Japanir hafa lengi haft nokkuð fastmótaða mynd af fortíð sinni og tilorðningu japönsku þjóðarinnar. Sú mynd er svona:
Fyrir 15.000 árum voru fyrstu mennirnir komnir út á Japanseyjar, sem þá voru að slitna úr tengslum við Kóreuskaga vegna hækkandi sjávarmáls í kjölfar hlýnandi veðurs.
Þá hófst hið svokallaða Jōmon-tímabil. Veiðimenn og safnarar bjuggu víða um eyjarnar, ekki síst við ströndina, og í mjög langan tíma var Japan alveg einangrað frá meginlandi Asíu. Þess má geta að DNA-rannsóknir hafa upp á síðkastið gefið til kynna slíka einsleitni í genamengi þessa Jōmon-fólks að íbúar á öllum Japanseyjum hafa í þúsundir ára sennilega ekki verið fleiri en 1.000.
Það eru svona álíka margir og búa nú í Ólafsvík.
Ný menning, nýtt fólk
En nokkru fyrir upphaf tímatals okkar — fyrir Krist, sem sagt — þá dúkkaði upp ný menning í Japan, sem kölluð hefur verið Yayoi. Yfirleitt var talið að sú menning hafi upphafist um 300 fyrir Krist, en nýjar rannsóknir sýna þó fram á að Yayoi-fólk hefur verið komið til sögunnar um það bil 500 árum fyrr.
Hvaðan það fólk kom hefur lengi verið umdeilt. Sumir hölluðust að Kóreuskaga, aðrir að Jiangsu-héraði á Kínaströnd fyrir norðan Sjanghæ.
Nema hvað, með Yayoi-fólkinu komu verkfæri úr járni, vefnaður og síðast en ekki síst hrísgrjónarækt sem olli sannkallaðri sprengingu í fólksfjölda í Japan. Yayoi-tímabilinu telst vera lokið um 300 eftir Krist og þá er talið að íbúar hafi verið orðnir fjórar milljónir.
Eftir að hinu eiginlega Yayoi-tímabili lauk töldu menn lengi að aðflutningi fólks til Japans hefði í raun og veru lokið.
Þá tók við Kofun-tíminn þegar fyrstu eiginlegu ríkin mynduðust í Japan.
Herjað á Kóreu
Japanir Kofun-tímans — og þar með Japanir nútímans — voru taldir afsprengi samruna Jōmon- og Yayoi-fólksins. Vissulega hefðu Japanir orðið fyrir áhrifum frá meginlandinu, ekki síst Kína sem líka er augljóst af því að japanska letrið er komið beint frá Kína. Frá 300-500 hafi líka verið mjög umtalsverð menningartengsl við Kóreu.
En um fólksflutninga til eyjanna væri ekki að ræða frá og með Kofun-tímanum.
Fornleifafræðingar hafa um skeið verið býsna ósáttir við þessa niðurnjörvuðu mynd af japanskri forsögu. Á Kofun-tímanum — 300-700 eftir Krist — hafi svo margt breyst í japanskri menningu og háttum að þessum fræðimönnum hefur þótt augljóst að nýtt fólk, sem sjálft settist að í Japan hafi fært þetta með sér.
En hingað til hefur lítið verið hlustað á þær raddir. Kofun-tíminn hafi sprottið af menningarþróun í landinu sjálfu, að viðbættum hugmyndum og nýjungum utan frá. Og talsmenn hins hefðbundna viðhorfs hafa gjarnan bent á að á ofanverðum Kofun-tímanum hafi Japan verið farið að herja á Kóreu og því hægðarleikur að sækja þangað ný áhrif og hugmyndir og tækni.
Alröng söguskoðun
Nú hefur mikil DNA-rannsókn, sem sagt er frá í vefritinu Science Advances (sjá hér), hins vegar staðfest svo óyggjandi sé að hin hefðbundna söguskoðun sé röng.
Meira að segja alröng.
Rannsóknin gefur til kynna að í genamengi nútímafólks í Japan séu 13 prósent komin frá skeljatínslumönnum Jōmon-fólksins og 16 prósent frá hrísgrjónaræktendum Yayoi.
En hvorki meira né minna en 71 prósent sé komið frá nýju fólki sem hrúgðist inn í landið á Kofun-tímanum.
Það merkilega er, segir Shigeki Nakagome, einn þeirra sem annaðist rannsóknina, að þetta nýkomna fólk virðist eingöngu hafa tilheyrt lægri stigum þess nýja samfélags sem þá var að myndast í Japan.
Bein nýja fólksins hafa nefnilega ekki fundist grafin á yfirstéttarvísu. Og því er alls óvíst að þetta aðkomufólk hafi átt einhvern verulegan þátt í þeim umbreytingum á samfélagi og menningu sem fylgdu Kofun-menningunni.
Hvaðan komu hinir nýkomnu?
Það bíður betri tíma að rannsaka hversu því var háttað, en nú þarf altént að endurskrifa heilmikinn kafla í japanskri sögu. Tilkoma nýrrar bylgju innflytjenda er hér með sannað mál og sú bylgja virðist hafa verið stór miðað við öll prósent sem hún skildi eftir sig í genamengi Japana nútímans.
En hvaðan kom þetta fólk?
Jú, það virðist hafa verið upprunnið í suðausturhluta Asíu, kannski á mótum Kína annars vegar og Tíbets og Búrma eða Míanmar. Þaðan komu formæður og -feður Han-Kínverja líka, þótt þau hafi svo blandast fólki sem þegar bjó við árnar miklu, Gulafljót og Jangtse.
Nýja fólkið á Kofun-tímanum í Japan virðist nefnilega hafa verið náskylt Han-Kínverjum.
Ætíð hefur ríkt samkeppni milli Japana og Kínverja og margir Japanir eru tortryggnir í garð Kínverja. Nú virðast þjóðirnar vera töluvert skyldari en áður var álitið. Ekki öllum í Japan líkar sú niðurstaða. En það þýðir víst ekki að deila við DNA.
Athugasemdir