Geir Guðmundsson segir í samtali við Stundina að hann og varamaður hans í kjörstjórn Kópavogs hafi fundið þó nokkra annmarka við meðhöndlun atkvæða fyrir alþingiskosningar. Meðal þeirra annmarka er að sýslumaður hafi virt óskir kjörstjórnarinnar að vettugi um að setja innsigli á kjörkassa áður en hann var fluttur og sett þess í stað grátt límband yfir rifuna á kjörkassanum. Þá var einnig innsigli á geymslustað utankjörfundaratkvæða rofið án þess að umboðsmaður lista í kjördæminu væri viðstaddur eða annar eftirlitsaðili og svo að utankjörfundaatkvæði hafi verið flutt opin í opnum kössum til kjördeilda.
Af þessum ástæðum og fleiri segist Geir ekki vera fullviss um að farið hafi verið að lögum við meðhöndlun atkvæða. Hann segist þó ekki vantreysta fólkinu sem stóð að þessu en vilji bæta ferlið fyrir næstu kosningar. „En alveg fullkomið traust hjá þeim sem eru í kjörstjórninni og sáu um þetta allt saman. Við teljum að sé ekkert óeðlilegt í gangi en við viljum gjarnan að það sé hægt að segja með fullri vissu að það sé ekki hægt að nota þessar „loop holes“. Það er það sem við höfum áhyggjur af.“
Enginn umboðsmaður viðstaddur þegar innsiglið var rofið
Atburðarásinni lýsir Geir þannig að fyrst hafi utankjörfundaratkvæði borist í Smárann og þau læst inn í geymslu og innsigli sett á hurðina. Svo á föstudeginum eftir hádegi hafði innsiglið verið rifið af, allt tekið út úr herberginu og byrjað hafi verið að flokka utankjörfundaratkvæði niður á kjördeildir í öðrum sal.
Þegar flokkuninni var lokið voru hin flokkuðu utankjörfundaratkvæði sett í kassa fyrir hverja kjördeild og kassarnir settir inn í geymslu í kössum sem voru ekki innsiglaðir, geymslunni verið læst og innsigli sett á hurðina og áritað af oddvita kjörstjórnar. Morguninn eftir, eða á kjördegi, athugaði sá sem hafði áritað innsiglið hvort að innsiglið á dyrum geymslunnar væri það sama en svo var ekki.
„Ég get staðfest að allan tímann hafði kjörstjórn aðgang að herberginu sem og hefði mögulega mörgun sinnum opnað dyrnar gert eitthvað þar inni, og sett síðan nýtt innsigli á dyrnar.“
Geir fór því að kanna í hverju misræmið fólst og skýringin reyndist vera sú að fleiri utankjörfundaratkvæði sem voru greidd sama dag og hin höfðu verið flokkuð bárust seint um kvöldið og þá var herbergið opnað af tveimur aðalmönnum í kjörstjórn og hin nýju utankjörfundaratkvæði sett inn með hinum flokkuðu. Herberginu var svo aftur læst og dyrnar svo innsiglaðar með nýju innsigli og það undirritað af oddvita kjörstjórnar. Enginn umboðsmaður eða eftirlitsaðili var viðstaddur þegar innsiglið var rifið á föstudagskvöldinu.
Að mati Geirs hefði verið æskilegt að hafa umboðsmann viðstaddan þegar innsiglið var rifið og raunar í „öllum tilvikum“ þegar innsiglið var rofið.
Í færslu Katrínar Oddsdóttur á Facebook skrifaði Geir ummæli sem svari við spurningu Jón Þórs Ólafssonar, umboðsmanni Pírata í kjördæminu, um það hvort það væri ekki ljóst af þessu að „einhver hafði aðgang að atkvæðunum alla nóttina?“ Geir svarar:
„Jón Þór ég get staðfest að allan tímann hafði kjörstjórn aðgang að herberginu sem og hefði mögulega mörgun sinnum opnað dyrnar gert eitthvað þar inni, og sett síðan nýtt innsigli á dyrnar. Það er eitt af því sem mér finnst veikasti punktur kosninganna. Auðvelt er að svappa atkvæða umslögum í opnum sendi umslögum.“
Ekkert innsigli á kjörkassa frá sýslumanni
Annað sem Geir minntist á í munnlegri greinargerð sinni var það að kjörkassarnir sem innihéldu utankjörfundaratkvæði frá sýslumanni voru ekki innsiglaðir þrátt fyrir að kjörstjórnin hafði beðið um það. „Sýslumaður virti það ekki og setti bara grátt límband yfir. Það hefði getað verið átt við það,“ segir hann.
Þá kom það Geiri einnig á óvart að utankjörfundaratkvæðin hafi verið flutt „opin“ og „í opnum kössum til kjördeilda“.
Athugasemdir