Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis, segir enga ástæðu hafa verið til þess að láta umboðsmenn lista í kjördæminu vita að framkvæmt yrði „gæðatjékk,“ á vinnubrögðum yfirkjörstjórnarinnar sem meðal annars fól í sér að fara yfir atkvæði aftur.
Nú hefur yfirkjörstjórn tilkynnt að ráðist verði í endurtalningu í yfirkjörstjórn.
Yfirkjörstjórnin ber ábyrgð
Þórir segir að hver yfirkjörstjórn beri ábyrgð á atkvæðaseðlum og „sínum tölum og talningu“. „Þarna voru komnar umræður um að það væri lítill munur og við tókum fullt mark á þeim umræðum og þess vegna fórum við í tjékk á okkar vinnubrögðum,“ segir hann.
Athugunin fór þannig fram að sögn Þóris að tekið var úrtak úr „bunka“ sem tilheyrði hverjum flokki fyrir sig. „Atkvæðaseðlar eru í bunkum og á bunkunum er merkt hvaða flokki atkvæðin eru greidd og þau flokkuð eftir framboðslistum(...) Það var tekið úrtak úr öllum þessum flokkum, frá öllum framboðslistum, úr öllum talningum, bæði utankjörfundar og kjörfundaratkvæðum og farið var yfir það hvort flokkun væri rétt. Það var rétt í öllum tilvikum,“ segir Þórir.
Umboðsmenn vissu ekki af athuguninni
Þórir metur sem svo að umboðsmenn lista í kjördæminu þurfi ekki að vera viðstaddir þegar slík athugun fer fram eða látnir vita að fyrirhugaðri athugun. „Þeir vissu af því að yfirkjörstjórn myndi funda klukkan eitt í gær til þess að ganga frá atkvæðum,“ segir hann.
Hann segir þó að umboðsmennirnir hafi ekki verið látnir vita að slík athugun myndi eiga sér stað á fundinum.
Hefði ekki verið betra að láta þá vita að þessi athugun myndi fara fram?
„Ég sé enga ástæðu til þess.“
Píratar gera athugasemd við athugunina
Í yfirlýsingu sem Álfheiður Eymarsdóttir, oddiviti Pírata í Suðurkjördæmi, sendi frá sér í gær, segir hún Pírata ekki telja að „gæðatékk samræmist kosningalögum“. „Hvað þá gæðatjékk þar sem umboðsmenn eru ekki látnir vita eða eru viðstaddir.“
Kristín Edwald, formaður Landskjörstjórnar, segir í samtali við Stundina að almennt sé mjög mikilvægt fyrir traust og trúverðugleika kosninga að talið sé „fyrir opnum tjöldum“, að umboðsmenn séu viðstaddir og að ferlið sé allt gagnsætt.
Athugasemdir