Heilmikið hefur að undanförnu verið fjallað um enska morðingjann Wayne Couzens sem nam á brott Söru Everard, nauðgaði henni og myrti hana síðan. Málið hefur vakið sérstaklega mikla athygli vegna þess að Couzens var starfandi lögreglumaður þegar hann skipulagði og framdi morðið.
En nú síðustu daga hefur annar morðingi í einkennisbúningi lögreglumanns líka vakið mikla athygli en sá framdi sín ódæði í Frakklandi fyrir allt að 35 árum.
Það var um hádegisbil þann 5. maí 1986 að Suzanne Bloch hringdi heim til sín úr vinnunni til þess að aðgæta hvort 11 ára dóttir hennar, Cécile, hefði ekki örugglega skilað sér heim úr skólanum og væri að fá sér eitthvað að borða.
Stúlka hverfur
Enginn svaraði í íbúð Bloch-fjölskyldunnar við Rue Petit í 19. hverfi í París.
Þá hringdi Suzanne í skóla dóttur sinnar og var þá sagt að hún hefði alls ekki mætt í skólann um morguninn.
Strax var ljóst að eitthvað alvarlegt hlaut að hafa hent stúlkuna. Foreldrarnir höfðu kvatt hana um morguninn og haldið til vinnu, og nokkrum mínútum eftir að þau fóru átti hún að taka lyftuna niður á neðstu hæð og halda svo gangandi í skólann þar skammt frá.
Síðar þann sama dag fann húsvörður lík Cécile litlu Bloch falið undir gólfteppi í kjallaranum undir húsinu við Rue Petit.
Það var hálfnakið og illa leikið. Stúlkunni hafði verið nauðgað og síðan hafði hún verið bæði kyrkt og stungin hvað eftir annað.
Málið vakti mikla athygli í París en ekki fannst morðinginn.
Þó varð fljótt til nokkuð nákvæm lýsing af honum.
Foreldrarnir sáu morðingjann
Það kom nefnilega upp úr dúrnum að hávaxinn, bólugrafinn karlmaður á þrítugsaldri hafði haldið til við lyftuna í húsinu í næstum klukkutíma þennan morgun. Bróðir Cécile hafði meira að segja skipst á orðum við hann þegar hann fór í skólann þá um morguninn, og það vakti athygli bróðurins hve yfirmáta kurteis maðurinn var.
Foreldrar Cécile höfðu líka veitt manninum athygli þegar þau fóru til vinnu.
Hann hafði bersýnilega verið að bíða eftir heppilegu fórnarlambi, eða kannski var hann beinlínis að bíða eftir Cécile. Kannski hafði hann njósnað um Bloch-fjölskylduna lengi.
En þrátt fyrir lýsinguna á þessum mjög bólugrafna manni og þrátt fyrir að DNA hans hefði fundist á líki Cécile náðist ekki að góma manninn.
Næstu árin voru fleiri glæpir framdir í og við París sem smátt og smátt voru líka tengdir „hinum bólugrafna“ eð „Le Grêlé“ eins og rannsóknarmenn í París fóru að kalla hann sín á milli.
Þar var bæði um að ræða nauðganir og morð.
Kom fram sem lögreglumaður
Brátt kom í ljós að Le Grêlé virtist iðulega koma fram sem lögreglumaður þegar hann framdi glæpi sína og virtist þekkja vel til vinnubragða lögreglumanna. Einu sinni lokkaði hann unga stúlku upp í bíl sinn með því að veifa lögregluskírteini.
Að minnsta kosti þrisvar vann hann traust ungra stúlkna og kvenna með því að segjast vera lögreglumaður en nauðgaði þeim síðan. Hann gekk greinilega gjarnan með handjárn á sér og kunni orðfæri lögreglumanna, og sömuleiðis handtök þeirra.
Hann framdi að minnsta kosti þrjú morð eftir að hann drap Cécile Bloch.
Árið 1987 drap hann 21 árs gamla þýska au pair-stúlku eftir að hafa áður drepið vinnuveitenda hennar, sem hann hafði bundið eftir kúnstarinnar reglum lögreglunnar.
Árið 1994 drap hann svo 19 ára stúlku eftir að hafa nauðgað henni.
Gufaði upp í aldarfjórðung
Þrátt fyrir lýsingar, teikningar byggðar á framburðum vitna, DNA á vettvangi ýmissa glæpa hans og upplýsinga um mögulegan bakgrunn Le Grêlé í löreglunni, þá tókst ekki að finna hann.
Og svo virtist hann „setjast í helgan stein“ og í aldarfjórðung fréttist ekki meira af hinum bólugrafna nauðgara og morðingja.
Nú í haust var hins vegar ákveðið innan frönsku lögreglunnar að gera gangskör að því að upplýsa málið. Þá voru send bréf til 750 karla sem höfðu gegnt störfum í frönsku herlögreglunni þau ár sem glæpahrina Le Grêlé stóð.
Þeir voru beðnir um að láta í té DNA-sýni til þess að hægt væri að útiloka þá frá grunsemdum á ónefndum gömlum glæpum.
Meðal þeirra sem fengu bréf var 59 ára gamall bólugrafinn fyrrum herlögreglumaður sem síðar hafði gengið til liðs við almennu lögregluna en var nú kominn á eftirlaun. Hann bjó ásamt eiginkonu í fallegum smábæ við Miðjarðarhafsströnd Frakklands og hét François Vérove.
Þeim hjónum hafði orðið tveggja barna auðið, voru komin með barnabörn og enginn vissi annað en hann væri í alla staði umhyggjusamur og ágætur fjölskyldumaður. Enda mun sú hafa verið raunin.
Játaði á sig morðin
Vérove fékk bréf þann 24. september og átti að gefa sig fram og veita DNA-sýnið fimm dögum síðar. Í staðinn lét hann sig hverfa af heimilinu og leigði sér litla íbúð ekki alllangt frá. Þar hélt hann til í nokkra daga en svipti sig lífi með því að taka of stóran skammt af eiturlyfjum þann 29. september síðastliðinn.
Hann skildi eftir sig bréf þar sem hann játaði að vera Le Grêlé, morðingi og nauðgari, en mun ekki hafa farið út í mikil smáatriði í játningum sínum. Hann sagði þar eitthvað á þá leið að hann hefði „verið á vondum stað“ en hefði síðan náð valdi á sér.
Franska lögreglan hefur nú þegar gengið úr skugga um að DNA hins bólugrafna morðingja annars vegar og François Vérove hins vegar passa alveg saman.
Hann var því morðingi Cécile litlu Bloch og hinna þrigga sem Le Grêlé myrti.
Nú tekur hins vegar við hjá frönsku lögreglunni að rannsaka hvernig Vérove komst undan svo lengi og hvort hann hafi framið fleiri morð og fleiri nauðganir en þegar hefur tekist að heimfæra upp á Le Grêlé.
Athugasemdir