„Mér þykir leitt hvernig ég hef hagað mér, ég biðst afsökunar á því,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Í yfirlýsingu sem hann birti á Facebook kemur fram að leitað hafi verið til fagráðs Vinstri grænna vegna framgöngu hans gagnvart konum. Hann hafi engu að síður ákveðið að sækjast eftir öðru sæti á lista flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæmanna, en áður hafði hann sóst eftir því að leiða lista í Suðurkjördæmi og hafnað í fjórða sæti.
Nú hefur hann horfið frá væntingum sínum um sæti á lista. Ástæðuna segir hann vera þá að hann hafi djöfla að draga og óuppgerð mál úr fortíðinni. Eftir að hann heyrði af því að hegðun hans olli konu mikilli vanlíðan hafi hann leitað sér aðstoðar. „Ég vil ekki sýna af mér hegðun sem konur upplifa sem óeðlilega,“ skrifar Kolbeinn.
Ekki hefur komið fram um hvað kvörtun til fagráðs snerist.
Í tilraun Kolbeins til að útskýra hvað veldur hegðun hans segist hann vera hræddur við að verða særður. Til þess megi rekja ástæðuna fyrir því að hann verði kaldur, fjarlægur, komi sér burt, hlaupi í felur og lætur sem konur skipti hann ekki máli eftir að hann hafði áður gefið til kynna að hann hygði á langtímasamband með þeim.
Umræða undanfarinna daga hafi gert það að verkum að hann tók ákvörðun um að endurskoða framboð sitt til áframhaldandi þingsetu. Hann sé hluti af valdakerfinu og femíniskum flokki sem á alltaf að standa með konum. Kvenfrelsi er eitt af leiðarstefunum í stefnu Vinstri grænna. Í stefnuyfirlýsingu segir að flokkurinn einsetji sér að uppræta allar birtingarmyndir kynjajafnréttis og brjóta þannig upp skaðlegt kynjakerfi.
„Ég held að ég geti ekki staðið bæði með mér og konunum sem líður illa mín vegna á meðan ég er í framboði fyrir VG. Og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, eða nokkur þar innan borðs, á ekki að þurfa að svara fyrir mína hegðun. Á henni ber ég einn ábyrgð.“
Farsælast sé að hann hverfi úr opinbera rýminu og leiti sér aðstoðar við að ráða betur við samskipti og tengsl. Einmanaleiki sæki að og ótti við að verða alltaf einn: „Minn mesti ótti er að ég sé dæmdur til að vera einn af því að ég geti ekki gefið það af mér sem þarf til að koma í veg fyrir einmitt það.“
Að lokum heitir Kolbeinn því að vinna að því að verða að betri manni.
Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga sendi Kolbeinn einnig frá sér yfirlýsingu á Facebook um breyskleika sína. Þar greindi hann frá því að hann hefði átt við áfengisvanda að stríða og safnað skuldum, farið í meðferð og fram á gjaldþrot. Hann hefði lagt sjálfur fram beiðni um gjaldþrotaskipti og væri á leið í þrot, þar sem honum myndi ekki endast ævin til að greiða 20 milljóna króna skuldir. „Eins og sönnum alkóhólista sæmir lokaði ég alltaf augunum fyrir þessu, sérstaklega þegar upphæðirnar voru orðnar svo háar að ég missti raunveruleikasamband við þær – raunar var mitt raunveruleikasamband aldrei gott,“ segir hann. Sagðist hann vilja axla ábyrgð með því að fara fram á gjaldþrot en að hann myndi nýta reynsluna til að þroskast áfram og verða nýtur þjóðfélagsþegn.
Í samtali við DV um málið sagði hann, aðspurður um tilefni yfirlýsingarinnar: „Ég vil eiga líf án leyndarmála, jafnvel þegar óþægilegir hlutir eiga í hlut.“
Yfirlýsingu Kolbeins má lesa í heild sinni hér að neðan:
Dreg framboð mitt til baka
Ég hef í all nokkur ár átt í erfiðleikum með að mynda náin tengsl. Kemur þar ýmislegt til, en í grunninn held ég að undir búi varnarmekanismi. Meðvitað og ómeðvitað er ég svo logandi hræddur við að verða særður að sú tilfinning tekur yfir. Á sama tíma er ég hrifnæmur og þegar við bætist löngun og von til að verða ekki einn, hafa ný sambönd við hitt kynið stundum farið af stað eins og flugeldar. Allt er gott og ég sannfærður um að nú sé ég kominn á þann stað að geta myndað ný og varanleg tengsl.
En svo hef ég rekist á vegg. Það getur verið einhver ákveðinn viðburður sem það kveikir eða bara að eitthvað rennur upp innra með mér. Ég dreg tjöldin fyrir, verð kaldur og fjarlægur og reyni að koma mér í burtu.
Með þessu hef ég komið illa fram við konur. Ég hef gefið til kynna langtímasamband, byggt á heitum og djúpum tilfinningum. Og þær hafa verið það. En svo hleyp ég í felur, brest undan. Hugsa meira um að verja mig mögulegum skaða en það hvernig ég kem fram. Geri það því illa, kem illa fram. Læt konunum líða eins og þær hafi ekki skipt mig máli, sem er kolrangt. Að þær geri það ekki lengur, sem er líka kolrangt. Skríð inn fyrir skelina mína og í öryggið og einmanaleikann þar.
Á sama tíma hef ég oft og tíðum verið svo einmana að sú tilfinning hefur á stundum heltekið mig að ég verði alltaf einn. Minn mesti ótti er að ég sé dæmdur til að vera einn af því að ég geti ekki gefið það af mér sem þarf til að koma í veg fyrir einmitt það.
Ég hef mína djöfla að draga og ýmislegt óuppgert úr fortíðinni. Undanfarna mánuði hef ég fundið að eitthvað sé að breytast innra með mér, ég er að verða opnari og óhræddari, í minni vörn. Þegar mér svo barst til eyrna að hegðun mín hefði valdið konu mikilli vanlíðan varð ég fús til að leita mér aðstoðar vegna þessa. Ég vil ekki koma þannig fram að öðru fólki líði illa. Ég vil ekki sýna af mér hegðun sem konur upplifa sem óeðlilega.
Nú er mikil og þörf bylgja í gangi þar sem konur segja frá. Það er aðdáunarvert að þær geri það og ég vona innilega að gott komi út úr því. Á dögunum var leitað til fagráðs VG með kvartanir vegna hegðunar minnar. Það ferli sem þá fór af stað opnaði augu mín fyrir því að ýmislegt hefur verið ábótavant í minni hegðun. Ég ákvað engu að síður að gefa kost á mér í forvali Vinstri grænna í Reykjavík. Umræða undanfarinna daga hefur hins vegar gert það að verkum að ég hef endurskoðað þá ákvörðun.
Ég er hluti af valdakerfinu og ég er hluti af feminískum flokki sem á alltaf að standa með konum. Ég held að ég geti ekki staðið bæði með mér og konunum sem líður illa mín vegna á meðan ég er í framboði fyrir VG. Og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, eða nokkur þar innan borðs, á ekki að þurfa að svara fyrir mína hegðun.
Á henni ber ég einn ábyrgð. Mér þykir leitt hvernig ég hef hagað mér, ég biðst afsökunar á því. Það góða kom út úr þessu öllu að ég er að leita mér aðstoðar til að ráða betur við samskipti og tengsl og mun halda því áfram. Það er hins vegar best fyrir öll að ég boði brottför mína úr hinu opinbera rými í haust. Ég dreg framboð mitt í forvali Vinstri grænna í Reykjavík til baka og verð því ekki í framboði í kosningunum. Ég þakka öllu því góða fólki sem hvatti mig og studdi og þykir leitt að valda því vonbrigðum.
Ég hef ýmislegt að læra og mun leggja mig fram við að verða að betri manni. Ég vona að þessi ákvörðun mín verði til einhvers góðs.
Athugasemdir