Um þriðjungur þátttakenda í íslenskri könnun um falsfréttir viðurkenndu að þeir hefðu myndað sér ranga skoðun á opinberri persónu vegna villandi upplýsinga sem þeir höfðu séð í ýmsum miðlum. Í sömu könnun sögðu átta af hverjum tíu að þau hefðu rekist á upplýsingar á netinu sem þau efuðust um að væru réttar og sjö af tíu höfðu séð eða fengið sendar falsfréttir á síðustu tólf mánuðum.
Þetta kemur fram í öðrum hluta skýrslu fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Í skýrslunni er vísað til könnunar Maskínu sem fram fór í febrúar og mars á þessu ári. Auk þess sem nefnt er hér að fram kemur fram að sjö af hverjum tíu sögðu að þau hefðu rekist á uppýsingaóreiðu eða falsfréttir um kórónaveirufaraldurinn á netinu. Í flestum tilfellum hafði fólk séð slíkt á Facebook, í 83 prósent tilfella og í 39 prósent tilfella á öðrum samfélagsmiðlum. Þá hafði tæplega helmingur rekist á slíkar falsfréttir á vefsvæðum sem ekki hafa ritstjórnir og tæpur þriðjungur á YouTube. Ríflega 22 prósent höfðu rekist á á falsfréttir í ritstýrðum dagblöðum.
Þegar horft er til aldurs kemur í ljós að hlutfall þeirra sem efuðust um sannleiksgildi upplýsinga á netinu kemur í ljós að hlutfallið var hæst í aldurshópnum 18 til 49 ára, um 86 prósent. Lægst var hlutfallið í hópi þeirra sem voru 60 ára og eldri, tæp 70 prósent. Þá var sá aldurshópur einnig ólíklegastur til að hafa séð falsfréttir en rúm 48 prósent töldu sig hafa séð slíkar á síðustu tólf mánuðum. Meðaltal þeirra sem töldu sig hafa séð falfréttir í öðrum aldurshópum var hins vegar 72 prósent.
Þá kemur í ljós að yfir helmingur, 55 prósent, höfðu kannað aðrar heimilidir sem þau treystu eftir að hafa rekist á frétt sem þau töldu að væri röng eða falsfrétt. Tæpur fjórðungur brást hins vegar ekki við með þeim hætti. Þá kemur í ljós að þeir sem elstir eru, 60 ára og eldri, og yngsti aldurshópurinn, 15 til 17 ára áttu í mestum vandræðum með að greina falsfréttir og upplýsingaóreiðu, og áttu jafnframt erfiðast með að bregðast við með því að leita sér annarra upplýsinga.
Athugasemdir