Athugið að hér neðst eru hlekkir á síðustu þraut, og svo þá næstu líka, þegar hún birtist!
En spurningarnar dagsins snúast allar um Grikkland á einn eða annan hátt.
Fyrri aukaspurning:
Hvað heitir stærsta eyjan sem sjá má á myndinni hér að ofan? Hún tilheyrir Grikkland, um það þarf ekki að fjölyrða.
***
Aðalspurningar:
1. Í fornöld var togstreita mikil og oft stríð milli grískra borgríkja. Aþena bar lengi höfuð og herðar yfir önnur borgríki, en á fimmtu öld fyrir Krist töpuðu Aþeningar þó löngu og erfiðu stríði gegn öðru borgríki. Hvað hét það?
2. Forn-Grikkir reistu nýlendur víða um lönd. Hvaða nýlenda þeirra utan Grikklands sjálfs var lengst af öflugust í fornöldinni?
3. Grikkland til forna var mikið feðraveldi. Það er því dæmigert að ein nafnkunnasta konan í forngrískri sögu er aðallega kunn fyrir að vera skapvont skass. Eða svo segir sagan. Hún hét Xanþippa og var eiginkona frægs Forn-Grikkja. Hver var eiginmaðurinn?
4. Önnur nafnkunn kona var hins vegar rómuð skáldkona þótt of fátt hafi varðveist af kvæðum hennar. Núorðið er hún líka kunn fyrir að hafa að öllum líkindum verið samkynhneigð, og samkynhneigð kvenna er raunar kennd við eyjuna Lesbos þar sem hún bjó. En hvað hét hún?
5. Ein allra frægasta söngkona 20. aldar var grísk, þótt hún væri raunar fædd í Bandaríkjunum árið 1923. Hvað hét hún?
6. Hvað nefnist þessi gríski bókstafur — Ω?
7. Að hvaða löndum á Grikkland landamæri? Nefna verður þau öll.
8. Tvö grísk ljóðskáld hafa fengið Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Nefnið annað þeirra. Ef þið þekkið bæði megiði sæma sjálf ykkur lárviðarstigi!
9. Grikkir eru í ESB og nota evruna — eins og frægt varð í efnahagskreppunni fyrir áratug. En hvað hét myntin sem þeir notuðu áður?
10. Fasistaflokkur virtist líklegur til að ná miklu fylgi á Grikklandi þegar verst lét í efnahagskreppunni. Sem betur fer hefur sljákkað í fylgi hans, en hvað nefnist sá flokkur?
***
Seinni aukaspurning:
Hver er karlinn á myndinni hér að neðan?
***
Svör við aðalspurningum;
1. Sparta.
2. Sýrakúsa á Sikiley.
3. Heimspekingurinn Sokrates.
4. Saffó.
5. Maria Callas.
6. Omega.
7. Albanía, Norður-Makedónía, Búlgaría og Tyrkland.
8. Giorgos Seferis og Odysseus Elytis
9. Drakma.
10. Χρυσή Αυγή eða Gullin dögun á íslensku.
***
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni er eyjan Ródos.
Á neðri myndinni má sjá skipakónginn Onassis ungan að árum.
Hann gekk síðar að eiga Jacqueline Kennedy, ekkju Johns F. Kennedys forseta, og varð þá heilmikið uppistand.
Athugasemdir