Í yfirlýsingu sem samtökin birtu í dag er kallað eftir breiðfylkingu almennings, félagasamtaka, stéttarfélaga, samtaka uppljóstrara, fræðasamfélags, stjórnmálanna og allra þeirra sem vettlingi gegn þessum tilraunum útgerðarfyrirtækisins.
Tilefni tilkynningarinnar er umfjöllun Stundarinnar og Kjarnans um „skæruliðadeild“ Samherja. Þar kom meðal annars fram að almannatengill á snærum Samherja og innanhúslögmaður fyrirtækisins hafi notað skipstjóra til að leppa skrif sem birst hafa til varnar fyrirtækisins á síðustu mánuðum. Skrif sem hafa haft þann megintilgang að grafa undan trúverðugleika þeirra blaðamanna sem fjallað hafa um Samherjaskjölin svokölluðu.
„Skæruliðarnir“ beindu sjónum sínum líka að þeim sem gagnrýnt höfðu fyrirtækið. Svo sem Íslandsdeild Transparency International, sem áður hefur birt harðorðar yfirlýsingar vegna framferðis Samherja.
Fyrirtæki sem eru meðvituð um almannahag þurfa ekki „skæruliðadeild“ sem lætur sig dreyma um að „stinga, snúa og strá svo salti í sárið“
„Fyrirtæki sem hafa ekkert að fela stunda ekki árásir á fólk sem berst fyrir bættu samfélagi og almannaheill. Fyrirtæki sem eru meðvituð um almannahag þurfa ekki „skæruliðadeild“ sem lætur sig dreyma um að „stinga, snúa og strá svo salti í sárið“,“ segir í yfirlýsingu Transparency International, þar sem vitnað er til samskipta Samherjafólks sem afhjúpuð voru í Stundinni síðastliðinn föstudag.
Samtökin kalla eftir því að stjórnmálamenn láti í sér heyra.
„Stjórnmálamenn og sérstaklega stjórnarliðar geta ekki lengur komið sér undan því að takast á við hið pólitíska og kerfislæga umhverfi sem umber svona framgöngu árum sama,“ segir í yfirlýsingunni og því bætt við að annað hvort séu stjórnmálamenn með almenningi í baráttunni gegn spillingu eða á móti með þögn, meðvirkni, aðgerðarleysi og seinagangi við að koma upp nútímalegum spillingarvörnum.
Athugasemdir