Einn af namibísku höfuðpaurunum í Samherjamálinu í Namibíu bað útgerðarfélagið um að millifæra peningana úr öðrum banka til að leyna greiðslunum betur þar sem einhver í viðskiptabanka hefði verið að leka upplýsingum um greiðslurnar. Þetta kemur fram í tölvupóstum á milli starfsmanna Samherja sem embætti héraðssaksóknara haldlagði hjá Samherja og sendi til ákæruvaldsins í Namibíu.
Þessir tölvupóstar hafa vakið athygli hér á landi á síðustu dögum vegna þess að í þeim kemur fram staðfesting frá framkvæmdastjóra Afríkuútgerðar Samherja, Aðalsteini Helgasyni, á að hann hafi nefnt mútugreiðslur sem mögulega lausn fyrir Samherja til að fá kvóta í Namibíu. ,,Á einhverjum tímapunkti þá kann það að gera gæfumuninn að múta einum af leiðtogum þessara manna,” sagði Aðalsteinn í tölvupósti til samstarfsmanna sinna strax árið 2011 þegar Samherji var að hefja veiðar í Namibíu.
Athugasemdir