Þessi þraut snýst öll um ímyndaða staði.
Fyrri aukaspurning um myndina hér að ofan:
Hvað heitir landið þessara bræðra?
***
Aðalspurningar!
1. Óseyri við Axlarfjörð er ekki til, nema í bók. En hver er ótvírætt þekktasti íbúi þar?
2. Amerískur reyfarahöfundur skrifaði fjölda skáldsagna þar sem fjallað er um lögreglusveit í 87. hverfi í borginni Isola, sem ekki mun finnast á neinu korti. Meðal lögreglumannanna eru Steve Carella, Meyer Meyer, Cotton Hawes, Bert Kling og Fat Ollie. Hvað hét höfundurinn sem skapaði þetta hverfi í hinni ímynduðu Isola?
3. Gríski heimspekingurinn Platon segir í tveimur verkum sínum frá fornu menningarríki sem hafi verið til fyrirmyndar að ýmsu leyti hvað snertir stjórnsýslu og þess háttar. Hvað kallaði hann ríki þetta?
4. Annar heimspekingur, hinn enski Thomas More, bjó líka til einskonar fyrirmyndarríki sem hann vildi (sennilega) að menn hefðu til eftirbreytni. Hvað kallaðist ríki hans?
5. Sögur miklar hafa gengið um Artúr konung á Bretlandi og riddara hans sem tylltu sér við hringborð eitt mikið, þá þeir voru ekki að bjarga ungum dömum úr drekaklóm eða leita að hinum heilaga kaleik. Í hvaða borg var hringborð þetta?
6. Tatooine heitir pláneta ein, langt langt í burtu. Hún kemur oft við sögu í einum miklum bálki skáldverka af ákveðnu tagi, og að minnsta kosti tvær af aðalpersónunum eru beinlínis þaðan. Hvaða bálkur er þetta?
7. Hvað heitir heimsálfan þar sem mestur hluti af sagnabálknum um krúnuleikana gerist?
8. Hvaða ímyndaða land bjó L.Frank Baum til árið 1900?
9. En hver skapaði hið skelfilega land Mordor?
10. Í um hundruð ár (1550-1650) þvældist ímynduð eyja um kort af Norður-Atlantshafinu. Hún var yfirleitt sýnd suður af Grænlandi eða spölkorn suðvestur af Íslandi. Stærð hennar var mismunandi og mjög misjöfnum sögum fór af byggð á henni. Loks rann þó upp fyrir mönnum að tilvist hennar var þjóðsaga ein og eyjan hvarf af landakortum. Hvað hét þessi ímyndaða eyja skammt frá Íslandi?
***
Seinni aukaspurning:
Hér að neðan má sjá eyju sem kemur við sögu í mjög frægum reyfara sem út kom fyrir um 60 árum og sló rækilega í gegn, ekki síst á Íslandi. Bækur höfundarins seldust síðan eins og heitar lummur á Íslandi í hálfan annan áratug. Nafn eyjarinnar úr þessari tilteknu bók kemur fyrir í sjálfum titli reyfarans. Hvað nefndi reyfarahöfundurinn þessa eyju sína?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Salka Valka.
2. Ed McBain.
3. Atlantis.
4. Utopia.
5. Camelot.
6. Star Wars.
7. Westeros.
8. Oz.
9. Tolkien.
10. Frísland.
***
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni eru bræðurnir Ljónshjarta úr sögu Astrid Lindgren. Nangíala hét landið þeirra.
Á neðri myndinni má sá eyjuna Navarone úr skáldsögunni Byssurnar í Navarone eftir Alistair MacLean.
***
Og svo eru hlekkir hér að neðan!
Athugasemdir