Heimildir Stundarinnar herma að fjárfestar hafi fyrir skemmstu gert tilboð í DV, í tvígang hið minnsta. Fyrra tilboðið hljóðaði upp á um 100 milljónir króna en því var hafnað. Síðara tilboðið var hærra en Stundin hefur ekki upplýsingar um hversu hátt það var. Því var einnig hafnað.
Það mun hafa verið lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson sem bar fram tilboðin fyrir hönd aðila sem Stundin hefur ekki vitneskju um hverjir eru. Þegar Stundin hafði samband við Svein Andra vildi hann hvorki staðfesta að tilboð hefði verið lagt fram né hverjir hefðu staðið að baki því. „No comment,“ var svarið sem Sveinn Andri gaf.
Helgi Magnússon, stjórnarformaður og aðaleigandi Torgs sem á og rekur DV ásamt Fréttablaðinu, neitaði því hins vegar í samtali við Stundina að nokkurt tilboð hefði borist í DV. „Við höfum ekki fengið neitt tilboð. Er þetta ekki einhver misskilningur? Ég hugsa nú að ef að það hefði komið eitthvað tilboð myndi ég nú vita af því.“
„Getur ekki verið að hann hafi verið að bjóða í Stundina eða Viðskiptablaðið, er þetta ekki einhver misskilningur?“
Blaðamaður Stundarinnar svaraði því þá til að heimildir fyrir því að tilboð hefði borist væru traustar. „Ég held nú að þú sért á villigötum,“ sagði Helgi þá. „Getur ekki verið að hann hafi verið að bjóða í Stundina eða Viðskiptablaðið, er þetta ekki einhver misskilningur? Í fyrsta lagi er ekkert til sölu hjá okkur og í öðru lagi hefur ekkert tilboð komið og enginn borið sig eftir slíku við mig.“
Þessar fullyrðingar Helga stangast á við heimildir Stundarinnar en samkvæmt þeim hafa forsvarsmenn Torgs að undanförnu leitað kaupenda að Fréttablaðinu og munu meðal annars hafa boðið Símanum blaðið til kaups. Því boði var hafnað.
Þegar þetta var borið upp á Helga vildi hann ekkert við það kannast. „Ég hlyti að vita af því, ég er stjórnarformaður og stærsti hluthafinn og ef að slíkt væri í gangi geri ég alveg ráð fyrir að ég myndi vita af því. Og ég get alveg lofað þér því að það myndi ekkert gerast án þess að ég kæmi að því. Ég veit ekki til þessa og þetta er bara slúður. Ég er búinn að svara þér og það er engu við þetta að bæta.“
Athugasemdir