Þótt kosningarnar núna hafi virst snúast um slæg slagorð sem stjórnmálaflokkarnir beina látlaust að okkur með hjálp eigin ákvörðunar um að hækka framlög til flokka úr 286 milljónum á ári í 728 milljónir, er hægt að greina undirliggjandi strauma sem munu knýja breytingar á samfélaginu með afleiðingar fyrir okkur öll.
Í nýlegri könnun var skilgreint að flestum þætti mikilvægustu kosningamálin vera heilbrigðis-, umhverfis- og efnahagsmál. Þetta segir okkur hins vegar lítið annað en að yfirstandandi krísur eru á þessum meginsviðum.
Það sem gerist eftir kosningar mun hins vegar ráðast af því hvar straumarnir sameinast. Einfalda myndin er út frá efnahagsmálum, hægri stjórn sem lækkar skatta og gefur fyrirtækjum meira frelsi, miðjustjórn sem í einhverri mynd viðheldur ástandinu eða gerir hægfara umbætur, og vinstri stjórn sem eykur útgjöld, setur atvinnulífinu skorður í þágu almannaheilla og eykur skattheimtu á þeim sem standa sterkast, þeim sem hægri stjórnin myndi álíta hæfasta og mest verða ávinningsins.
Samkvæmt svörum frambjóðenda
Ein leið til að spá fyrir um framhaldið eftir kosningarnar er að skoða stefnuskrár og fylgi flokka, para þá saman í meirihlutastjórn og sjá fyrir eftirgjöf og samhljóm.
Önnur leið er að skoða hvað frambjóðendur segja um afstöðu sína í kosningaprófum. Í kosningaprófi Stundarinnar hafa tæplega 200 frambjóðendur úr efstu sætum allra framboðanna á landsvísu gefið upp afstöðu í 68 álitamálum.
Fyrirvara verður að setja við að endanleg áhrif hvers frambjóðanda ráðast af því í hvaða sæti hann er, hvernig flokkur hans kemur út úr kosningum og svo að svörun er misgóð eftir stjórnmálaframboðum. Þannig svara fæstir úr Sjálfstæðisflokknum, eða 36%, á meðan meira en helmingur annarra framboða svarar. Meðaltölin gefa því helst vísbendingu innbyrðis um mun milli álitamála, en gera má ráð fyrir að endanleg áhrif frambjóðenda séu hliðruð til hægri.
Þar sem frambjóðendur ná saman
Stóraukin áhersla verður á almenningssamgöngur. 65% frambjóðendanna vilja að „ríkið leggi meiri áherslu á að styrkja almenningssamgöngur en umferð einka- eða fjölskyldubíla“, en aðeins 20% eru ósammála. Stjórnvöld munu setja í forgang að fjármagna uppbyggingu á neti hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla, samkvæmt vilja 82% frambjóðenda og andstöðu 7%.
Ríkið mun áfram eiga hlut í bönkum, enda eru aðeins 22% frambjóðenda mótfallnir því.
Frambjóðendur vilja „stórefla löggæslu“ (70%) og þyngja refsingar í kynferðisbrotamálum (80%).
Ríkisútvarpið á að fara af auglýsingamarkaði, miðað við svör 60% frambjóðenda. Vímuefni verða afglæpavædd í meira mæli, eins og sama hlutfall er sammála um.
Hið opinbera mun grípa meira inn í til að forðast „hnignun íslenskunnar“, eins og 74% vilja og aðeins 10% eru ósammála, hvort sem það felst í því að menntamálaráðherra hafi samband við Disney og fleiri varðandi íslenskun efnis, eins og Lilja Alfreðsdóttir hefur gert, eða gengið verður enn lengra, til dæmis með því að púlla upp á unga fólkið með einum eða öðrum hætti og málhreinsa það, eins og sérhver kynslóð endar á að þrá.
Alþingi mun fara að tillögum hæfisnefnda „í einu og öllu“ við skipan dómara, eins og 74% telja rétt.
Fleiri mál fara í þjóðaratkvæði þrátt fyrir andstöðu við mögulega niðurstöðu, eins og 82% frambjóðenda vilja, þótt það geti breyst þegar þeir komast í ríkisstjórn. Stjórnmálamenn munu segja oftar af sér eftir alvarlega gagnrýni, ef marka má rúmlega 80% frambjóðenda. Þrír af hverjum fjórum eru sammála um að ríkisstjórn Íslands ætti að gagnrýna kínversk yfirvöld opinberlega vegna mannréttindabrota og lýðræðismála, þótt það geti breyst þegar bitur, praktískur veruleikinn blasir við í ráðuneytinu. Frambjóðendur endurspegla lýðræðissinnaða þjóð, í orði kveðnu. Aðeins um 13% frambjóðenda segja Ísland þurfa sterkan leiðtoga til að gæta hagsmuna almennings frekar en valddreifingu.
Frítekjumark hækkar
Nokkuð þverpólitískur stuðningur meðal frambjóðenda er við að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði, miðað við stuðning 60% frambjóðenda þess efnis.
Afgerandi stuðningur er við að persónuafsláttur verði hækkaður og fylgi launaþróun og að dregið verði úr skerðingum á aukatekjur þeirra sem lifa á örorkubótum og lífeyrisgreiðslum. Það gildir þótt hægri stjórn eða núverandi stjórn verði við völd, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn lofað frítekjumarki upp úr 100 þúsund krónum í 200 þúsund á mánuði.
Ekki verður dregið úr ríkisstuðningi við íslenskan landbúnað, enda vilja bara 23% frambjóðenda gera það. Engin borgaralaun verða í fyrirsjáanlegri framtíð, þar sem aðeins 28% vilja stefna að því, og þar með er byltingarkennd grundvallarstefna Pírata til framtíðar enn án pólitískrar framtíðar.
Skattahækkanir á auðuga – án Sjálfstæðisflokks
Skattur á arðgreiðslur, fjármagnstekjuskattur, verður hækkaður, miðað við að 48% séu „mjög sammála“ og 23% „frekar sammála“. Stóreignaskattur verður lagður á, að minnsta kosti á eignir fram yfir 200 milljónir króna, eins og 60% frambjóðenda vilja. Fyrirséð er að þetta verði ólíklegra með áframhaldandi ríkisstjórn eða hvað þá hægri stjórn, enda eru 26% frambjóðenda á móti. Hins vegar er líklegt að Sjálfstæðisflokkur verði fyrir þrýstingi í þá átt að samþykkja aukna skatttöku á auðugum.
Séreignasparnað verður hægt að nota til frambúðar til að greiða inn á íbúðarlán, eins og Sjálfstæðisflokkurinn boðar og tveir þriðju frambjóðenda styðja.
Ríkissjóður verður rekinn með halla, rétt eins og Framsóknarflokkurinn hefur boðað. Í það minnsta segjast aðeins 28% frambjóðenda telja mikilvægt að hann verði rekinn með afgangi á næstu árum.
Kvótinn verður boðinn upp, með einhverjum hætti, miðað við að tveir þriðju frambjóðenda svara því til, en Sjálfstæðisflokkur stendur á móti.
Það sem klýfur þjóðina er það sem er kosið um
Málin sem munu skipta máli í kosningunum eru því þau sem ekki er samhljómur um.
Fjórðungur frambjóðenda sem svöruðu vilja lækka skatta þótt það þýði minni ríkisútgjöld, en tveir af hverjum þremur vildu það ekki. Skattalækkun með skertum ríkisútgjöldum eru því fyrst og fremst möguleiki ef Sjálfstæðisflokkur leiðir hægri stjórn.
Flestir frambjóðendanna eru andsnúnir því að fjármagna vegaframkvæmdir með innheimtu veggjalds, alls 57%, en á sama tíma er skattlagning ökutækja byggð á því að rukka olíugjald og þannig er skattlagning í samræmi við notkun á vegunum. Aukið veggjald og einkaframkvæmdir í vegamálum eru líklegasti veruleikinn við hægri stjórn eða áframhaldandi stjórn.
Meirihluti frambjóðendanna vill ekki flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni, þótt borgarstjórnin vilji það. Þess ber að geta að mun fleiri frambjóðendanna, og þingmannanna, eru af landsbyggðinni heldur en hlutfall landsmanna segir til um, vegna kosningalaganna.
Andstæðir pólar í ESB-málinu og áfengissölu
Jafnmargir vilja leyfa sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum og eru á móti því, eða 43%, en þeir sem eru á móti eru harðari í andstöðu sinni. Klofningur er um hvort einfalda þurfi ferli við uppbyggingu orkuvinnslu, en það teldist líklegt í hægri stjórn.
Frambjóðendur eru klofnir í afstöðu sinni til þess hvort grípa hefði átt til frekari lokana á landamærum í Covid-faraldrinum, en þó eru nokkru fleiri lokunarsinnaðir en ekki.
Algerlega andstæðir pólar eru um hvort endurskoða eigi stjórnarskrána í smáum skrefum eða heildrænt. Tæp 40% vilja smá skref, en 53% frambjóðenda heildarendurskoðun.
48% vilja að Ísland standi utan Evrópusambandsins, en 34% innan þess.
Færri telja réttlætanlegt að atkvæði íbúa á landsbyggðinni vegi meira en á höfuðborgarsvæðinu í þingkosningunum, heldur en styðja það, eða 52% gegn 32%.
Almenningur vill skattleggja þá auðugu
Meðaltal þeirra 10 þúsund svara frá almenningi sem komin eru virðist liggja nokkuð samsíða frambjóðendum, en þó almennt hægrisinnaðri. Sumum spurningum er almenningur líklegri til að svara öðruvísi en frambjóðendur. Til dæmis eru tæp 40% almennra svarenda prófsins á því að hlúa þurfi betur að Íslendingum sem standa höllum fæti, á meðan aðeins 16% frambjóðenda svara því sama. Sömuleiðis vilja frambjóðendur frekar en almenningur reka ríkissjóð í mínus. 28% almennra svarenda eru ósammála því að mikilvægt sé að reka ríkissjóð með afgangi á næstu árum, en 55% frambjóðenda. Loks vill almenningur fremur lækka álögur á eldsneyti en frambjóðendurnir.
Almenningur er mun jákvæðari á kosningaloforð Miðflokksins, að láta ríkið fjármagna heilbrigðisskoðun fyrir Íslendinga yfir 40 ára aldri á þriggja ára fresti. Tveir þriðju almennra svarenda eru sammála því, en tæpur helmingur frambjóðenda.
Þrátt fyrir að úrtak almennra próftakenda sé hægrisinnaðra en úrtak frambjóðendanna, er almenningur afgerandi í vilja til að skattleggja þá ríku. Fleiri meðal almennings en frambjóðenda vilja leggja stóreignaskatt á eignir yfir 200 milljónum króna. 43% svarenda voru „mjög sammála“ því en 26% „frekar sammála“, meðan sama hlutfall hjá frambjóðendum var 46% og 15%.
Mikill vilji almennings til skattlagningar þeirra ríkustu greinist líka í því að einungis 17% eru andsnúin því að hækka skatt á arðgreiðslur fyrirtækja til eigenda, en 72% sammála og þar af 43% mjög sammála.
Traustið sem forsenda
Stjórnmál snúast hins vegar ekki eingöngu um málefni. Traust er forsenda þess að stjórnmálafólk framfylgi boðaðri afstöðu sinni og að aðrir fari til samstarfs við þá. Aðeins tveir flokksformenn koma til greina sem forsætisráðherrar ef traust almennings er lykilforsendan. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, eru þau einu sem fleiri treysta en vantreysta.
Samkvæmt kosningaprófi Stundarinnar treysta 38% Katrínu Jakobsdóttur mest af öllum flokksleiðtogum. Næst kemur þingflokkur Pírata með 13%, en þar er enginn einn formaður. Svo kemur Sigurður Ingi Jóhannsson sem 12% treysta best og Bjarni Benediktsson, sem 11% landsmanna svarenda telja traustastan. Miðað við það snýst stjórnarmyndun fyrst og fremst um að raða í kringum Katrínu Jakobsdóttur.
Athugasemdir