Félag evrópskra kvikmyndaleikstjóra hefur, ásamt félagi grænlenskra kvikmyndagerðarmanna, samtökum listamanna í Danmörku og félagi danskra kvikmyndaleikstjóra, sent sameiginlega yfirlýsingu til utanríkis- og menntamálaráðuneytis Færeyja þar sem ritskoðunartilburðum ráðherrans Jenis av Rana er harðlega mótmælt.
Í yfirlýsingunni segir að ráðherrann hafi nú í tvígang afturkallað stuðning til kvikmynda, sem færeyski kvikmyndasjóðurinn hafði áður samþykkt að veita styrk. Það hafi gerst í desember síðastliðnum þegar hann hafi neitað að styrkja gerð teiknimyndarinnar Skúla Scam og svo aftur nú. Í þetta skipti hafi Jenis av Rana neitað stuðningi við gerð kvikmyndarinnar Sælu eftir leikstjórann Katrin Joensen-Næs. Viðfangsefni kvikmyndarinnar er kynlífsfíkn kvenna.
„Við erum hneyksluð yfir því að þetta gerist á nýjan leik því hér er um að ræða aðför að listrænu frelsi. Einkum á það við þegar höfnun á stuðningi byggist á persónulegri túlkun ráðherrans á velsæmi,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar segir enn fremur að lýst sé fullum stuðningi við færeyskt kvikmyndargerðarfólk og kallað eftir því að stuðningur við listir fái vernd gegn pólitískri ritskoðun. Endurtekin afskipti stjórnmálamanna komi í veg fyrir samstarf færeyskra kvikmyndagerðarmanna við erlenda aðila.
Jenis av Rana er formaður Miðflokksins í Færeyjum, sem meðal annars leggur áherslu á kristileg gildi og hefur barist gegn réttindum hinsegin fólks. Jenis av Rana hefur áður vakið athygli fyrir fordómafullar skoðanir sínar, byggðar á hans kristilegu heimsýn. Þannig neitaði hann að árið 2010 að sitja kvöldverðarboð lögmanns Færeyja árið 2012 sem haldið var til heiðurs Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, og Jónínu Leósdóttur eiginkonu hennar. Jóhanna var þá í opinberri heimsókn í Færeyjum. Lýsti Jenis av Rana því að heimsókn Jóhönnu væri hrein ögrun og ekki í samræmi við boðskap Biblíunnar. Þar af leiðandi léti hann sér ekki til hugar koma að sitja kvöldverðarboðið.
Athugasemdir