Fyrri myndaspurning.
Hér að ofan er skjáskot úr allfrægri kvikmynd frá 1973 þar sem farið var bókstaflega í að „mála bæinn rauðan“. Hver er leikarinn sem sést í hægra megin? Lárviðarstig er í boði fyrir að vita hvaða bíómynd var um að ræða.
***
Aðalspurningar:
1. Píanókvinett í A-dúr heitir frægt tónverk sem heyrðist fyrst árið 1819. Það er kennt við fisk, ótrúlegt nokk. Hvaða fisk?
2. Hver samdi þennan kvintett?
3. Kona ein fæddist 1989 og hefur skrifað lærða ritgerð í örverufræði um áhrif andoxunarefna á lífsferil þráðorma. Hún lagði þó örverufræðina á hilluna og úrskrifaðist úr háskóla með gráðu í alþjóðasamskiptum og hagfræði. Meðan hún var í skóla vann hún fyrir sér hjá Innflytjendastofnun Bandaríkjanna og afgreiddi á bar þess á milli. Hún er ævinlega brosmild og baráttuglöð. Hvað heitir hún?
4. Frá hvaða landi kom Krókódíla-Dundee sá sem garðinn gerði frægan fyrir einhverjum tíma síðan?
5. The Mandalorian heitir vinsæl hasarsería í sjónvarpi sem víða er sýnd þessi misserin. Hún er sprottin af enn vinsælli bíómyndaseríu sem kallast ...?
6. Karl einn fæddist 1452 í smábæ tæpa 30 kílómetra frá hinni frægu borg Flórens. Hann kenndi sig alla ævi við smábæinn þar sem hann fæddist en starfaði ekki síst í Flórens. Hver var þetta?
7. Hvaða ár var Háskóli Íslands stofnaður?
8. Hver færði hinum fornu Hebreum eða Gyðingum boðorðin sem sögð voru frá guði?
9. Á fjallinu þar sem boðorðin voru afhent, þar hafði guð og/eða engill hans áður birst sama karli með mikilvæg skilaboð, en var þá í nokkuð óvenjulegu líki. Hann birtist nefnilega sem ... hvað?
10. Hvaða fræga fyrirtæki hleyptu þeir Kevin Systrom og Mike Krieger af stokkunum 2010?
***
Seinni myndaspurning:
Hér að neðan sést umslag plötu sem út kom 1981. Hvað hét platan og hver er söngkonan?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Silung.
2. Schubert.
3. Alexandria Ocasio-Cortez, þingmaður í Bandaríkjunum.
4. Ástralíu.
5. Star Wars.
6. Leonardo da Vinci.
7. 1911.
8. Móse.
9. Brennandi runni.
10. Instagram.
***
Svör við myndaspurningum:
Leikarinn á efri myndinni er vitanlega Clint Eastwood.
Lárviðarstigið fæst svo fyrir að muna nafnið á meistaraverkinu ódauðlega, High Plains Drifter.
Á neðri myndinni er plötuumslagið Litli Mexíkaninn með barnastjörnunni Kötlu Maríu.
Þið fáið rétt þótt þið nefnið plötuna „Lítill Mexíkani“ án greinis.
Athugasemdir