Jón Trausti Reynisson skrifar leiðara í Stundina um „kvíðaveiruna“ þar sem hann gagnrýnir viðleitni til að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið sem honum virðist þykja óraunhæft markmið og fylgi því „kvíði, fordómar og valdbeitingarþörf“. Jón virðist fremur aðhyllast að halda sjúkdómnum niðri „taktískt“. Þarna kem ég við sögu þegar hann skrifar:
„Fólk í stjórnmálaham steig öldu óttans og jafnvel var talað um „réttinn til að smita“ andspænis öðrum réttindum, eins og að verða ekki frelsissviptur með tilteknum hætti.
„Þeir telja réttinn til að smita og smitast æðri rétti samfélagsins til að verja sig,“ skrifaði Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook, í umkvörtun um að Sjálfstæðismenn hefðu ekki viljað auka valdheimildir yfirvalda til að loka fólk inni.“
Ég vil nú ekki fallast á þann skilning sem mér sýnist Jón Trausti leggja í orð mín. Ég tel mig ekki stunda óttastjórnmál, þó að ég hafi leyft mér að vega og meta þá hagsmuni sem í húfi eru í þessu máli. Mér leiðist að vera dreginn í dilk með fólki sem hefur fordóma gagnvart útlendingum eða „valdbeitingarþörf“. Covid-19 er mikið alvörumál í mínum augum og ég lít á það sem samfélagslegt verkefni að takast á við veiruna en ekki bara einstaklingsbundið, þó að vissulega þurfum við hvert og eitt að gæta að sóttvörnum okkar. Mér er ljóst að meðalhófs þarf alltaf að gæta þegar réttindi borgaranna eru í húfi. Afleiðingar þess að veikjast af Covid-19 geta verið skelfilegar fyrir einstaklinga, það sjáum við æ betur eftir því sem lengra líður á þennan faraldur, þó margt fólk nái sér til allrar hamingju fljótt. Veirunni fylgir líka gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið og aðra innviði og í húfi er atvinna og afkoma þúsunda fólks. En vegna túlkunar Jóns Trausta á orðum mínum langar mig að fá að deila með lesendum Stundarinnar því sem ég skrifaði á Facebook-síðu mína, 4. og 5. apríl, og hann er væntanlega með í huga.
Fangelsi? Veit ekki hvort líkja má sóttkví við komuna til landsins við slíkt. Veit bara hitt: við erum öll með afleiðingarnar af veirunni í fanginu. Þetta hefur áhrif á líf okkar allra. Fái hún að grassera óáreitt myndu fylgja því hörmungar fyrir einstaklinga og samfélag. Hér togast á hagsmunir samfélagsins – allsherjarhagsmunir – og hagsmunir tiltekinna einstaklinga, ferðalanga og þeirra sem selja ferðalöngum gistingu og þjónustu. Mikilsverðir hagsmunir vissulega – en sérhagsmunir. Vísað er til stjórnarskrárbundinna réttinda einstaklinga til að geta um frjálst höfuð strokið og farið ferða sinna, en sóttvarnalög kveða eigi að síður á um heimildir ráðherra til að grípa til ýmissa ráðstafana til varnar samfélaginu. Því miður komu Sjálfstæðismenn í veg fyrir skýr ákvæði um bólusetningarvottorð og skyldusóttkví í sóttvarnarhúsi, þegar lögin voru endurskoðuð, og fengu þar sem víðar að ráða för, og því er nú uppi óvissa. Þeir telja réttinn til að smita og smitast æðri rétti samfélagsins til að verja sig.
„Þeir telja réttinn til að smita og smitast æðri rétti samfélagsins til að verja sig.“
...
Við viljum vera frjáls til að hugsa og segja hug okkar án þess að eiga ofsóknir á hættu. Við viljum tala, syngja, elska, trúa og skapa eins og okkur er eiginlegt að gera án þess að frelsi okkar sé heft af þeim sem aðhyllast annan þankagang. Við viljum fá að vera þau sem við erum án þess að einhverjir troði okkur inn í sitt box. Við viljum frelsi til athafna og tjáningar. En frelsið er ekki bara til hluta – heldur snýst frelsiskrafan líka um frelsi undan hlutum. Frelsi undan fátækt. Frelsi undan skömm. Frelsi undan ofsóknum. Frelsi undan mismunun. Og frelsi undan þjáningum. Deila dagsins snýst ekki bara um réttinn til að smitast og smita heldur ekki síður um réttinn til vera ekki smitaður (og eru þá samfélagsrök látin liggja á milli hluta). Þegar ég fer út í búð á ég rétt á því að sóttvarna sé gætt, og samborgarar mínir leiti allra leiða til að lágmarka hættu á smiti. Frelsið er dýrmætast alls, en það er takmörkunum háð: það nær ekki til þess að mega koma fram við aðra að vild, særa, ræna, skaða, drepa – já eða smita ... (5. apríl)
Athugasemdir