Flokkur fólksins telur mikilvægt að boðið sé upp á sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Stuðningur foreldra skiptir miklu máli en stuðningur við nemendur innan veggja skólans skiptir einnig máli, að þar sé sálfræðingur sem þeir geta leitað til eftir faglegri aðstoð.
Á Íslandi stunda um 20.000 nemendur nám á framhaldsskólastigi. Hvergi á Norðurlöndum er brottfall úr framhaldsskólum meira en hér á landi ef marka má niðurstöður rannsókna. Ekki eru neinar rannsóknir til um það af hverju svo margir hverfa frá námi hér en gera má því skóna að ástæður séu margslungnar. Um getur verið að ræða erfiðleika í fjölskyldum, erfiðar fjölskylduaðstæður, fjárhagsvanda, vandamál tengd námi- og námsástundun eða félags- og tilfinningaleg vandamál sem þarfnast úrlausna.
Vilja persónuleg samtöl
Í framhaldsskólunum eru nemendurnir fyrstu tvö árin undir lögaldri. Fram hefur komið að ríkur áhugi er meðal framhaldsskólanema á að boðið sé upp á ókeypis sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna. Þeir kjósa frekar að hafa aðgang að slíkri þjónustu í skólanum en á heilsugæslustöðvum. Á heilsugæslustöðvum er sálfræðiþjónusta frí fyrir 18 ára og yngri. Eins og annars staðar í heilbrigðiskerfinu hafa myndast langir biðlistar eftir sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum.
Með sálfræðing í starfsliði framhaldsskólanna má ætla að auknar séu líkur á að unnt sé að styðja nemendur varðandi persónuleg mál þeirra, þannig að þeir telji sig síður knúna til að hverfa frá námi. Í framhaldsskólum eru námsráðgjafar og þeir vinna ómetanlegt starf. Hins vegar er greinileg þörf á sálfræðingum í ljósi þess að hver rannsóknin á fætur annarri sýnir að líðan íslenskra ungmenna fer versnandi. Vert er að taka fram að í mörgum framhaldsskólum eru sérdeildir, starfsbrautir og annað námsframboð sem er sérstaklega ætlað fötluðum nemendum.
Þörfin enn brýnni vegna áhrifa Covid-19
Líðan ungs fólks hefur versnað eftir að COVID-19 reið yfir með öllum sínum áhrifum og afleiðingum. Að mati Flokks fólksins hefur þörf fyrir sálfræðiráðgjöf í framhaldsskólum því aldrei verið meiri en einmitt núna. Ef andleg vanlíðan á borð við kvíði og þunglyndi er ekki meðhöndlað, þá hefur það neikvæð áhrif á daglegt líf, þ.m.t. námsgengi og námsástundun nemendanna.
Það hefur margoft sýnt sig að því fyrr sem hægt er að fá aðstoð, minnka líkur á því að vandinn verði flóknari síðar á lífsleiðinni og hafi í för með sér neikvæð áhrif á líf viðkomandi einstaklings með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði.
Brottfall úr framhaldsskóla getur haft alvarlegar afleiðingar á líf einstaklinga og skert lífsgæði þeirra til muna. Einstaklingar, sem hafa fallið brott úr skóla, eru líklegri til þess að fá lægri laun, eiga erfiðara með að fá þá vinnu sem hugur þeir stendur til og rannsóknir sýna einnig neikvæð áhrif brottfalls úr framhaldsskóla á heilsu.
Komist Flokkur fólksins til áhrifa á Alþingi, vill hann berjast fyrir því að framhaldsskólar fái fjármagn til að ráða sálfræðing í skólann líkt og er í Háskóla Íslands. Þar er rekin sálfræðiþjónusta fyrir nemendur sem hefur mælst mjög vel fyrir.
Fólkið fyrst – svo allt hitt!
Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Athugasemdir