stað á hverjum einasta degi.
Fiskurinn er olían okkar
Hér gætum við verið með sjóð eins og Norðmenn, þar sem umframpeningur af fjárframlögum, sem fæst vegna þess hversu brjálæðislega arðbær sjávarútvegurinn er, færi í að gera líf allra Íslendingar betra. Þess í stað fer peningurinn í að gera líf örfárra að algjörlega draumkenndri paradís. Við hin bíðum svo bara eftir því að brauðmolarnir fljóti aftur með golfstraumnum frá Tortóla til Íslands.
Ég hef stundum sagt að ef okkar náttúruauðlind væri olía en ekki fiskur þá væri þetta öðruvísi. Ef hér byggju olíubarónar, eins og í Texas, með stóra kúrekahatta og twang sem væru svona viðbjóðslega ríkir af því að selja olíu en ekki fisk, þá sætum við ekki á höndunum með þetta. En hér hefur hægt og rólega verið komið á kerfi þar sem hetjur gera þjófa að milljarðamæringum, og það gerðist svo hljóðlega að við tókum eiginlega ekki eftir því. Áður fyrr gerðu útgerðir þau bæjarfélög sem þau störfuðu í auðugri. Nú gera þær eigendur sína að milljarðamæringum og skilja byggðir eftir sem draugabæi í rúst.
Mennskar hundaflautur
Það er erfitt að gera upp á milli barnanna sinna, en þetta er hið STÓRA óréttlætismál hér á landi. Ef þær upphæðir sem arðræningjarnir stinga í vasana á hverju ári færu þess í stað í samneysluna þá litu fjárlög hér talsvert öðruvísi út. Þetta er það sem Áslaug Arna er að beina athygli ykkar frá þegar hún fer enn og einu sinni að röfla um sölu á áfengi í verslanir. Þetta er svo það sem Brynjar Níelsson er að fela fyrir ykkur þegar hann segir eitthvað heimskulegt. Það er hans hlutverk. Að standa kviknakinn úti á torgum og öskra eins hátt og hann getur á meðan þjófarnir tæma veskið ykkar.
Áfengi í búðir skiptir akkúrat engu máli. Brynjar skelkaði og það sem hann segir skiptir engu máli. Arðránið skiptir máli. Það er einhver að drekka allan sjeikinn okkar á meðan við horfum á Esjuna og tölum um veðrið. Það er ástandið sem Sjálfstæðisflokkurinn gengur út á að verja. Hér er vissulega ekki allt í volli, en ástandið gæti verið talsvert annað ef þjófarnir væru ekki að sjá um bankareikninginn okkar.
Það að hneykslast á smáhlutum breytir engu. Peningunum er skítsama þó þeir særi tilfinningar þínar. Gæti ekki verið meira sama. Það snakk sem er í umræðunni hverju sinni breytir engu. Það að vera í sjokki yfir orðum stígvélasleikjandi smárakka breytir engu. Það að svipta fólk völdum breytir einhverju. Ef fólk vill fá raunverulegar breytingar á Íslandi þarf að byrja að ræða um það sem máli skiptir og hundsa hundaflautur. Óréttlætið er beint fyrir framan augun á okkur. Horfum á það. Tölum um það. Segjum fólki að halda kjafti þegar það ætlar að beina umræðunni annað.
Við drekkum úr koppi kvótaeigenda og Mogginn segir okkur að það sé límonaði. Sjálfstæðisflokkurinn er mafía ríkasta 1% Íslendinga. Þetta er hið raunverulega vandamál. Hvað ætlum við að gera í því?
Athugasemdir