Í morgun heyrði ég Gunnar Hansson útvarpsmann á Rás eitt nefna í þætti sínum að meðal þess sem gerst hefur þann 23. september var að á þessum degi árið 1932 hefði Sádi-Arabía formlega orðið til þegar tvö ríki á Arabíuskaga runnu saman í eitt. Og hið nýja ríki fékk nafn af Sádi-ættinni sem hafði farið með stjórn í öðru af ríkjunum tveim.
Svo spurði Gunnar sjálfan sig hvort það sé ekki óalgengt að ríki séu nefnd eftir fólki.
Hann hafði ekki tíma til að svara sér, því hann þurfti að fara að taka viðtal og sinna ýmsu efni þáttarins, svo ég kannaði þetta fyrir hann. Og þá kom þetta í ljós:
Sádi-Arabía
Olíuríkið á Arabíuskaga er vissulega nefnt eftir Sádi-ættinni. Opinberlega heitir það eftir upphafsmanni ættarinnar Mohammed bin Sád, sem uppi var á 18. öld, en í raun heitir ríkið þó eftir fyrsta konungi hins sameinaða ríkis, Abdulaziz bin Sád.
Bólivía
Þetta ríki í Suður-Ameríku heitir eftir Simon Bolívar. Hann fæddist í Venesúela og í byrjun 19. aldar varð hann leiðtogi sjálfstæðisbaráttu mestallrar Suður-Ameríku gegn nýlenduherrum Spánverja. Hluti spænska nýlendusvæðisins var inni í miðri álfunni og var nefnt Charcas. Bolívar fól hjálparkokki sínum að nafni Sucre að ákveða örlög Charcas. Honum stóð til boða að sameina það Perú eða Paragvæ en ákvað að það skyldi verða sjálfstætt ríki og heita eftir vini hans Bolívar. Sjálfur hafði Bolívar engin sérstök tengsl við Charcas.
Formlegur titill Venesúela er „Bólívaríska lýðveldið Venesúela“ svo frelsishetjan knáa kemur við sögu í heitum tveggja ríkja.
Perú
Nágrannaríki Bólivíu er líka nefnt eftir manni en gallinn er sá að það er ekki alveg á hreinu hver hann var og eru tvær mjög mismunandi skýringar til.
Önnur er sú að um bil sem Spánverjar voru að leggja undir sig Panama-eiðið milli Norður- og Suður-Ameríku, þá hafi Birú nokkur verið höfðingi í Indíána-ættbálki við flóa einn suður af bækistöðvum Spánverja. „Birú“ fór þá að þýða í munni Spánverja „svæðið í suðri“ og þegar þeir brutust seinna mun lengra suður á bóginn, þá hélt Birú/Perú áfram að þýða hið sama, en „svæðið í suðri“ færðist til um meira en 2.000 kílómetra.
En svo er til allt önnur skýring og hún er sú að venjulegur alþýðumaður hafi eitt sinn verið af tilviljun staddur í fjörunni þar sem spænskir landkönnuðir komu af sjó norðan frá Panama. Þeir hafi spurt Indíánann hvað þetta svæði héti en þar sem hvorugur skildi tungu hins, þá hafi hann talið hina nýkomnu vera að spyrja sig að nafni og því kynnt sig kurteislega: Perú.
Nikaragva
Landið var nefnt eftir Nicarao, Indíánahöfðingja sem bjó með þjóð sinni norðvestur af Panama í byrjun 16. aldar. Sagnfræðingar komust að því fyrir tæpum 20 árum að hann var vissulega til en hét í raun og veru Macuilmiquiztli. Nikaragva-búar munu þó ekki hafa íhugað í neinni alvöru að skipta um nafn á landi sínu.
Kólumbía
Nafnið á Kólumbíu er einfalt. Ríkið heitir eftir Kristófer Kólumbusi sem var brautryðjandi í siglingum Evrópumanna yfir Atlantshafið. Sjálfur kom hann að vísu aldrei til Kólumbíu.
El Salvador og dýrlingaeyjar
Fleiri ríki í Mið-Ameríku og Karíbahafi er nefnd eftir mönnum. El Salvador er nefnt eftir Jesú Kristi þótt notast sé við embættistitil hans, Salvador=frelsari, en ekki sjálft nafnið, eigið nafnið.
Svo heitir eyríkið St. Kitts and Nevis eftir dýrlingnum heilögum Kristófer, verndardýrlingi ferðalanga, og einum titli Maríu guðsmóður, Nuestra Señora de las Nieves, sem þýðir vorfrú snjóanna — og vísar til þjóðsögu um að einu sinni hafi guðsmóðir látið snjóa í Rómaborg.
Smáríkið Saint Lucia heitir dýrlingnum Luciu sem var tekin af lífi fyrir sína kristnu trú í Rómaveldi árið 305. Lítill vafi er á því að Lucia var í rauninni til, ólíkt ýmsum öðrum fornum dýrlingum.
Og Saint Lucia er eina ríkið sem heitir beinlínis eftir konu.
Nágrannaríki Saint Luciu heitir á ensku St. Vincent and the Grenadines. Kólumbus sjálfur valdi nafnið St. Vincent því hann kom að eyjunni á hátíðisdegi heilags Vincents sem lét lífið fyrir trú sína um svipað leyti og heilög Lucia, þótt sögur um hann séu öllu þjóðsagnakenndari.
„Grenadíns“ þýðir í raun „Litla Grenada“ og er dregið af nafni borgarinnar Grenada á Spáni. Rétt hjá St.Vincent og Grenadíneyjum er annað sjálfstætt eyríki sem heitir einmitt Grenada.
Dóminika og Dóminíkanska lýðveldið
Í Karíbahafi eru og eyríkin Dóminika og Dóminikanska lýðveldið. Enginn vafi er á að síðarnefnda ríkið er nefnt eftir Domingo de Guzmán sem var munkur og stofnandi dóminikanareglunnar um 1200. Hann var seinna tekinn í dýrlingatölu og regla hans hafði lengi aðsetur á svæðinu.
Margir kynnu að halda að hið örlitla eyríki Dominika — 1.000 kílómetra í austur frá Dóminikanska lýðveldinu — sé líka nefnt eftir heilögum Domingo.
En svo er ekki. Það var Kólumbus sjálfur sem gaf Dominiku nafn þegar hann sigldi framhjá eyjunni á annarri ferð sinni yfir Atlantshafið og þar sem þetta var á sunnudegi, þá gaf hann eyjunni nafnið Sunnudagur (Dominica).
Hér hefur ekki verið talinn nema um helmingur ríkja sem nefnd eru eftir mönnum. En afgangurinn bíður betri tíma.
Athugasemdir