„Tilefni þessa bréfs eru þungar áhyggjur okkar af þeirri stöðu sem nú er komin upp á okkar vinnustað“ segir í bréfi sem tíu læknanemar sendu á framkvæmdastjórn spítalans í gær.
Við erum tíu læknanemar sem nýverið lukum fimmta ári í læknadeild og störfum nú í sumarafleysingum fyrir lækna á bráðamóttöku Landspítala.
Standa einir eftir á gólfinu
Nemanir, sem eru tíu, luku nýverið fimmta ári í læknadeild og starfa í sumarafleysingum fyrir lækna á bráðamóttöku Landspítala. Í bréfinu segja þeir að eins og staðan sé núna sé aðgengi þeirra að ábyrgum sérfræðingum „fullkomlega óviðunandi“ en greitt aðgengi að þeim segja þeir nauðsynlega forsendu þess að læknanemar geti sinnt afleysingastörfum lækna. „Við þetta bætist að þegar bráðveikir sjúklingar leita á bráðamóttöku t.d. vegna fjöláverka, krefjast þeir sjúklingar óskiptrar athygli sérfræðinga og reyndustu sérnámslæknanna. Þá stöndum við, óreyndu læknanemarnir, og nýútskrifaðir læknar sem hófu störf nú í júní, einir eftir á gólfinu án aðgengis að sérfræðilæknum eða reyndari læknum.“
„Við erum óreynd og við erum óörugg í þessum aðstæðum sem þegar hafa skapast“
Þeir segja þetta hættulegt ástand og ljóst að sjúklingar fái ekki fullnægjandi þjónustu. Þar að auki sé það hvorki sjúklingum, þeim sjálfum né samstarfsfólki þeirra bjóðandi. Nemarnir séu hræddir um að í slíkum aðstæðum geta þeir orðið sekir um yfirsjónir. „ Við erum að stíga okkar fyrstu skref á starfsferlinum, við erum óreynd og við erum óörugg í þessum aðstæðum sem þegar hafa skapast. Við erum hrædd um að gerast sek um yfirsjónir sem leiða til ófullnægjandi meðferðar sjúklinga og samsvarandi atvika. Að vera hlutaðeigandi í atviki reynist líklega flestum læknum þungbært, hvað þá læknanema í upphafi starfsferils síns,“ segja þeir.
Nauðsynlegt að bregðast við strax
Í lok bréfsins biðla læknanemarnir til framkvæmdarstjórnar spítalans að gera „strax“ ráðstafanir til að tryggja fullnægjandi mönnun sérfræðinga á bráðamóttöku. „Það er okkar mat að nauðsynlegt sé að bregðast við stöðunni þegar í stað til þess að tryggja öryggi sjúklinga og starfsfólks.“
Undir bréfið skrifa læknanemarnir Teitur Ari Theodórsson, Thelma Kristinsdóttir, Daníel Hrafn Magnússon, Karó Hanzen, Hlíf Samúelsdóttir, Guðrún Karlsdóttir, Rakel Hekla Sigurðardóttir, Rebekka Lísa Þórhallsdóttir, Tómas Viðar Sverrisson og Jón Tómas Jónsson.
Athugasemdir