Framlengja ætti þau úrræði sem stjórnvöld hafa sett á laggirnar til að verja velferð og atvinnustig en ekki að hefja það sem Bandalag háskólamanna (BHM) kallar „ótímabært aðhald í ríkisfjármálum“. Greiða á heilbrigðisstarfsfólki og öðru framlínustarfsfólki sem staðið hefur í stafni í baráttunni í Covid-19 faraldrinum auknar álagsgreiðslur eða launauppbætur, til að koma til móts við fordæmalaust álag síðustu missera.
Þetta kemur fram í minnisblaði BHM til ráðherranefndar um samræmingu mála vegna Covid, sem sent var í framhaldi af fundi með fulltrúum samtaka launafólks 3. ágúst. Þar er því fagnað að stjórnvöld leggi aukna áherslu á samráð við helstu hagaðila um viðbrögð og áherslur í baráttunni við Covid-19.
Í minnisblaðinu er lögð áhersla á að stjórnvöld gefi skýr skilaboð og marki stefnu þar sem ásættanlegt jafnvægi náist á milli lýðheilsulegra sjónarmiða og efnahagslegra sjónarmiða. BHM vill þannig að úrræði eins og hlutabótaleið, úrræðið Hefjum störf og tekjutengingar atvinnuleysisbóta verði framlengdar. Atvinnulausum verði gert kleift að sækja sé menntun án þess að það skerði bótarétt.
BHM leggur áherslu á að marka þurfi stefnu til að verja heilbrigðiskerfið til skemmri og lengri tíma og tryggja framlínustarfsfólki í ýmsum greinum hvíld, öryggi og umbun, ef ekki eigi illa að fara. Þá skiptir miklu máli í því samhengi að stytting vinnuviku verði fest í sessi. Þá þarf að tryggja að skólastarf skerðist ekki frekar.
Að mati BHM þurfa stjórnvöld m.a. að svara eftirfarandi spurningum:
1. Verður einblínt á smittölur framvegis eða aðra mælikvarða s.s. fjölda veikra í stað fjölda smitaðra?
2. Hvernig verða viðkvæmir hópar varðir og hvaða áhrif mun það hafa á almenn lífsgæði þeirra?
3. Hver er stefnan að því er varðar hugsanlega bólusetningu ungmenna?
4. Hafa stjórnvöld í huga að innleiða bólusetningarskyldu?
5. Munu stjórnvöld taka upp hraðpróf hér á landi í meiri mæli eins og tíðkast m.a. í Bretlandi og Danmörku?
6. Verður sóttvörnum komið í kerfisbundinn farveg til frambúðar t.d. með stofnun Sóttvarnarráðs eða viðeigandi stofnunar?
Athugasemdir