Í sinni upprunalegu mynd er femínismi hugmyndafræði sem ætlað var að rétta hlut kvenna. En í dag er ekki um neina skynsemi að ræða í áróðri þeim sem femínísku fræðin halda á lofti. Í dag er femínisminn ekkert annað en trúarbrögð handahófskenndrar hugmyndafræði sem reynir að leiðrétta heiminn á forsendum innantómrar klisju. Okkur er sagt að karlar hafi skapað slæman heim. En sú fullyrðing er blinduð af heimskulegri heift sem á ekki við nein rök að styðjast.
Erindrekar sögufölsunar hafa skilað okkur nýfemínisma. Það er eins og nýfemínisminn sé fundinn upp af áróðursmaskínu þess eina prósents sem á nær alla peninga heimsins. Þessi hugmyndafræði nöldurs og sundurþykkju virðist sett fram til þess eins að skapa illdeilur og óreiðu hjá hinni stóru millistétt, svo hún komist hjá því að tala um aðalatriðið, sem er kúgun fjöldans – kúgun karla og kvenna. Nöldur um keisarans skegg dregur athyglina frá öllum aðalatriðunum. Aumingjavæðing og fórnarlambamenning ráða ríkjum. Fjöldinn hefur ákveðið að tjóðra sig einsog Ingjaldsfífl við næsta staur og fer sjálfviljugur í gapastokk fáfræðinnar. Allt er þetta gert til að þjóna gildum sem eru sprottin af tærri heimsku eða hreinlega plantað í frjóan jarðveg fólskunnar.
Hugmyndin um að kasta kynjatvíhyggju á glæ og taka upp eitthvað annað, er alltaf dæmd til að mistakast. Einkum vegna þess að það eru til hlutverk sem eru kynbundin og það eru í grunninn til tvö kyn. Ef einhver ætlar að segja mér að til séu fleiri kyn, þá má sá hinn sami trúa því. Í mínum huga var móðir mín í hlutverki sem pabbi minn hefði aldrei getað farið í. Hann hefði ekki einu sinni getað leikið það með sæmilegasta hætti. Pabbi var í hlutverki sem mamma gat aldrei reynt að sinna.
„Í mínum huga var móðir mín í hlutverki sem pabbi minn hefði aldrei getað farið í“
Þær breytingar sem femínísk fræði dagsins í dag eru að halda á lofti, segja okkur þá furðusögu, að kynhlutverk þurfi ekki að vera til. Sú leið fölsunar sem farin er til að sanna málið er fólgin í að agnúast út í allt sem fellur ekki – óþvingað – undir huliðshjálm heimskunnar. Femínistar reyna ekki einvörðungu að leiðrétta söguna, með því að grafa upp konur sem sagt er að hafi verið jafn merkilegar, ef ekki merkilegri en nokkur karl, heldur er einnig reynt að breyta orðræðunni með bannorðum. Þetta orða stríð og þessi heimskulega kvenvæðing sögunnar er svo hjákátleg að hún verður að trúarlegri minnimáttarkennd sem er svo aumkunarverð, að það nær engu tali. Bannorðalistarnir munu bara lengjast á kostnað gáfnafarsins. Búin er til fórnarlambavæðing til þess eins að rugla fólk í ríminu. Reynt er að gera lítið úr heimi karlaveldisins og það er gert með því að reyna að halda því fram að í sögu okkar hafi leynst betri kostur. En hið sanna er, að það er bara til sú söguskýring sem kemur eftir að sagan hefur verið sögð. Auðvitað leyndist betri kostur. En hann var ekki tengdur kynjum, kynhneigð eða kynbundnum gildum. Hann er ekki tengdur orðum eða bannorðum.
Lúsugar hjarðir bárust um álfur og hver sinnti því hlutverki sem hann þurfti að sinna. Söguskýringar reistar á gildismati nútímans hafa ekkert að segja. Sagan verður ekki leiðrétt með nýfemínisma sem reynir að fegra hlut kvenna og kenna körlum um allt sem miður fór í heimi hörmunga.
Engin mistök hafa verið gerð einungis vegna þess að einhverjir karlar fóru með völd. Og það er ekkert sem segir að mistökum hefði fækkað þótt konur hefðu stjórnað öllu – á himni og á jörð. Þetta snýst ekki um kyn og þetta snýst ekki um að leiðrétta heiminn í gegnum orðræðu. Þetta snýst um hugtök einsog mannúð, sanngirni og réttlæti.
Við breytum ekki heiminum með því að skapa hjákátlegar mýtur og nærast á innantómum klisjum. Heiminum verður breytt t.d. með virðingu, umburðarlyndi, jafnrétti, réttlátri skiptingu og sanngirni. Honum verður ekki breytt með heimskulegum hártogunum og tittlingaskít. Auðvitað má hver sem er rembast einsog rjúpan við staurinn. En við getum ekki leyft fáfræðinni að ná undirtökum í gegnum bannorðalista. Það má svo sem reyna að eyða orðum einsog „hjúkrunarkona“, „forstjóri“, „fóstra“, „kennslukona“ og fleiri slíkum. Það má jafnvel reyna að eyða hinu gildishlaðna orði „ljósmóðir“. Það má meira að segja banna orðið „maður“. En hér er það sem forheimskun femínismans nær áður óþekkum hæðum. Með því að breyta orðum eða banna þau er ætlunin að breyta heiminum. En það er álíka gáfulegt og að ætla að breyta lit skuggans með því að færa fjallið. Heiminum verður ekki breytt með því að banna orð. Heimsmyndir munu verða skrumskældar ef við horfum framhjá því að grundvöllur mannkynsins er reistur samruna karls og konu. Orð koma og fara, tungumál eru í stöðugri þróun og þeirri þróun verður ekki stýrt með bannorðalistum. Hugsunin heldur sínu striki.
Hin stóra staðreynd er sú, að nýfemínismi er í dag öfgatrú, sem virðist hafa það eitt að markmiði að kollvarpa grunngildum samfélagsins með því að skapa úlfúð og raða mönnum í fylkingar, ekki sem fulltrúum kynja eða sem hluta af heild – ólíkra einstaklinga, heldur snýst flokkunin um að vera með eða á móti fordómum, í gegnum leið sem fordæmir söguna á kolröngum forsendum og reynir að byggja nýjan heim á grunngildum sem hafa aldrei verið til, eru ekki til og verða aldrei til.
Ef fulltrúa nýfemínismans langar að gera mig að vondum manni og reyna að gera mig að blóraböggli þá verður það gert með þeim eina hætti sem þessi öfgahyggja hefur sett á oddinn, þ.e.a.s. með því að slíta orð mín úr samhengi og reyna að fá mig til að skammast mín fyrir að vera karlmaður. En þeirri skömm skal beint í aðrar áttir. Ég mun aldrei skammast mín fyrir kyn mitt. Ég get ekki skammast mín fyrir að vera maður, ég get ekki skammast mín fyrir að vera karl.
Nýfemínisminn hefur með áróðri einhvers konar druslumenningar reynt að afbaka tungumálið og reynt að ráðast að körlum einsog þar sé einungis um hjörð illmenna að ræða. En karlar eru ekkert verri en konur. Mýtan um hinn illa karlpening er studd rökum sem halda hvorki vatni né vindum. Í gegnum falsrök veltir fólk styttum af stöllum og heimtar uppgjör við fortíð sem var reist á rökum sem áttu við í eina tíð en eiga ekki við í dag.
Staðreyndin er sú að sögunni verður ekki breytt. Hér kenndi neyðin naktri konu að spinna og sama neyð kenndi nötrandi karli að vinna. Menn þurftu skjól, mat og andlegt fóður. Hið líkamlega, hið andlega og hið félagslega varð að haldast í hendur með einum eða öðru hætti. Menn gerðu það sem gera þurfti til að lifa af. Og heilu hjarðirnar af konum og körlum lærðu að beygja sig undir drottnunarvald fámennrar klíku.
Það er komið alveg nóg af tilraunum til að auka ólund fólks með gervivísindum nýfemínismans. Nóg er komið af aumingjavæðingu og fórnarlambamenningu. Bannorðalistar munu engu breyta. Núna skulum við snúa okkur að hinum sanna óvini; hinu eina prósenti – körlunum og konunum sem eiga nær allt á plánetunni okkar, plánetunni sem er að sigla inn í erfiða tíma, einkum vegna þess að hér hefur gráðugt fólk stýrt og stjórnað. Við getum breytt heiminum en það verður ekki gert með nöldri um orð og kyn.
Kristján Hreinsson, skáld og heimspekingur
Athugasemdir