Um 40% blaðamanna á Íslandi segja að sér hafi einhverntímann verið ógnað eða hótað á starfsferli sínum. Þá segja 7% blaðamanna á Íslandi að þeim hafi verið oft eða mjög oft ógnað eða hótað. Þetta eru niðurstöður alþjóðlegs rannsóknarverkefnis á vegum Worlds of Journalism Study (WJS), sem íslenskur rannsóknarhópur er þátttakandi í. Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Blaðamannsins, blaðs Blaðamannafélagsins.
13% blaðamanna á Íslandi verið lögsóttir síðustu fimm ár
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarverkefnisins á vegum WJS hafa 13% blaðamanna sem tóku þátt í könnuninni verið lögsóttir. Alls tóku 248 íslenskir blaðamenn þátt í könnuninni. Þá hafa 12% blaðamanna verið beittir kynferðislegri áreitni eða kynferðislegu ofbeldi, langstærstur hluti þeirra konur.
Þá sýna niðurstöður rannsóknarverkefnisins að staða blaðamanna hér á landi er ekki mikið frábrugðið frá þeirri stöðu sem þekkist meðal blaðamanna í Evrópu.
Þjóðverjar gera sáttmála til að vernda blaðamenn
Í Þýskalandi ákváðu fagfélög blaðamanna og samtök sem berjast fyrir fjölmiðlafrelsi að koma sér saman og gera sáttmála um hvernig megi vernda blaðamenn sem starfa þar í landi. Þar er að finna tillögur sem grípa beri til þegar blaðamönnum er hótað eða ógnað á einhvern hátt vegna mála sem þeir eru að fjalla um. Þá hefur Evrópuráðið einnig látið sig þetta varða og nú í vor stóðu ýmis samtök þýsks fjölmiðlafólks að sérstakri yfirlýsingu eða sáttmála, þar sem mælst var til að útgefendur þar í landi tækju upp á sína arma að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna sinna.
Yfir 900 blaðamenn látið lífið á síðustu 10 árum vegna starfa sinna
Á síðasta ári létust 50 blaðamenn í heiminum vegna starfa sinna, samkvæmt samtökunum Blaðamanna án landamæra (RFS). Fjöldi blaðamanna sem deyja árlega hefur minnkað, þá sérstaklega í löndum þar sem stríðsástand ríkir. En fleiri blaðamenn eru nú drepnir í löndum sem ekki ríkir stríðsástand. Á árunum 2011 til 2020 létust alls 937 blaðamenn víðs vegar um heiminn. Verstu árin voru 2011 og 2012, en þá létust rúmlega 290 blaðamenn. Samkvæmt RFS voru 84% allra morða á blaðamönnum árið 2020 skipulögð. Árið 2020 hafa 387 blaðamenn verið handteknir, teknir gíslingu eða hafa horfið sporlaust.
Athugasemdir