Fyrri aukaspurning:
Skoðið vandlega myndina hér að ofan. Hvað heitir þessi brosmildi karl?
***
Aðalspurningar:
1. Hvaða íslenska skáld er átt við með orðunum „listaskáldið góða“?
2. Black Widow eða Svarta ekkjan heitir vinsæl ofurhetjumynd sem mjög er sýnd um þessar mundir. Leikkonan, sem leikur ekkjuna, hefur gert það oft áður í öðrum ofurhetjumyndum. Hvað heitir hún?
3. Í dýraríkinu nefnast nokkrar tegundir „svarta ekkjan“ en þær eru allar ... hvers konar dýr?
4. Beint framundan höfninni í Reykjavík er eyja ein sem virðist ekki stór en þar voru þó nokkur býli hér áður fyrr og fræg ætt er kennd við eyjuna. Hvað heitir eyjan?
5. Í austur af eyju þessari er önnur, öllu stærri, og þar var líka búið. Reyndar voru þar stórbýli og meira að segja klaustur í kaþólskri tíð. Hvað heitir þessi eyja?
6. Í vestur af fyrstnefndu eyjunni er hins vegar enn ein eyja, láglend og grösug en ekki nema 6,6 hektarar að stærð og ekki er vitað til að þar hafi verið búið. Hins vegar er þar töluvert æðarvarp og þar verpa kríur, lundar og margir aðrir fuglar. Hugsanlega var kornrækt í eyjunni einhvern tíma í fyrndinni. Hvað heitir þessi eyja?
7. Hér er spurt um uppfinningu. Árið 1886 gerði Þjóðverjinn Hertz uppgötvun sem síðar mátti nota til að þróa þessa uppfinningu en rúmum áratug síðar hóf Rússinn Popov að feta sig út á þá braut sem svo leiddi til uppfinningarinnar. Það má þó segja að Þjóðverjinn Hülsmeyer hafi orðið fyrstur til að gera raunverulegar tilraunir með vísi að þessari uppfinningu árið 1904, en seinna tóku Bretar forystuna í þróun uppfininngarinnar — Þjóðverjum reyndar til heilmikils tjóns. Hver er uppfinningin?
8. Hvað heitir fjölmennasta borg Mið- og Vestur-Evrópu?
9. Hvert er mikilvægasta hráefnið í fæðutegundinni Blutwurst í Þýskalandi?
10. Hver skrifaði bækur um Öðruvísi daga, Öðruvísi fjölskyldu og Öðruvísi sögu?
***
Seinni aukaspurning:
Hvaða ríki á fána þann sem hér að neðan sést?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Jónas Hallgrímsson.
2. Scarlett Johansen.
3. Kóngulær.
4. Engey.
5. Viðey.
6. Akurey.
7. Ratsjá.
8. London.
9. Blóð.
10. Guðrún Helgadóttir.
***
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni er Donnarumma markvörður ítalska fótboltalandsliðsins í karlaflokki.
Á neðri myndinni er fáni Tékklands.
Athugasemdir